Samráð fyrirhugað 05.09.2023—25.09.2023
Til umsagnar 05.09.2023—25.09.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 25.09.2023
Niðurstöður birtar

Áform um breytingar á réttarfarslöggjöf (stafræn miðlun gagna og stafræn birting)

Mál nr. 164/2023 Birt: 05.09.2023
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Dómstólar
  • Almanna- og réttaröryggi

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (05.09.2023–25.09.2023). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Áformað er að breyta réttarfarslöggjöf á þann hátt að hún standi því ekki í vegi að unnt sé að miðla gögnum stafrænt.

Víða í réttarfarslöggjöf er enn gert ráð fyrir því að gögn séu send eða afhent á pappírsformi eða í tilteknum fjölda eintaka, að þau séu undirrituð eða árituð með eigin hendi o.s.frv. Þá er í lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, meðal annars áskilið að ákæra sé birt af lögreglumanni, fangaverði eða öðrum starfsmanni ellegar af stefnuvotti nema hún sé birt á dómþingi af dómara. Gildandi lög gera ráð fyrir að ákæra sé birt á pappírsformi og hún í kjölfarið afhent dómara á pappírsformi ásamt birtingarvottorði. Um kvaðningu vitna og birtingu dóma fer eftir sömu reglum ef ekki tekst að birta með öðrum hætti. Þá gera lög um gjaldþrotaskipti ráð fyrir því að kröfulýsingar á hendur þrotabúi séu afhentar skiptastjóra skriflega. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur sá áskilnaður verið túlkaður sem svo að átt sé við pappírsform.

Áformað er að breyta réttarfarslöggjöf þannig að hún standi því ekki í vegi að unnt sé að miðla gögnum stafrænt á milli stofnana réttarvörslukerfisins og skýrt verði kveðið á um með hvaða hætti birta megi tiltekin gögn sem áskilja strangan birtingarhátt að gildandi lögum um meðferð sakamála fyrir borgurunum á stafrænan hátt. Í þessu skyni er áformað að gera réttarfarslöggjöfina hlutlausa um afhendingarmáta gagna, heimila meðal annars notkun rafrænna undirskrifta, auk þess að heimila stafræna birtingu ákæra og annarra skjala við meðferð sakamála sem nú krefjast tiltekins birtingarmáta.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Svavar Kjarrval Lúthersson - 06.09.2023

Í 1. lið E-kafla samráðsskjalsins þarf að huga að Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), einkum 13. gr. og 21. gr. Ráðuneytið ætti að meta áformin í samræmi við þær greinar samningsins og aðrar sem við gætu átt, meðal annars svo að upplýsingarnar sjálfar og framsetning sé í samræmi við kröfur SRFF ásamt tilkynningar um tilvist skjalsins í pósthólfinu. Í frekara samráði um áformin ætti ráðuneytið að ráðfæra sig við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, sbr. skyldur téðs samnings.

Hvað leiðirnar í kafla C snertir tel ég einum of langt gengið að fara (strax) í a-leið. Ef krafist yrði rafrænna skilríkja gæti komið sú staða að einhver sem ekki er með rafræn skilríki eða hefur ekki aðgang að þeim, yrði talinn að lögum hafa séð gagnið þegar það var ómögulegt að gera það tímanlega fyrir þinghald (eða yfir höfuð). Ákjósanlegast væri að fara c-leiðina á meðan verið er að koma kerfinu í gang og gera svo takmarkaðar tilraunir með b-leiðina og veita réttarkerfinu tækifæri til þess að leysa alls konar álitamál sem gætu verið færð fram fyrir rétti um stjórnskipulegt lögmæti slíkrar birtingar. Hér má einnig íhuga að fara b-leiðina í málum þar sem reynt gæti verið á kröfur um endurupptöku en hagsmunir minniháttar, og sjá hvort og hvernig þær yrðu afgreiddar í málskoti.