Samráð fyrirhugað 11.09.2023—02.10.2023
Til umsagnar 11.09.2023—02.10.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 02.10.2023
Niðurstöður birtar

Drög að reglugerð um eftirlit með flutningi á hlutum með tvíþætt notagildi

Mál nr. 165/2023 Birt: 11.09.2023
  • Utanríkisráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Utanríkismál

Til umsagnar

Umsagnarfrestur er 11.09.2023–02.10.2023. Umsagnir verða birtar jafnóðum og þær berast.
Senda inn umsögn

Málsefni

Utanríkisráðuneytið óskar eftir athugasemdum almennings og annarra hagaðila um reglugerð um flutning á hlutum með tvíþætt notagildi. Reglugerðin er sett með stoð í nýjum lögum nr. 67/2023.

Alþingi samþykkti 9. júní sl. frumvarp til laga um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit. Með lögunum er sett ný rammalöggjöf um afvopnum, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit sem veitir heildaryfirsýn yfir málaflokkana, sem eru nátegndir auk þess sem sex lagabálkar voru felldir úr gildi.

Meðal þeirra laga sem voru felld úr gildi við gildistöku framangreindra laga voru lög um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu nr. 58/2010. Þeirra í stað er fjallað um útflutningseftirlit í fjórða kafla laga um afvopnun, takmörkun vígbúnaðar og útflutningseftirlit, nr. 67/2023 en ákvæði er varða eftirlit með innflutningi annarra vopna og Vopnaviðskiptasamning Sameinuðu þjóðanna voru færð undir vopnalög.

Reglugerðardrögunum er ætlað að leysa af hólmi reglugerð um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu. nr. 361/2016. Helstu breytingar eru tilkomnar vegna breytinga á regluverki Evrópusambandsins um útflutningseftirlit.

Í reglugerðinni er m.a. fjallað um leyfisskyldu, tegundir leyfa og leyfisveitingar, skilgreint hvaða hlutir falla undir leyfisskyldu, umsóknir, matsferli við umsóknir og undanþágur. Reglugerðin felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2021/821 um að setja Sambandsreglur um eftirlit með útflutningi, miðlun, tækniaðstoð, umflutningi og tilflutningi hluta með tvíþætt notagildi. Með innleiðingunni er m.a. innleiddur listi Evrópusambandsins yfir hluti með tvíþætt notagildi en sá listi liggur til grundvallar því hvað telst hlutur með tvíþætt notagildi og fellur þar með undir leyfisskyldan útflutning hér á landi. Eldri listi Evrópusambandsins yfir hluti með tvíþætt notagildi var einnig innleiddur í eldri reglugerð (reglugerð nr. 361/2016) sem leyst er af hólmi en í reglugerðardrögunum er gert ráð fyrir sjálfvirkri innleiðingu breytinga á listanum.

Þótt eftirlit með hlutum með tvíþætt notagildi sé ekki hluti af EES-samningnum hefur engu að síður verið talið æskilegt að innleiða hliðstæðar reglur og innan ríkja Evrópusambandsins til að tryggja samræmi í löggjöf ríkja innan EES og til að tryggja að íslensk útflutningsfyrirtæki starfi á sama grundvelli og fyrirtæki í helstu nágrannaríkjum okkar. Mörg ríki gera þá kröfu að útflutningsleyfi fylgi vörum með tvíþætt notagildi og með því að samræma framkvæmd útgáfu slíkra leyfa við framkvæmdina hjá öðrum EES-ríkjum er betur tryggt og komið í veg fyrir að íslensk fyrirtæki sem framleiða hluti með tvíþætt notagildi verði fyrir aðgangshindrunum á erlenda markaði. Þá er um leið verið að innleiða aðrar þjóðréttarlegar skuldbindingar í gegnum regluverk Evrópusambandsins.

Reglugerðardrögin hafa þegar verið kynnt fyrir Skattinum og embætti ríkislögreglustjóra. Umsagnafrestur er til mánudagsins 2. október 2023.

Viltu senda inn umsögn um málið?

Smelltu hér til að skrá þig inn með Íslykli eða rafrænni auðkenningu.

Ef umsögnin er send fyrir hönd samtaka, fyrirtækis eða stofnunar þarf umboð þaðan, sjá nánar hér.