Samráð fyrirhugað 29.08.2023—28.09.2023
Til umsagnar 29.08.2023—28.09.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 28.09.2023
Niðurstöður birtar

Auðlindin okkar - sjálfbær sjávarútvegur

Mál nr. 159/2023 Birt: 29.08.2023 Síðast uppfært: 25.09.2023
  • Matvælaráðuneytið
  • Stöðumat og valkostir
  • Málefnasvið:
  • Sjávarútvegur og fiskeldi

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (29.08.2023–28.09.2023). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs lokaniðurstöður starfshópa í Auðlindinni okkar í formi skýrslunnar Sjálfbær sjávarútvegur.

Þann 31. maí 2022 skipaði ráðherra samráðsnefnd um sjávarútvegsstefnu og fjóra starfshópa til að vinna tillögur í sjávarútvegsstefnu, en verkefnið fékk heitið Auðlindin okkar. Starfshópar Auðlindarinnar okkar hafa nú skilað til ráðherra lokaniðurstöðum sínum.

Lokaniðurstöðurnar eru settar fram í þremur ritum:

Rit 1 - Skýrsla - Auðlindin okkar - sjálfbær sjávarútvegur.

Rit 2 - Könnun um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegs.

Rit 3 - Tæpitungulaust - ábendingar sem komið hafa fram hjá almenningi, sérfræðingum og hagaðilum í gegnum samráð verkefnisins.

Niðurstöður starfshópanna fjögurra eru settar fram á grunni þriggja stoða sjálfbærrar þróunar, umhverfi, efnahag og samfélag, með sambærilegum hætti og gert var með þær 60 bráðabirgðatillögur sem starfshóparnir kynntu í janúar 2023. Í skýrslunni er fjallað um verklag Auðlindarinnar okkar, sett fram drög að stefnu um sjávarútveg, greining á niðurstöðum könnunar um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegs og mat á þjóðhagslegum ávinningi fiskveiðistjórnunarkerfisins. Fjallað er um þær 60 bráðabirgðatillögur sem lagðar voru fram í janúar með nánari hætti og þær annað hvort samþykktar sem hluti af lokaniðurstöðum eða ekki og tilgreint hverjar ástæður þess eru. Þá bættust einnig við nýjar tillögur. Á grundvelli tillagna starfshópanna hefur verið sett fram tillaga að aðgerðaráætlun, þar sem lýst er markmiðum aðgerða, ábyrgðaraðila og tímamörkum og þær tengdar við einstakar bráðabirgðatillögur.

Lokaniðurstöður Auðlindarinnar okkar voru kynntar á fundi og í streymi 29. ágúst 2023. Hér með er óskað eftir umsögnum, athugasemdum og ábendingum um lokaniðurstöðurnar. Frekari upplýsingar og gögn vegna verkefnisins má nálgast á vefsíðu verkefnisins https://www.stjornarradid.is/audlindin-okkar/

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Landvernd, landgræðslu- og umhverisverndarsamtök Íslands - 19.09.2023

Vinsamlegast sjá umsögn Landverndar í viðhengi

kveðja

Auður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Kauphöll Íslands hf. - 19.09.2023

Góðan daginn.

Meðfylgjandi er umsögn Kauphallar Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Ragnar Árnason - 25.09.2023

Meðfylgjandi er umsögn mín um umrætt mál.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Heiðrún Tryggvadóttir - 25.09.2023

Í Samráðsgátt stjórnvalda hafa verið birtar lokaniðurstöður starfshópa matvælaráðherra, sem hafa unnið tillögur að sjávarútvegsstefnu fyrir Ísland undir nafninu Auðlindin okkar.

Eitt úrlausnarefna starfshópanna var að fjalla um framtíð menntunar í sjávarútvegi. Var því málefni fundinn staður hjá hóp sem nefndist Tækifæri og var stofnaður undirhópur með það tiltekna verkefni að útbúa tillögur sem varða menntunarmál. Tekið er fram að kynning lokaskýrslunnar og framlagning tillagnanna marki ekki endalok vinnunnar, heldur sé það upphaf að frekari umræðu og vinnu um málefnið.

Undirritaðir skólameistarar, fyrir hönd Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, Menntaskólans á Ísafirði og Verkmenntaskóla Austurlands fagna því að fá tækifæri til að taka þátt í umræðu og vinnu um málefnið og vilja koma á framfæri sjónarmiðum sínum er varða þátt menntunar í skýrslunni og undirbúningsvinnu skýrslunnar og segja frá samstarfi sinna skóla sem hefur verið farsælt, nútímalegt og framsýnt og fellur vel að tillögum og framtíðarsýn skýrslunnar.

Í janúar 2023 var undirritaður samningur milli þriggja vestfirskra fiskeldisfyrirtækja, Menntaskólans á Ísafirði og Vestfjarðastofu um fjármögnun undirbúningsvinnu vegna uppbyggingar á nýrri framhaldsskólabraut með vinnuheitið Hafið, auðlindir og umhverfið. Markmið samstarfsins er að undirbúa námsbraut sem hentaði til að mennta hæft fólk sem gæti sinnt fjölbreyttum störfum innan fiskeldis en jafnframt sem undirbúningur fyrir frekara nám sem tengist auðlindum hafsins, jafnt fiskeldi sem sjávarútvegi. Menntaskólinn á Ísafirði tók að sér að fóstra verkefnið og hefur undirbúningsvinna staðið yfir á þessu ári. Stefnt er að því að námsbrautin verði í boði hjá fyrrnefndum skólum sem hafa unnið saman undanfarin ár í gegnum Fjarmenntaskólann sem er samstarfsvettvangur tólf framhaldsskóla á landsbyggðinni um aukið framboð náms á framhaldsskólastigi á landinu öllu. Einkum er horft til þess að auka framboð á sérgreinum starfsnámsbrauta.

Skólarnir sem taka þátt í undirbúningi fyrir þessa nýja námsbraut eru allir á landssvæðum þar sem mikill vöxtur hefur verið í fiskeldi og tengdum greinum. Ætlunin er að brautin verði í boði í öllum skólunum og munu skólarnir samnýta þekkingu og mannauð en verklegt nám fer fram á hverjum stað fyrir sig. Með náminu byggist upp þekking í landsfjórðungunum sem mun nýtast til starfa innan fiskeldis en jafnframt sem grunnur að frekara námi innan fiskeldis, sjávarútvegs og auðlindafræða. Vestfirsku fyrirtækin þrjú og Menntaskólinn á Ísafirði lögðu fram fjármuni til undirbúnings námsbrautinni en henni er ætlað að verða sjálfbær um rekstur þegar hún verður tilbúin og samþykkt af skólayfirvöldum.

Það ber að taka fram að þó aðaláhersla skýrslunnar um Auðlindina okkar sé hefðbundinn sjávarútvegur er fiskeldi þó ekki útilokað frá umfjöllun starfshópsins og kemur fyrir í mörgum tillögum. Fyrr á þessu ári var kynnt skýrsla Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi og er stefnumótunarvinna hafin hjá ráðuneyti matvæla. Í þeirri skýrslu var m.a. fjallað um þörf fyrir aukið framboð á menntun og uppbyggingu hagnýtra námsleiða sem uppfylla þarfir nemenda og greinarinnar. Í umfjöllun um samfélagsleg áhrif lagareldis á sveitarfélög er nefnt að endurskoða þurfi menntunarúrræði og þróun hagnýtra námsleiða sem stefna á atvinnu í lagareldi. Samstarf og undirbúningur þessara skóla og fyrirtækja er því algjörlega í takt við þær tillögur sem nefndar hafa verið til úrbóta varðandi lagareldi.

Menntun tengd hafinu verður þegar betur er að gáð ekki auðveldlega skipt upp milli sjávarútvegs sem tengist fiskveiðum og sjávarútvegs sem varðar fiskeldi. Þessar tvær greinar auðlindanýtingar hafsins eru báðar háðar því að hafa gott tæknimenntað fólk, t.d. í skipstjórn og vélstjórn en þekking á samspili umhverfis, samfélags og atvinnulífs er báðum greinum nauðsynleg, auk þess sem meðferð hráefnis og vinnsla spilar stórt hlutverk í báðum greinum.

Í samantekt á bls. 9 má finna lokatillögur starfshópanna, þar á meðal nokkrar tillögur er varða sérstaklega menntun. Lagt er til að efla samráðsvettvang um menntun í sjávarútvegi fyrir sjávarútvegsfyrirtæki, rannsókna- og menntastofnanir. Lagt er til að tryggja að skólar geti tekið við og menntað fleiri nemendur í þeim greinum sem tengjast sjávarútvegi og að ímynd og námsumhverfi á námsbrautum tengdum sjávarútvegi verði breytt og laðaðir að fjölbreyttari nemendahópar með tilliti til kyns og uppruna.

Tillögur skýrslunnar um framtíðarsýn íslensks sjávarútvegs hvað varðar menntun eru allar þess eðlis að eiga skilið stuðning okkar sem ritum þessa umsögn. Það eru þó vankantar á úrvinnslu og útfærslu tillagnanna sem tilefni er til að vekja athygli á og snerta skort á gegnsæi við samráð og vinnubrögð við samráð sem eru ekki til eftirbreytni.

Í skýrslunni segir: „Á tímabilinu janúar til og með maí 2023 var unnið að frekari úrvinnslu og útfærslu tillagnanna og lagt mat á það hvaða tillögur yrði lagt til að yrðu hluti af lokaniðurstöðum starfshópanna. Var úrvinnslu tillagnanna skipt niður á sérfræðinga úr starfshópunum fjórum. […] Menntahópur: Hlutverk menntahópsins var að vinna nánari útfærslu á tillögum um menntun í sjávarútvegi (bráðabirgðatillögur 35-44) og meta hvaða mögulegu aðgerðir þarf að grípa til svo hrinda megi tillögunum í framkvæmd. Hópinn skipuðu: Hildur Ingvarsdóttir, Ari Kristinn Jónsson og Hreiðar Þór Valtýsson.“

Í byrjun maí barst undirrituðum til eyrna að til stæði að halda vinnufund sex dögum síðar með nokkrum menntastofnunum í tengslum við vinnu starfshóps um menntun undir merkjum Auðlindarinnar okkar. Fundahöld og samráð þessara menntastofnana hafði verið ákveðið í óformlegu samtali fulltrúa nokkurra skóla sem hittust fyrir tilviljun á sjávarútvegssýningunni 2022. Stofnanirnar sem um ræðir og voru hluti af þessu samtali voru Fisktækniskólinn, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum, Háskóli Íslands, Tækniskólinn, Slysavarnaskóli sjómanna og Matís. Tilgangur fundarins var að safna tillögum fyrir sérfræðinga í starfshópi um menntun og áttu þær að nýtast sérfræðingunum við skýrslugerð fyrir lokaskýrslu þá er birt var og kynnt 29. ágúst. Tekið var sérstaklega fram í fundarboði að einungis væri um staðfund að ræða og var Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra boðin þátttaka tæpri viku fyrir fund, en engum öðrum af undirrituðum framhaldsskólum. Fáir framhaldsskólar bjóða upp á nám til skipstjórnar- og vélstjórnarréttinda og eru Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Menntaskólinn á Ísafirði og Verkmennaskóli Austurlands þar á meðal þó ekki sé í boði að taka efstu stig þessara réttinda við skólana og búið er að tíunda eðli samstarfsverkefnis við fiskeldisfyrirtæki á Vestfjörðum um undirbúning námsbrautar á framhaldsskólastigi í fiskeldi.

Óánægju með þetta samráðsleysi og skort á gegnsæi og formlegri aðkomu eða upplýsingaöflun sérfræðinganna um hvaða menntastofnanir gætu viljað eða átt rétt á aðkomu að þessari vinnu var komið á framfæri við starfsfólk ráðuneytisins strax og þetta var kunnugt en að sögn ráðuneytisins var þessi vinna alfarið á ábyrgð starfshópanna. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að þessar mennta- og rannsóknastofnanir sem fengu sæti við borðið skuli eiga aðkomu að vinnu starfshópsins. Þetta eru stofnanir sem sinna mikilvægri menntun og rannsóknum í sjávarútvegi en það sem er óeðlilegt er skortur á aðkomu annarra sem það gera og þar með skortur á gagnsæi. Málið væri sennilega ekki alvarlegt eða kallaði á athugasemdir ef ekki væri fyrir það að í skýrslunni um Auðlindina okkar er beinlínis lagt til að setja fjármagn til þróunarverkefna hjá þessum tilteknu stofnunum sem fengu þetta tækifæri til að sitja hjá sérfræðingunum og hafa mögulega fengið að ákveða eða leggja til sína eigin fjármögnun. Gagnsæið er ekki beinlínis augljóst, þegar litið er til þess hvernig stofnanir virðast handvaldar til aðkomu, skrafs og ráðagerðar, sem er undirstrikað með takmörkunum á aðgengi með því að útiloka möguleika á fjarfundi. Það er svo annað og jafnvel alvarlegra, ef málið er skoðað með pólitískum gleraugum, að tvær af þeim stofnunum sem er lagt til að fái sérstakt fjármagn eru í einkaeigu.

Í bráðabirgðatillögum (bls. 252) sést með skýrum hætti í sex af tíu tillögum að lagt er til með beinum hætti að styrkja þátttakendur í samráðinu með fjármagni. Hægt er að nefna nokkrar háskólastofnanir, fræðslumiðstöðvar, símenntunarstöðvar og framhaldsskóla sem hæglega hefðu getað tekið þátt og jafnvel sinnt þeim verkefnum sem lagt er til að verði sinnt hjá stofnunum þeim sem fengu að taka þátt í samningu tillagnanna :

1. „Bráðabirgðatillaga 35

Efla samráðsvettvang um menntun í sjávarútvegi fyrir sjávarútvegsfyrirtæki, rannsóknar- og menntastofnanir.

Lýsing tillögu

• Virkt samráð á milli sjávarútvegsfyrirtækja, rannsóknar- og menntastofnana, sér í lagi á framhalds- og háskólastigi, veitir sýn á framtíðarþarfir geirans varðandi menntun.

• Tenging menntunar, á öllum skólastigum, við það sem er að gerast í veiðum, vinnslu, flutningum, sölu, tækniþróun, o.s.frv., eykur skilning og áhuga. Aðferðirnar gætu spannað frá heimsóknum yfir í ítarleg hagnýt rannsóknarverkefni.

Nánari umfjöllun

Hópurinn hefur hafið störf sem er leitt af Fisktækniskólanum.

Hvað næst?

• Tryggja þarf fjármagn til að leiða þessa vinnu áfram

• Miðað er við fimm fundi á ári og einn lengri staðfund

• Fulltrúum frá ráðuneyti og frá sjávarútveginum verður boðið að vera með

Lagt er til að bráðabirgðatillaga 35 verði samþykkt og verði hluti af lokatillögum Auðlindarinnar okkar.

Hvað næst?

Áframhaldandi fundir þar sem aðgerðir verða ræddar. Einnig er lagður til styrkur til að sinna þessu hlutverki. Stendur til að kynna vettvanginn og bjóða atvinnulífinu til samvinnu á sjávarútvegsráðstefnunni haustið 2023. Fisktækniskólinn leiðir nú starfið en í framtíðinni færist það á milli skóla.

Kostnaður

• 2 milljónir króna á ári – einn og hálfur mannmánuður fyrir stofnun sem leiðir auk ferðakostnaðar á einn fund á ári.

• 100 milljóna króna sjóður sem verði stofnaður árið 2024 til að efla samstarf og nám tengt sjávarútvegi þvert á skólastig. Þessi sjóður virki svipað og nýlegur sjóður um samstarf háskóla. Sjóðurinn styrki frekara starf sem tengist tillögum hér að neðan.“

2. „Bráðabirgðatillaga 36

Tryggja að skólar geti tekið við og menntað fleiri nemendur.

Lýsing tillögu

• Til þess að hlutfall útskrifaðra úr iðn- og starfsnámi og úr tækni- og raungreinanámi verði í takt við þarfir framtíðarinnar þarf að tryggja að skólar geti tekið við og menntað vel þann fjölda nemenda sem þörf er á, í þeim greinum er tengjast sjávarútvegi.“

Þá kemur ítarleg umfjöllun um tillöguna og í lokin tillaga að næstu skrefum:

Hvað næst?

Ráða aðila til að leiða vinnuna, viðkomandi yrði með starfsaðstöðu í Tækniskólanum.

Kostnaður

Eitt stöðugildi við Tækniskólann í tvö ár = 18 milljónir króna á ári. Nánari kostnaðargreining liggi fyrir einu ári eftir að vinna er hafin.“

3. „Bráðabirgðatillaga 37

Stjórnvöld standi fyrir kynningarátaki á fjölbreyttum námsmöguleikum og störfum í sjávarútvegi fyrir öll skólastig.“

Aftur kemur ítarleg umfjöllun um tillöguna og í lokin tillaga að næstu skrefum:

„Tillaga

• Starfsemi Sjávarútvegsskóla unga fólksins og Sumarskólans útvíkkuð

• Skoðaðir verði möguleikar á að hafa ferðir líkt og á Húna II um land allt

• Samráðsvettvangur (tillaga 35) sér um greiningu og kynningarátak og móti hugmyndir

Lagt er til að bráðabirgðatillaga 37 verði samþykkt og verði hluti af lokatillögum Auðlindarinnar okkar.

Hvað næst?

Ráða aðila til að leiða vinnuna, viðkomandi yrði með starfsaðstöðu við Sjávarútvegsmiðstöðina við Háskólann á Akureyri.

Kostnaður

Eitt stöðugildi við Sjávarútvegsmiðstöðina við Háskólann á Akureyri í tvö ár = 18 milljónir króna á ári. Nánari kostnaðargreining liggi fyrir einu ári eftir að vinna er hafin.“

4. „Bráðabirgðatillaga 38

Breyta/bæta ímynd og námsumhverfi á námsbrautum tengdum sjávarútvegi og laða að fjölbreyttari nemendahópa með tilliti til kyns og uppruna.“

Eftir nánari lýsingu og umfjöllun kemur tillaga að næstu skrefum:

„Tillaga

• Finna leiðir til þess að yfirfæra þá menntun sem stærri sjávarútvegsfyrirtæki bjóða upp á til smærri fyrirtækja.

• Höfða til mismunandi kynja, aldurs og uppruna í kynningarefni. (sjá tillögu 37)

• Vinna markvisst í gegnum samstarfsvettvanginn að fræðslu til handa kennurum og starfsfólki á karllægum námsbrautum um jafnréttis- og kynjamál.

Lagt er til að bráðabirgðatillaga 38 verði samþykkt og verði hluti af lokatillögum Auðlindarinnar okkar.

Hvað næst?

Ráða aðila til að leiða vinnuna, viðkomandi yrði með starfsaðstöðu við Fisktækniskólann.

Kostnaður

Eitt stöðugildi við Fisktækniskólann í tvö ár = 18 milljónir króna á ári.

Nánari kostnaðargreining liggi fyrir einu ári eftir að vinna er hafin.“

5. „Bráðabirgðatillaga 39

Bjóða og styðja við nám í tæknifögum, iðngreinum og fleiri lykilfögum sjávarútvegs sem næst heimabyggðum um allt land.“ Þá kemur nánari lýsing og umfjöllun og að lokum tillaga að næstu skrefum:

„Tillaga

• Kortleggja í hvaða framhaldsskólum á landinu væri hægt að bjóða upp á og/eða auka starfsnám sem nýtist sjávarbyggðum.

• Skoða möguleika á farandkennslustofum.

• Koma á sjóði sambærilegum háskólasjóðnum sem hvetur til samstarfs framhaldsskóla og framhalds- og háskóla. (sjá tillögu 35)

• Nýsköpunarsjóður námsmanna nái einnig til iðn-, starfs- og tæknináms á framhaldsskólastigi.

Lagt er til að bráðabirgðatillaga 39 verði samþykkt og verði hluti af lokatillögum Auðlindarinnar okkar.

Hvað næst?

Ráða aðila til að leiða vinnuna, viðkomandi yrði með starfsaðstöðu við Verkmenntaskólann á Akureyri.

Kostnaður

Eitt stöðugildi við Verkmenntaskólann á Akureyri í tvö ár = 18 milljónir króna á ári.“

6. „Bráðabirgðatillaga 40

Efla og þróa þverfaglegt nám sem tengist sjávarútvegi.“ Eftir nánari lýsingu og umfjöllun kemur tillaga um næstu skref og fjármögnun:

„Tillaga

• Gert verði markaðstorg sjávarútvegstengdra námskeiða sem einnig verða opin í gegnum símenntunarmiðstöðvar.

• Þessu yrði skipt upp í mismunandi flokka, framhaldsskólastig, grunnám í háskóla, framhaldsnám í háskóla eða það sem jafnvel hentar öllum.

• Námskeið sem yrðu í boði á þennan hátt yrðu sérstaklega styrkt.

Lagt er til að bráðabirgðatillaga 40 verði samþykkt og verði hluti af lokatillögum Auðlindarinnar okkar.

Hvað næst?

Ráða aðila til að leiða vinnuna, viðkomandi yrði með starfsaðstöðu við Háskóla Íslands.

Kostnaður

Eitt stöðugildi við Háskóla Íslands í tvö ár = 18 milljónir króna á ári. Nánari kostnaðargreining liggi fyrir einu ári eftir að þessi vinna er hafin.“

Að lokum. Opinberar menntastofnanir eiga undir högg að sækja í rekstri og mega síst við því að verða undir einkareknum menntastofnunum í baráttunni um opinbert fé til skólaþróunar. Það er hrein móðgun við frumkvöðlastarf okkar skóla og allra þeirra háskólastofnana, fræðslu- og símenntunarmiðstöðva sem fengu heldur ekki aðkomu að svona vinnubrögð séu viðhöfð og við förum þess á leit við ráðuneytið að allar tillögur í kafla 15.5 verði endurskoðaðar í ljósi þessa.

Eydís Ásbjörnsdóttir skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands

Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari Menntaskólans á Ísafirði

Helga Kristín Kolbeins skólameistari Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum

Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari Fjölbrautaskóla Snæfellinga

Ingileif Oddsdóttir skólameistari Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Tjaldtangi ehf. - 25.09.2023

Stöndum vörð um rækjuiðnaðinn á Vestförðum

Innfjarðarrækjuveiðar hafa verið stundaðar í Ísafjarðardjúpi í heilda öld. Skipin sem veiða rækjuna eru um 20 metra löng og eru sérhæfð til rækju- og dragnótarveiða. Veiði á rækju í djúpinu hefur verið sveiflukennd og allt frá upphafsárum komu ár þar sem veiðin var lítil sem engin og forsendur fyrir veiði brást. En þrátt fyrir að veiði á rækju hafi á stundum legið niðri eins og gerðist nú síðast frá 2003/4 til 2010/11, þá hefur þekkingin á veiðinni ekki tapast og útgerðir og atvinnutæki haldist á svæðinu. Þær bætur í bolfiski sem útgerðir við djúp fengu á aflabrestárum gerðu það að verkum að þekking tapaðist ekki úr samfélaginu og útgerðir og atvinnutæki héldust á svæðinu. Tilurð rækjubótakerfisins sannaði sig á þessum árum. Frá því að veiðar hófust að nýju þá hafa rækjusjómenn fært íslensku samfélagi mikil verðmæti.

Rækjubátar við Arnarfjörð og Ísafjarðardjúp hafa undanfarin ár landað sínum afla til rækjuverksmiðjunnar Kampa ehf. á Ísafirði. Þar vinna um 40 manns og innfjarðarrækjuveiðarnar eru mikilvægur hlekkur í hráefnisöflun verksmiðjunnar. Við viljum að stjórnvöld skapi okkur áfram hagstætt rekstrarumhverfi þannig að við getum haldið starfseminni gangandi til framtíðar.

Í umfjöllun „samráðsnefndarinnar“ um skel- og rækjubætur má skynja takmarkaða þekkingu á rækju- og skeliðnaðinum, og þá sérstaklega á Vestfjörðum og Vesturlandi. Hvet ég nefndarmenn að koma í heimsókn til okkar á Ísafjörð og kynna sér mikilvægi rækjuiðnaðarins á svæðinu. Einnig tel ég að vel verði tekið á móti „samráðsnefndinni“ í Stykkishólmi til að ræða skelveiðar og sveiflur í þeirri grein.

Úthlutun skel- og rækjubóta fellur vel að meginmarkmiðum laga um stjórn fiskveiða um verndun og hagkvæma nýtingu nytjastofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun skel- og rækjubóta síðustu ár hefur náð tilgangi sínum. Þegar ílla hefur árað í innfjarðarrækjuveiðum fyrir vestan þá hafa rækjusjómenn getað stundað dragnótarveiðar í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði í stað rækjuveiða. Þannig hafa útgerðir fengið svigrúm til endurskipulagningar vegna skammtíma breytinga í rækjustofnum. Núverandi kerfi tryggir að þegar innfjarðarrækjustofnar gefa eftir þá er dregið úr áhrifum þess á atvinnu og byggð á tilteknum svæðum með úthlutun bóta.

Lagt er til að stjórnvöld beiti sér fyrir því að framkvæma greiningu á stöðu rækju- og skeliðnaðar á Íslandi áður en farið er í breytingar á skel- og rækjubótakerfinu.

Eftirfarandi er samantekt athugasemda Tjaldtanga ehf. um tillögurnar:

• Samráðsleysi „samráðsnefndar“ er algjört þegar kemur að umfjöllun um stuðning við rækju- og skeliðnað á Íslandi. Það er skylda ábyrgra stjórnvalda að doka við og efna til samráðs um viðfangsefnið.

• Úthlutun skel- og rækjubóta fellur vel að meginmarkmiðum laga um stjórn fiskveiða um verndun og hagkvæma nýtingu nytjastofna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Núverandi kerfi tryggir að þegar innfjarðarrækjustofnar gefa eftir þá er dregið úr áhrifum þess á atvinnu og byggð á tilteknum svæðum.

• Lagt er til að stjórnvöld beiti sér fyrir því að framkvæma greiningu á stöðu rækju- og skeliðnaðar á Íslandi áður en farið er í breytingar á skel- og rækjubótakerfinu.

• Í tillögum starfshópa er uppgjör til handhafa skel- og rækjubóta ófullnægjandi. Í marga áratugi hefur það verið viðurkennt að handhafar skel- og rækjubóta létu frá sér aflaheimildir í bolfiski til að öðlast sérveiðiheimildir í skel- og rækju. Í ljósi þess þá hafa handhafar skel- og rækjubóta fengið bætur í formi bolfisks þegar aflabrestur hefur riðið yfir.

• Sé vilji til þess að leggja niður skel- og rækjubótakerfið þá skal skila þeim bolfiskaflaheimildum sem þar eru beint til handhafa skel- og rækjuheimilda.

• Með uppgjöri til handhafa skel- og rækjubóta þá eru slegnar tvær flugur í einu höggi. Annarsvegar er fiskveiðistjórnarkerfið einfaldað og hinsvegar kemur inn stuðningur á formi varanlegra aflaheimilda til handa rækjuútgerðum sem hafa átt undir högg að sækja síðustu ár.

• Hætta er á að með stórtæku fiskeldi í Ísafjarðardjúpi muni vistsvæði rækju skerðast og það geti leitt til hruns rækjustofnsins. Ef að þessi stórfeldu fiskeldisáform ganga eftir og rækjuveiðar leggjast af í kjölfarið þá verða stjórnvöld að vera með úrræði til að bæta útgerðum og starfsfólki framtíðar tekjumissi. Vegna yfirvofandi óvissu er mjög mikilvægt að hafa virkt bótakerfi til að bregðast við ef upp kemur aflabrestur vegna neikvæðra áhrifa fiskeldis á viðgang rækju í Ísafjarðardjúpi.

Ísafjörður, 26. september 2023

Gunnar Torfason

f.h. Tjaldtanga ehf.

Afrita slóð á umsögn

#6 Starfsgreinasamband Íslands - 25.09.2023

Sjá umsögn Starfsgreinasambands Íslands í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Daði Hjálmarsson - 26.09.2023

Lokaniðurstöður af skýrslunni Auðlindin okkar, Sjálfbær sjávarútvegur ætti ekki að nýta til hliðsjónar til að skrifa lög um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar þar sem vinna starfshópanna fjögurra var ekki nýtt við gerð skýrslunnar.

Afrita slóð á umsögn

#8 Samtök smærri útgerða - 26.09.2023

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka smærri útgerða.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Kjartan Páll Sveinsson - 26.09.2023

Umsögn Strandveiðifélags Íslands í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Ungir umhverfissinnar - 26.09.2023

Umsögn Ungra umhverfssinna er hér í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#11 Ásgeir Guðmundur Daníelsson - 27.09.2023

Um verð á aflamarki og auðlindarentu og um hlutdeild þeirra sem hafa selt sig út úr útgerð í auðlinarentu

Mig langar til að gera tvær athugasemdir við stuttan kafla á bls. 71 í skýrslunni Auðlindin okkar - Sjálfbær sjávarútvegur, rit 1 (kafli 8).

1. Á bls. 71 stendur: „Við þetta má bæta að ætla má að töluverður hluti, ef ekki öll auðlindarenta í íslenskum sjávarútvegi endurspeglist nú þegar í verði aflaheimilda.”

Athugasemd: Á bls. 70 er sagt: „Auðlindarenta er sá umframábati sem myndast getur við nýtingu auðlinda …” Yfirleitt er talað um þennan umframábata sem hagnað umfram það sem algengast er í sambærilegri starfsemi. Auðlindarentan er þannig hluti af hagnaði í greininni. En ef við berum saman arðsemi í íslenskum sjávarútvegi og verð á aflamarki kemur í ljós að verðmæti aflamarksins er ekki einhver hluti af hagnaði fyrirtækjanna. Verðmætið er mikið meira en allur hagnaðurinn. Verðmæti alls aflamarks sem íslenskur sjávarútvegur nýtti á fiskveiðiárinu 2020/2021 var rúmlega 100 ma.kr. ef miðað er við meðalverð í viðskiptum á fiskveiðiárinu eins og það er gefið upp á heimasíðu Fiskistofu. Til samanburðar var hreinn hagnaður af fiskveiðum á árinu 2021 m.v. árgreiðslureglu (þ.e. hagnaður eftir áætlaða raunvexti af bæði lánsfé og eigin fé) 19,5 ma.kr skv. tölum á heimasíðu Hagstofunnar. Ef fiskvinnslan er talin með var hagnaðurinn 56,1 ma.kr. Tekjur fyrir vexti, skatta, afskriftir og afborganir (EBITDA) í útgerð voru 40,7 ma.kr. en 88,7 ma.kr. fyrir sjávarútveg í heild. Jafnvel þessi síðasta tala er vel fyrir neðan verðmæti aflamarksins sem útgerðin fékk úthlutað á fiskveiðiárinu 2020/2021.

Það hefur verið viðvarandi ástand í mörg ár að verð á aflamarki hefur verið langt umfram arðsemi í útgerð. Fyrir rúmum 16 árum ræddi reyndur blaðamaður, Hjörtur Gíslason, þessi mál í frétt sem hann skrifaði í Morgunblaðið (5. feb. 2007). Þá var verðið á aflamarki fyrir þorsk 175 kr. Í febrúar 2007 var meðalverð á þorski til vinnslu innanlands 163 kr/kg og meðalverð á þorski á fiskmörkuðum 206 kr/kg. Hjörtur benti á að þegar verð á aflamarki er orðið svona hátt „leggjast viðskiptin að miklu leyti af og menn reyna heldur skipti á tegundum, til að hagræða og geta staðið við samninga.“

Ég held að tilgreind málsgrein í skýrslunni sé misvísandi varðandi samhengi arðsemi (og þar með auðlindarentu) og verðs á aflamarki. Í grein eftir undirritaðan, Um verð á aflamarki, sem birtist í Vísbendingu, 10. mars 2023 (10. tbl.) er fjallað um þessi mál og bent á að sennilega sé uppboð á aflaheimildum skynsamleg aðferð til að lækka verð af aflaheimildum í átt að jafnvægi þar sem verðið tekur mið af arðsemi veiðanna til lengri tíma. Ef það tækist mundi það auðvelda nýliðun í útgerð og auka hagræðingarmöguleika í greininni.

2. Í beinu framhaldi af tilvitnuninni hér fyrir ofan segir í skýrslunni: „Þar sem mikill meirihluti aflahlutdeilda hefur gengið kaupum og sölum í gegnum árin hefur nú þegar verið greitt gjald fyrir þær. Þau sem seldu sig út úr greininni hafa þannig fengið hluta af rentunni sem ekki verður auðveldlega sótt með meiri álögum á þau fyrirtæki sem nú starfa. Í nýlegri rannsókn var slegið máli á skiptingu auðlindaarðs í íslenskum fiskveiðum milli þriggja hópa, þ.e. hins opinbera, þeirra sem hafa selt sig út úr greininni og þeirra fyrirtækja sem nú eru þar starfandi. Samkvæmt þeim útreikningum, þar sem aðeins er litið til áranna 1997-2017, þá skiptist dreifing auðlindarentunnar þannig að um 20% hafi runnið til hins opinbera gegnum veiðigjöld og skatta, en afgangurinn hafi skipst nokkuð jafnt (þ.e. 40% á hvorn um sig) milli þeirra sem selt hafa sig út úr greininni og þeirra fyrirtækja sem voru enn starfandi í greininni á þessum árum.”

Athugasemd: Þarna er vitnað í greinina Resource Rent and its Distribution in Iceland’s Fisheries eftir Stefán B. Gunnlaugsson, Hörð Sævaldsson, Daða M. Kristófersson og Svein Agnarsson, sem birtist í Marine Resource Economics, nr. 2, 2020. Í þeirri grein er hlutur þeirra sem hafa selt sig út úr útgerð reiknaður út frá bókfærðu virði aflahlutdeilda í efnahagsreikningum fyrirtækja en samkvæmt reglum sem gilt hafa í nokkuð mörg ár ber fyrirtækjum sem kaupa aflahlutdeildir að bókfæra verðmætið sem eign í efnahagsreikningi. Aflahlutdeildir sem fyrirtækið ræður yfir en hefur ekki keypt eru hins vegar ekki færðar í efnahagsreikning. Í greininni er hlutur þeirra sem selt hafa sig út úr útgerð áætlaður með því að margfalda verðmæti allra bókfærðra aflahlutdeilda í efnahagsreikningum útgerðarfyrirtækja með vaxtastuðli, 4,6%.

Þessi aðferð gengur upp ef aflahlutdeildirnar sem seldar eru hafa ekki verið seldar áður og því ekki skráðar í efnahagsreikning útgerðarfyrirtækis og ef þeir sem selja hætta starfsemi í greininni og taka peninginn sem þeir fá fyrir söluna út úr útgerð. Í slíkum tilfellum veldur salan á aflahlutdeild ekki bara aukinni skuldsetningu útgerðarfyrirtækisins sem kaupir aflahlutdeildina heldur líka aukinni skuldsetningu allra útgerða í landinu og á móti kemur jafn mikil aukning í bókfærðum aflahlutdeildum. En þetta gildir einungis um lítinn hluta af seldum aflahlutdeildum. Í flestum tilfellum er söluaðilinn annað útgerðarfyrirtæki þannig að á sama tíma og skuldir kaupandans hækka minnka skuldir seljandans og skuldsetningin útgerðarinnar í heild breytist ekkert. Vegna reglna um að bókfæra skuli andvirði keyptra aflahlutdeilda en ekki annarra eykst virði allra keyptra aflahlutdeilda þegar keypt er aflahlutdeild sem ekki hefur verið keypt áður. Af þessum ástæðum leiðir sú aðferð sem notuð er í greininni til verulegs ofmats á aukningu í skuldsetningu og vaxtabyrði útgerðarinnar í heild vegna kaupa á aflahlutdeildum og þar með til mikils ofmats á hlut þeirra sem hafa selt sig út úr útgerð í auðlindarentunni.

Afrita slóð á umsögn

#12 Valmundur Valmundsson - 28.09.2023

Í viðhengi er umsögn Sjómannasambands Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Árni Sverrisson - 28.09.2023

Meðfylgjandi er umsögn mín um umrætt mál, ásamt kynningu á hugmyndum Félags skipstjórnarmanna um skóla sjávarútvegs og siglinga í húsi Sjómannastéttarinnar á Rauðarárholti í Reykjavík.

Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) - 28.09.2023

Meðfylgjandi er umsögn SFS ásamt fylgiskjölum.

Viðhengi Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Landssamband smábátaeigenda - 28.09.2023

Meðfylgjandi er umsögn LS.

Viðhengi