Umsagnarfrestur er 29.08.2023–28.09.2023.
Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast.
Senda inn umsögn
Matvælaráðuneytið kynnir til samráðs áform um frumvarp til laga um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar (heildarlög) ásamt frummati á áhrifum lagasetningar.
Áformað er að sett verði ný heildarlög á sviði fiskveiðistjórnunar og er það ein af tillögum starfshópa Auðlindarinnar okkar, þar sem lagt er til að skýra og einfalda regluverk um fiskveiðistjórnun. Þá verður í frumvarpinu mælt fyrir um þær breytingar sem lagðar hafa verið til í lokaniðurstöðum starfshópa Auðlindarinnar okkar. Frumvarpið verður því tvíþætt, annars vegar að einfalda og uppfæra núgildandi löggjöf og tryggja betri yfirsýn um þær reglur sem gilda um nýtingu lífrænna auðlinda hafsins og hins vegar að mæla fyrir um þær breytingar sem lagt hefur verið til að gerðar verði á núgildandi lögum samkvæmt niðurstöðum verkefnisins Auðlindin okkar.
Um er að ræða ný heildarlög um nýtingu og stjórnun nytjastofna sjávar, svo sem sjávardýra og sjávargróðurs, sem nytjuð eru eða kunna að verða nytjuð. Efni frumvarpsins verður byggt á eftirtöldum lagabálkum:
1. Lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, nr. 44/1948
2. Lög um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992
3. Lög um vinnslu afla um borð í skipum, nr. 54/1992
4. Lög um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, nr. 151/1996
5. Lög um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996
6. Lög um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997
7. Lög um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 22/1998
8. Lög um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006
9. Lög um veiðigjald, nr. 145/2018
Þá er lagt til að lög um beitutekjur, nr. 39/1914 og lög um að miða við gullkrónu sektir fyrir landhelgisbrot, nr. 4/1924 verði felld brott. Með nýjum heildarlögum verður unnt að tryggja aukna yfirsýn yfir þær lagareglur sem gildandi eru á sviðinu sem og að tryggja skilvirkari og einfaldari stjórnsýslu við beitingu einstakra lagaákvæða heildarlaga. Áformað er að fella brott ákveðin ákvæði og skerpa á öðrum.
Í skýrslu Auðlindarinnar okkar - sjálfbær sjávarútvegur, eru lagðar til ýmsar breytingar sem mælt verður fyrir um í frumvarpinu. Má þar nefna innleiðingu meginreglna umhverfisréttar er varða vistkerfa- og varúðarnálgun þegar kemur að nýtingu nytjastofna og aukin áhersla á rannsóknir. Einnig er áformað að auka gagnsæi í eignarhaldi og rekstri sjávarútvegsfyrirtækja, og einfalda og skýra viðmið um heildaraflahlutdeild og tengda aðila. Þá verður fjallað um vernd hafsvæða og afmörkun þeirra. Einnig er áformað að gera breytingar á ákvæðum er snúa að setningu stjórnvaldsfyrirmæla (reglugerða o.fl.) og viðurlögum við brotum. Aðrar breytingar sem áformað er að frumvarpið taki til er að lögfesta markmið strandveiða og byggðaaðgerða ásamt því að einfalda byggðakerfin (5,3% aflaheimilda á forræði ríkisins) þannig að þau verðmæti sem þar verða til nýtist sem best byggðum í samræmi við markmið frumvarpsins. Þá verður í frumvarpinu gerðar breytingar sem snúa að því að einfalda útreikning veiðigjalda og auka gagnsæi um þær forsendur sem útreikningur veiðigjalda styðst við, en í fjármálaáætlun 2024-2028 er áætlað að tekjur af veiðigjaldi muni aukast.
Samning frumvarpsins stendur yfir og samhliða því verður unnið að endanlegu mati á fjárhagsáhrifum lagasetningarinnar og því gerð skil í endanlegu mati á fjárhagslegum áhrifaþáttum fyrir ríkið. Til vinnslu eru reiknilíkön vegna áformaðra breytinga á útreikningi veiðigjalda og munu áætluð fjárhagsáhrif vegna breytinga liggja fyrir við endanlegt mat. Einnig er til vinnslu áhrifamat vegna breytinga á byggðakerfum (5,3% aflaheimildum á hendi ríkisins) og áhrifamat vegna breytinga er varða gagnsæi í eignarhaldi og rekstri sjávarútvegsfyrirtækja og hámarksaflahlutdeild tengda aðila. Við vinnslu frumvarpsins verður einnig lagt mat á fjárhagsáhrif áformaðra breytinga á starfsemi Fiskistofu, m.a. vegna eftirlits með tengdum aðilum, auknum kröfum til beitingar viðurlaga vegna brota sem og kostnaður við þjálfun starfsfólks. Einnig verður lagt mat á áhrif lagasetningar á starfsemi Hafrannsóknarstofnunar, Byggðastofnunar og eftir atvikum annarra stofnana við vinnslu endanlegs mats.
Hér með er óskað eftir umsögnum, athugasemdum og ábendingum um áform um lagasetningu og frummat.
Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.
Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.