Umsagnarfrestur er liðinn (25.09.2023–09.10.2023).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Innleiðing tilskipana sem breyta tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir hvað varðar losun frá flugstarfsemi, iðnaði, sjóflutningum, vegasamgöngum, húshitun og smærri iðnaði.
Ísland er með sameiginlegt markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 ásamt Evrópusambandinu (ESB) og Noregi. Í júní 2021 gaf ESB út að það ætlaði sér að ná hertu markmiði um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030. Til þess að ná því markmiði hefur sambandið endurskoðað og uppfært löggjöf á sviði loftslags- og orkumála. Hluti endurskoðunarinnar varðar breytingar á tilskipun 2003/87/EB um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS-kerfið) en stefnt er að 62% samdrætti í losun frá þeirri starfsemi sem fellur undir kerfið. Í þessu frumvarpi verða lagðar til breytingar á lögum um loftslagsmál til innleiðingar á tilskipun 2023/958 (flugstarfsemi) og tilskipun 2023/959 (iðnaður, sjóflutningar og ETS2 kerfið um byggingar, vegasamgöngur og smærri iðnað).
Það þarf að breyta þeim köflum laga um loftslagsmál sem fjalla um ETS-kerfið til að endurspegla breytingar á tilskipun 2003/87/EB. Losun frá sjóflutningum fellur undir viðskiptakerfið í skrefum en frá og með árinu 2025 munu skipafyrirtæki þurfa að gera upp losun sína að hluta. Í tilskipun 2023/959 er í nýjum IVa kafla fjallað um nýtt viðskiptakerfi svokallað ETS2 kerfi sem mun ná utan um losun frá byggingum (húshitun), vegasamgöngum og smærri iðnaði. ETS2-kerfið verður rekið samhliða ETS-kerfinu en losun frá því mun áfram reiknast sem samfélagslosun sem er á beina ábyrgð ríkja.
Mikilvægt er að frumvarpið verði að lögum fyrir árslok 2023 til að gæta einsleitni á EES og tryggja hagsmuni innlendra aðila sem falla undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir.
Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins, SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu og Viðskiptaráðs um áform um lagasetningu - Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál nr. 70/2012 (EES-innleiðing, viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir).
Viðhengi