Samráð fyrirhugað 25.09.2023—20.10.2023
Til umsagnar 25.09.2023—20.10.2023
Niðurstöður í vinnslu frá 20.10.2023
Niðurstöður birtar

Endurskipulagning stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins - samráð við hagsmunaaðila

Mál nr. 170/2023 Birt: 25.09.2023 Síðast uppfært: 06.10.2023
  • Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (25.09.2023–20.10.2023). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur að undanförnu unnið að endurskipulagningu stofnanakerfis ráðuneytisins. Kallað er eftir öllum sjónarmiðum í ferlinu, þ.á m svörum við lykilspurningum.

Kynnt hefur verið ákvörðun um að stofnunum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis fækki úr 8 í 3 og nú liggja fyrir lagafrumvörp vegna Náttúruverndar- og minjastofnunar (Vatnajökulsþjóðgarður, Þjóðgarðurinn á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnun Íslands) og Loftslagsstofnunar (Orkustofnun og Umhverfisstofnun (umhverfis- og loftslagsmál)). Þá er gert ráð fyrir sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn (Ramý) og Landmælinga Íslands.

Ekki er gert ráð fyrir að Veðurstofa Íslands og Íslenskar orkurannsóknir verði sameinaðar öðrum stofnunum í þessum áfanga, en áfram verður unnið að því að efla samstarf stofnana og skoða samþættingu eða flutning einstakra verkefna.

Gert er ráð fyrir skýrum kjarna í starfsemi hverrar stofnunar og lögð áhersla á sveigjanleika í tilfærslum verkefna milli stofnana til að auka árangur, skilvirkni og hagræðingu.

Meginmarkmið endurskipulagningarinnar er að til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir sem geti tekist á við áskoranir til framtíðar og unnið að markmiðum Íslands í umhverfismálum.

Helstu markmið endurskipulagningarinnar:

• Efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri.

• Fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu

• Nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni.

• Einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni.

• Tryggja aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.

Samráðsaðilar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum gagnvart þessum áformum um endurskipulagningu stofnanakerfis ráðuneytisins og þá sér í lagi gagnvart eftirfarandi spurningum:

1. Hvaða tækifæri eru fyrirsjáanleg með breyttu stofnanaskipulagi sem gætu orðið til þess að efla þjónustu?

2. Hvernig gæti breytt stofnanaskipulag haft áhrif? Eru það áhrif sem eru jákvæð eða neikvæð?

3. Hvaða helstu áhættuþátta ætti að horfa til?

4. Hver eru helstu sjónarmið um hvernig endurskipulagning gæti breytt gæðum í veittri þjónustu?

5. Hvaða styrkleikar er í núverandi þjónustu og mikilvægt er að varðveita?

6. Eru frekari tækifæri til að efla rannsóknir og þróun/nýsköpun?

7. Með hvaða hætti má efla og fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni?

Unnið verður með sjónarmið hagsmunaaðila gagnvart endurskipulagningu stofnana í undirbúningsvinnu sem er fram undan hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti í samstarfi við stofnanir ráðuneytisins. Þá nýtast sjónarmið og ábendingar einnig í stefnumótunarvinnu innan einstakra málaflokka þegar fram í sækir.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Vignir Bjarnason - 01.10.2023

Í ljósi stöðnunar í orkumálum sem af er þessu árþúsundi er þörf á breytingum.

Mikilvægt er að leyfisveitingar verði ekki á sömu hendi og eftirlit.

Eftirlitið tengist Evrópulöggjöf en leyfisveitingin á að vera í höndum aðila sem taka vald sitt beint frá íslenskum stjórnvöldum.

Endurskoða þarf úrskurðanefndir og kæruleiðir þar sem alltaf er farið alla leið með allar kærur því fjársterkir erlendir aðilar styðja við bakið á öllum þessum kærum.

Afrita slóð á umsögn

#2 Sævar Þór Halldórsson - 02.10.2023

1. Hvaða tækifæri eru fyrirsjáanleg með breyttu stofnanaskipulagi sem gætu orðið til þess að efla þjónustu?

Það fer algjörlega eftir því hvaða þjónustu á að veita. Fæstar þessar stofnanir flokkast sem þjónustustofnanir við almenning. Þó má segja að hluti Náttúruverndar- og minjastofnunar eigi að vera þjónusta við almenning. Önnur þjónusta er þá þjónusta við atvinnuveginn og aðrar ríkisstofnanir. Landmælingar hafa t.d. Verið mjög duglegar að þjónusta aðrar ríkisstofnanir og með þá þekkingu inn í Náttúrufræðistofnun þá tel ég að sú þjónusta muni bara aukast og vera fjölbreyttari og betri.

Með sameiningu friðlýstra svæða í eina stofnun tel ég að þjónusta við allt muni breytast þar sem skilmálar og reglur yðru samræmdari, einn staður yrði til við allar umsóknir og undanþágur sem og þekkingamiðlun yrði miklu meiri og betri með sterkara stoðsviði.

2. Hvernig gæti breytt stofnanaskipulag haft áhrif? Eru það áhrif sem eru jákvæð eða neikvæð?

Ég tel að áhrifin verði að mestu jákvæð. Auðvitað geta verið neikvæðir punktar en þá er það starfsfólksins og forsvarsfólks stofnunarinnar að finna þá og gera það besta úr þeim sem og bæta þannig að það verði ekki neikvætt til frambúðar. Fyrir almenning í landinu þá er þetta mjög jákvætt.

3. Hvaða helstu áhættuþátta ætti að horfa til?

Eins og gerist við alla endurskipulagningu þá fer starfsfólk að skoða í kringum sig. Það hefur ekkert með það að segja að það sé endilega ósátt við breytingarnar, það getur verið bara út af fyrst það eru breytingar þá geti verið gott tækifæri að líta annað.

Áhætta getur þó falið í sér of mikinn spekileka úr stofnunum og þarf að passa upp á að það sé ekki einmenningsþekking á einhverju mikilvægu sem er undirstaða einhvers kerfis eða framkvæmdar.

Þá þarf að vera öruggt að sú stofnun sem eftir verður sé tilbúin að taka við öllum þeim boltum sem óhjákæmlega fara upp í loft og það þarf að grípa þá. Ég tel að í gegnum ferlið við sameiningarnar þá þarf að hafa góða verkefnastjórn á öllu sem þarf að gera í tengslum við sameininguna og yfirsýn þarf að vera algjör. Starfsmenn eiga ekki að þurfa að kvíða heldur eiga þeir að fyllast eftirvæntingu fyrir 1. janúar 2025.

4. Hver eru helstu sjónarmið um hvernig endurskipulagning gæti breytt gæðum í veittri þjónustu?

Hér bendi ég á lið 1. Að auki ýtreka ég við að t.d. í tilviki náttúruverndar- og minjastofnunar þá muna samræmdar reglur bæta gæði þjónustunar umtalsvert sem og að það sé til stoðsvið sem hefur burði til að sinna þeim málum sem viðkemur stofnununni.

5. Hvaða styrkleikar er í núverandi þjónustu og mikilvægt er að varðveita?

Persónulega nálgun.

6. Eru frekari tækifæri til að efla rannsóknir og þróun/nýsköpun?

Með aðgengi að betri og réttum gögnum þá ýtir það undir þróun og nýsköpun. Með stærri og sterkari stofnanir, reknar almennilega í nútíma þjóðfélagi þá eru tækifærin allstaðar. Ég sé t.d. að náttúruverndar- og minjastofnun geti komið mikið frekar að rannsóknum sem og þróun. Þá mun ný endurbætt Náttúrufræðistofnun hafa mikið betri burði til fjölbreyttari rannsókna.

7. Með hvaða hætti má efla og fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni?

Nú vinn ég sem opinber starfsmaður á landsbyggðinni. Stofnanakerfið er alltof Reykjavíkurmiðað. Nær allir fagfundir, ráðstefnur og fyrirlestrar eru á höfuðborgarsvæðinu sem og fjarfundarmenning hefur ekki náð að festa sig í sessi almennilega. Taka þyrfti upp fjarskref stofnana í ætt við grænskref, til að ýta enn frekar undir það að fólk geti starfað þar sem það býr.

Taka þarf líka ákvarðanir um að störf við stofnanirnar skuli einvörðungu vera sinnt fjarri höfuðborginni. Þar sem stærsti hluti landsmanna á heima í návígi við höfuðborgarsvæðið og það fólk hefur haft fleiri tækifæri til náms og jafnvel sest að á höfuðborgarsvæðinu eftir nám þar sem það svæði hefur einungis boðið upp á störf sem hæfa menntun viðkomandi. Það hefur því sýnt sig að þegar störf eru auglýst án staðsetningar þá hafa þau oft endað á höfuðborgarsvæðinu. Þar hefur líka verið auðvelt fyrir margar stofnanir að bjóða upp á skrifstofuaðstöðu.

Gera má mikið meira í því að samnýta húsnæði margra stofnana. Hvort sem þær séu stórar, litlar eða eru bara með einn starfsmann í byggðarlaginu. Samnýta fundarherbergi og búnað, ekki bara kaffiaðstöðu.

Þá þarf að ýta undir að stofnanir setji sér fjarvinnustefnu. Það eru til aðrar aðferðir til að vera viss um að fólk sé að skila sinni vinnu en stimpilklukka og að þú sitjir við skrifborðið þitt. Það að sitja við borðið þýðir ekkert endilega að þú sért að vinna. Taka þarf frekar upp verkefnamiðaðra starfsumhverfi ríkisins.

Hafa verður svo í huga að tryggð við vinnustað er meiri úti á landi og þá starfsmannavelta talsvert minni en á atvinnusóknarsvæði höfuðborgarsvæðisins.

Landsbyggðin í eintölu er auðvitað þó eins mismunandi eins og byggðalögin og bæirnir eru margir. Því er auðvitað engin ein aðferð sem virkar yfir allt.

Afrita slóð á umsögn

#3 Valdimar Aðalsteinsson - 09.10.2023

Góðan dag

Vegna tillögu um þá aðila sem hafa atkvæðisrétt í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs og svæðisráðum, vil ég koma eftirfarandi skoðun minni á framfæri.

Fulltrúar SAMUT, Ferðaþjónustunnar ásamt Náttúruverndarsamtökum eiga tvímálalaust að hafa fullann atkvæðisrétt. Félagsmenn þessara samtaka eru þeir sem mest njóta og nota hálendið og bera eðli málsins samkvæmt hag náttúru hálendisins fyrir brjósti.

Vegna ummæla sem ráðherra umhverfismála setti fram fyrir ekki svo löngu síðan “Að endurbyggja traust milli aðila”. Vil ég benda á að TRAUST felst í SAMRÁÐI og SAMVINNU ekki í “EINRÆÐI” og SUNDRUNGU.

Kærar kveðjur

Valdimar Aðalsteinsson

Afrita slóð á umsögn

#4 Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands - 10.10.2023

Góðan dag,

Meðfylgjandi er umsögn Landverndar um fyrirhugaðar sameiningar stofnanna.

F.h. stjórnar,

Þorgerður M Þorbjarnardóttir

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Bandalag háskólamanna - 17.10.2023

Góðan dag.

Sjá í viðhengi umsögn BHM

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#6 Eldvötn-samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi - 18.10.2023

Stjórn Eldvatna – samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi fagnar og styður eindregið sameiningu þeirra stofnana sem fara með málefni náttúruverndar. Er það trú stjórnar að úr verði sterk og skilvirk stofnun, og markvissari á allan hátt en núverandi fyrirkomulag.

Sérstaklega skal hér bent á að afar mikilvægt er, að mati stjórnar, að starfsmenn hinnar nýju stofnunar verði ekki settir í þá stöðu að sitja beggja vegna borðs við umsagnir og leyfisveitingar er varða framkvæmdir á friðlýstum svæðum og annað sem stofnunin hefur sjálf umsjón með. Í slíkum tilvikum leggja Eldvötn til að leyfis- og umsagnarmálin færist annað; t.a.m. til ráðuneytis umhverfismála eða Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Með góðri kveðju

f.h. Eldvatna – samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi

Ingibjörg Eiríksdóttir

formaður

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Félag fornleifafræðinga - 19.10.2023

Góðan dag,

Sjá viðhengi.

Kærar kveðjur,

Gylfi Helgason, f.h. stjórnar Félags fornleifafr.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Sveinbjörn Halldórsson - 19.10.2023

Ferðaklúbburinn 4x4 hefur farið yfir helstu markmið endurskipulagningarinnar og spurningar sem ráðuneytið hefur lagt fram.

Ferðaklúbburinn 4x4 minnir á að sameiningar stofnanna þurfa að öllu leiti að byggjast á faglegum forsendum sameininganna en ekki á forsendum reksturs eða til byggðaþróunar.

Ferðaklúbburinn 4x4 telur áhættu felast í fyrirhuguðum breytingum og endurskipulagningu stofnana umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins ef ekki er tekið á nokkrum vandamálum og þau lagfærð samhliða þeim sameiningum sem standa til og bendir hér á 22 atriði.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Sævar Örn Eiríksson - 19.10.2023

Umsögn mín er að öllu leiti samhljóma umsögn Ferðaklúbbsins 4x4 nr. 8

Afrita slóð á umsögn

#10 Andrés Skúlason - 19.10.2023

Vísað skal hér einnig til fyrri umsagnar sérstaklega vegna áforma um sameiningu náttúru- og minjaverndar. Sendandi hefur fylgst náið með allri aðferðarfræði og gjörðum ráðuneytis við þau drög sem liggja nú fyrir að frumvörpum um sameiningu átta stofnanna í þrjár. Fyrir liggur í fyrsta lagi að ráðuneytið hefur ekki tryggt að farið sé eftir leiðbeiningum ríkisendurskoðunar um vandaða stjórnsýsluhætti þegar kemur að jafn stórtækum áformum og sett hafa verið á dagskrá. Undirbúningur og aðferðarfræði sem miðar meðal annars að því að vinna í sátt og í nánu samstarfi við starfsfólk viðkomandi stofnanna er ekki samkvæmt þeim faglega leiðarvísir sem á að viðhafa við sameiningar stofnanna. Enn og aftur skal sömuleiðis lýsa furðu yfir því að ekki skyldi farið að meirihlutaniðurstöðu sem fram kom í skoðanakönnun um aukið samstarf og sameiginlega stoðþjónustu ýmsa sem að stofnanir lögðu til. Lýsa verður furðu á að ráðuneytið hafi hvergi viljað láta á þennan þátt reyna þrátt fyrir sýndan vilja. Hvernig ráðuneytið hyggst mæta framtíðaráskorunum með vanfjármagnaðar og stórlega undirmannaðar stofnanir sem munu að óbreyttu ekki getað sinnt hlutverki sínu er sömuleiðis illskiljanlegt. Hvernig hyggst ríkisstjórn ætla að efla grunnstofnanir sínar á sama tíma og starfsfólki er hótað uppsögnum og mikilli óvissu um endurráðningu. Hvernig ætla stjórnvöld almennt að styrkja rannsóknir og nýsköpun sem mikið ákall er um og á sama tíma að skilja eftir í opinberri umræðu að segja eigi upp amk 300 starfsmönnum. Hafi ráðuneytið á einhverjum tímapunkti haldið að sérfræðingar stofnanna gætu bara stokkið á milli stóla og unnið að óskyldum verkefnum í sameinaðri stofnun þá lýsir það miklu vanmati ráðuneytisins á í hverju menntun þeirra sérfræðinga liggur sem stofnanirnar hafa að geyma. Ljóst er að áformin eru til þess fallin að veikja grunnstofnanir til að sinna verkefnum sínum sem er afskaplega bagalegt þegar einmitt og hið sama ráðuneyti og ráðherra hafa kvartað yfir löngum ferlum t.d. þegar kemur að ýmsum framkvæmdum. Með þeim áformum sem uppi eru um að veikja stofnanirnar liggur fyrir að niðurstaðan getur ekki orðið önnur en sú að margvíslegir ferlar muni dragast þegar kemur m.a. að rannsóknum ýmsum og afgreiðslu leyfisveitinga o.s.frv. sem stofnanir vinna almennt í kappi við að afgreiða nú þegar undirmannaðar. Undirritaður hefur sömuleiðis gert athugasemdir á fyrri stigum við þekkingarskort innleiðingateymis ráðuneytisins á stjórnsýslulegri stöðu einstakra stofnanna sbr. Minjastofnunar Íslands, sú aðför að stofnunni er grafalvarleg. Þá má spyrja hver raunveruleg staða náttúruverndar verður í landinu með þann hluta sem falla á undir náttúruminjastofnun. Hvar í frumvarpi er gert ráð fyrir styrkingu á málefnum og stöðu náttúruverndar í landinu. Mikið rétt það er hvergi vikið orði að því og meira segja gengið svo langt gegn náttúruverndinni að eini fulltrúi Náttúruverndar í stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs situr uppi í áformum sem áheyrnarfulltrúi. Þetta segir meira en um margt um viðhorf ráðuneytisins til umhverfis og náttúruverndar sem er afskaplega dapurlegt svo ekki sé meira sagt. Sameining náttúruverndarsviðs í landinu og þjóðgarða hefði getað orðið með mögulegum ávinningi ef þeim væri í raun ætlað eitthvað bitastætt stjórnsýslulegt hlutverk en svo er ekki fyrir að fara og því verður ekki annað lesið úr samrunaáætlunum en að ráðuneytið hyggist gelda bæði náttúru- og minjavernd í landinu og það að taka stjórnsýslulegt hlutverk Minjastofnunar Íslands eins og það er í dag og gjaldfella það með þeim hætti að Ísland muni ein þjóða innan evrópu standa án sjálfstæðrar stofnunnar er hneisa sem mun skaða ímynd Íslands á því sviði. Hvað varðar áformaða Loftslagsstofnun er um það að segja að það er illskiljanlegt að ráðuneytið skuli ekki sjá samlegðina í að sameina náttúru- og loftslagsmál undir sömu stofnun þar sem þessir málaflokkar eru órjúfanlegir. Loftslagsvernd og náttúruvernd eru einmitt okkar stærstu áskoranir í dag - loftslagið og náttúran eru eitt vistkerfi þar sem annað getur ekki lifað án hins. Loftslagið þarf á náttúrunni að halda og náttúran þarf á loftslaginu að halda til þess að allt líf geti þrifist hér á jörð til framtíðar. Slík sameiginleg stofnun sem hefði bæði loftslagsmál og vistkerfi og náttúruvernd á sínum snærum hefði sannarlega verið hægt að setja á stofn þar sem væri unnið sannarlega að málum sem ekki er hægt að slíta frá hvort öðru. Náttúru-og loftslagsstofnun hefði því sómað sér vel sem heiti á stofnun sem hefði getað vistað samrýmanlega málaflokka. Þá hefur vakið athygli hvernig ráðuneytið hefur gert ráð fyrir ólíku stjórnsýsluhlutverki þessara þriggja stofnanna skuli háttað. Í stuttu máli verður ekki út úr frumvörpum annað lesið en að áformuð Loftslagsstofnun eigi að innihalda öfluga stjórnsýslu en hinar tvær stofnanirnar virðist eiga að þynna meira út í að vera með einhverskonar leiðbeiningahlutverk og markmiðið sé þar í raun að veikja allar valdheimildir og leyfisveitingaferli. Það er amk ákveðnar vísbendingar um að markmiðið sé ekki að styrkja rannsóknir og eftirlit og eða brýnar valdheimildir þar sem að Samtök atvinnulífsins sjá mikla kosti í tillögum ráðuneytisins með það fyrir augum að veikja grunnstoðir stofnanna sem endurtekið hefur þó komið fram á síðustu misserum að þurfi að styrkja verulega svo Ísland geti staðið jafnfætis öðrum þjóðum m.a. gagnvart þeim gríðarlegu áskorunum sem bíða í lofslagsmálum og hruni vistkerfa. Undiritaður hafnir því í heild sinni þeirri aðför sem verið er að leggja til um sameiningu stofnanna og leggur hér með til að unnið verði fyrst með stóraukið samstarf stofnanna með sameiginlegri stoðþjónustu. Það er amk algjör lágmarkskrafa að ráðuneytið dragi til baka áform um sameiningu stofnanna sem það hefur ekki áhuga á að hafa innanborðs og eða hefur skilning á málaflokknum. Undirritaður leggur því til að ráðuneytið komið Minjastofnun Íslands fyrir í ráðuneyti sem fer með málaflokk menningarminja - þ.e. Menningarmálaráðuneytið. (menningar og viðskiptaráðuneytið)

Virðingarfyllst Andrés Skúlason stjórn. VG og form. Fornminjanefndar

Afrita slóð á umsögn

#11 Kolbrún Rakel Helgadóttir - 20.10.2023

Góðan dag, ég lýsi yfir stuðningi við umsögn Ferðaklúbbsins 4x4 (#8)

Afrita slóð á umsögn

#12 Sigmundur Sæmundsson - 20.10.2023

Ég tek undir eftirfarandi texta í umsögn F4x4 og tel nauðsynlegt að vinda ofan af þessu ljóta máli með réttlátri málsmeðferð:

" Að sumra mati er lokunin á Vonarskarði fyrir vélknúinni umferð stærstu

mistökin sem Vatnajökulsþjóðgarður hefur gert. Þetta hefur meðal annars komið fram

hjá fyrrverandi stjórnarformanni, Hjalta Þór Vignissyni.

Svæðisráð vestursvæðis hafði á fyrstu árum VJÞ komist að þeirri niðurstöðu

að akstursleiðin um Vonarskarð skuli vera opin að hausti, eða eftir 1.

september. Lausn sem byggði á málamiðlunartillögu útivistarfólks.

Lokunin var svo gerð einhliða af hálfu stjórnar sem hafnaði málamiðlun

útivistarfólks og valtaði yfir ákvörðun svæðisráðsins með ákvörðun sem var

ekki rökstudd efnislega. Bara einföld atkvæðagreiðsla innan stjórnar. Það

stenst ekki anda laga sem kveða á um að íþyngjandi ákvörðunum skuli fylgja

rökstuðningur. Síðan má segja að fjandinn hafi verið laus."

Traustið er farið og það verður ekki endurheimt nema málefnin 22 sem F4x4 bendir á verði lagfærð.

Afrita slóð á umsögn

#13 Félag íslenskra náttúrufræðinga - 20.10.2023

Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) vísar í umsagnir félagsins vegna mála 103/2023, 166/2023 og 168/2023 (sjá viðhengi) hvað varðar flest atriði er varðar mál 170/2023. Sérstaklega hvað varðar spurningu nr. 3. hvað varðar helstu áhættuþætti.

FÍN telur það skjóta skökku við að boðað sé til samráðs í kjölfar samráðs annarra mála, sbr. 103/2023, 166/2023 og 168/2023 sem varðar að mestu útfærslu á endurskipulagningu. Betra hefði verið að setja það samráð sem hér liggur fyrir fram áður en útfærslan er lögð í samráð.

FÍN telur mikil tækifæri til fjölgunar opinberra starfa á landsbyggðinni, sbr. spurningu nr. 7, með aukningu á fjarvinnu og starfa án staðsetningar. Þónokkur fjöldi einstaklinga hefur alltaf búið eða hefur kosið að búa utan stærri búsetukjarna landsins en hefur oft takmörkuð tækifæri til atvinnu vegna staðsetningar sinnar, sem og færð milli staða getur spillst verulega um vetrartímann. Getur og hefur slíkt leitt til ákveðins flótta fólks til stærri búsetukjarna. Hér er um að ræða einstaklinga sem hafa sérþekkingu og vilja til að starfa innan hins opinbera til lengri tíma sem aftur getur leitt til minni starfsmannaveltu.

Mikil áhersla hefur verið á að störf og verkefni hins opinbera séu á eða nálægt stærstu búsvæðum landsins, þ. á m. á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri. Hafa því minni búsetukjarnar misst af lestinni. Jafnframt hefur komið fram að störf án staðsetningar séu ekki raunverulega án staðsetningar, þ.e. viðkomandi starfsfólki sé ekki frjálst að velja hvaðan verkefni séu sinnt heldur ber að velja sér tilteknar staðsetningar innan ákveðinni takmarkaðs fjölda kjarna, sem þá eru innan stærstu búsetukjarna en ekki þeirra minni.

FÍN hefur verið umhugað um að starfsfólk geti haft raunverulegt val um staðsetningu og með nútíma tækni er slíkt mögulegt í langflestum tilvikum. Hefur félagið m.a. bent á að ríkið geti sett upp stöðvar víðsvegar um landið þar sem fleiri en ein stofnun getur hýst sitt starfsfólk, einskonar fjarvinnustöðvar að þeirri fyrirmynd sem núþegar hefur komið fram á almennum markaði. Jafnvel væri hreinlega unnt að nýta fjarvinnu enn frekar eins og hefur sýnt sig að sé möguleiki í starfsemi hvorutveggja fyrirtækja sem og stofnana ríkisins. Slíkt getur jafnframt opnað á vinnu aðila fyrir opinberar stofnanir utan landsteinanna.

Vert er að nefna að færsla stofnana út á land getur leitt til missi á sérfræðikunnáttu, takmarkaða möguleika stofnana að ná til sín sérfræðingum og haft verulegan auka kostnað í för með sér. Fyrir utan að slíkir flutningar þurfa ekki endilega vera þess eðlis að fjölga eða efla opinber störf á landsbyggðinni nema mögulega í stærstu búsetukjörnum.

Að lokum vill félagið benda á mikilvægi þess að samráð sé við félagið "frá upphafi til enda" til að vel takist til. Félagið telur mikilvægt að nýráðnir forstjórar stofnana sem ráðnir eru til að byggja upp nýjar stofnanir þurfi að halda áfram samráði við alla hagaðila, þar með talið FÍN, þar sem félagið gætir hagsmuna félagsfólks sem munu koma til með að starfa hjá hinnum nýju stofnunum í framtíðinni, Það er mat félagsins að ekki sé fullnægjandi að samráð sé aðeins viðhaft í gegnum samráðsgátt stjórnvalda.

Félagið lýsir vilja til að fylgja umsögn sinni eftir á fundum með ráðuneytinu, og eftirleiðis með forstjórum hinna nýju stofnana.

Maríanna H. Helgadóttir, formaður FÍN

Runólfur Vigfússon, hdl., lögfræðingur FÍN

Viðhengi Viðhengi Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Landsvirkjun - 20.10.2023

Meðfylgjandi í viðhengi er umsögn Landsvirkjunar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Samband íslenskra sveitarfélaga - 20.10.2023

Góðan dag

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Kv. Flosi H. Sigurðsson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Viðskiptaráð Íslands - 20.10.2023

Meðfylgjandi er umsögn Viðskiptaráðs Íslands

Viðhengi