Samráð fyrirhugað 30.08.2023—29.09.2023
Til umsagnar 30.08.2023—29.09.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 29.09.2023
Niðurstöður birtar

Breyting á lögræðislögum

Mál nr. 161/2023 Birt: 30.08.2023
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 30.08.2023–29.09.2023. Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögræðislögum í þeim tilgangi að bregðast við ábendingum um atriði sem betur megi fara í lögunum.

Með lögum nr. 84/2015 voru samþykktar nokkrar breytingar á lögræðislögum, nr. 71/1997, sem voru m.a. liður í fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Breytingarnar fólu einnig í sér viðbrögð við tilmælum alþjóðlegra eftirlitsaðila með mannréttindaskuldbindingum Íslands ásamt ábendingum frjálsra félagasamtaka, fagaðila o.fl. um ágalla á lögunum.

Eftir gildistöku laganna hefur komið fram nokkur gagnrýni á gildandi lögræðislög þar sem því er m.a. haldið fram að umræddar breytingar hafi ekki gengið nægilega langt og að lögin séu enn ekki í fullu samræmi við þær kröfur sem leiða má af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá hafa komið fram ábendingar um frekari úrbætur í lagaumgjörð frá alþjóðlegum eftirlitsaðilum, umboðsmanni Alþingis og fagaðilum. Hefur m.a. verið bent á að taka þurfi til endurskoðunar efnisleg skilyrði lögræðislaga fyrir nauðungarvistun.

Frumvarp það sem hér er birt til samráðs felur ekki í sér heildarendurskoðun á lögunum, heldur er leitast við að gera mikilvægar úrbætur til að bregðast við helstu gagnrýni sem gildandi löggjöf hefur sætt og koma til móts við ábendingar um atriði sem talin eru að betur mættu fara í löggjöfinni.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu lúta að því að koma til móts við ábendingar um tryggara lagaumhverfi þegar kemur að sviptingu lögræðis og meðferð þeirra mála fyrir dómi, skilyrðum fyrir nauðungarvistun og auknum kröfum um eftirlit yfirlögráðenda. Lagt er til að heimild til lögræðissviptingar geti byggst á geðröskun en ekki geðsjúkdómi eða fötlun sem slíkri. Sömuleiðis er lagt til að skilyrði fyrir nauðungarvistun geti byggst á geðröskun í stað geðsjúkdómi og að heimildin geti auk þess byggst á því að öryggi annarra en hins vistaða sjálfs sé hætta búin. Lögð er til ríkari rannsóknarskylda á dómara í lögræðissviptingarmálum og auknar kröfur gerðar um eftirlit yfirlögráðenda með lögráðamönnum og ráðsmönnum. Þá eru í frumvarpinu lagðar til ýmsar smávægilegar lagfæringar sem tengjast m.a. fyrri breytingu á lögunum, þess efnis að svipting lögræðis getur nú einungis verið tímabundin ásamt því að fjárhæðir sem tengjast skýrslugjöf lögráðamanna og ráðsmanna til yfirlögráðanda hafa verið uppfærðar og samræmdar.

Með frumvarpinu er stefnt að því að styrkja réttarstöðu þess viðkvæma hóps sem lögræðislög taka til.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.