Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 28.9.–13.10.2023

2

Í vinnslu

  • 14.10.2023–

Samráði lokið

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-175/2023

Birt: 28.9.2023

Fjöldi umsagna: 8

Drög að frumvarpi til laga

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjölskyldumál

Breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga

Málsefni

Markmið fyrirhugaðra breytinga er að gera úrræðið um greiðsluaðlögun einstaklinga að heildstæðari lausn en nú er og að málsmeðferð verði skýrari og skilvirkari, til hagsbóta fyrir umsækjendur.

Nánari upplýsingar

Lög um greiðsluaðlögun einstaklinga voru sett árið 2010, þar sem knýjandi þörf var fyrir úrræði til að takast á við þann vanda sem til kom vegna bankahrunsins árið 2008 og efnahagskreppunnar sem fylgdi í kjölfarið. Markmiðið með lagasetningunni var jafnframt að lögfesta varanlegt úrræði til framtíðar handa einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum. Engin endurskoðun hefur farið fram á lögunum frá setningu þeirra en að mati embættis umboðsmanns skuldara er orðin mikil þörf á endurskoðun laganna. Markmiðið með þeim breytingum sem nú eru fyrirhugaðar er að betrumbæta úrræðið og gera málsmeðferðina skýrari og skilvirkari, umsækjendum til hagsbóta. Með þessu frumvarpi verða úrelt lagaákvæði felld brott, umbætur gerðar á lagaákvæðum, breytingar gerðar á málsmeðferð og meðferð krafna er standa utan greiðsluaðlögunar og einnig verða gerðar orðalagsbreytingar til að gera ákvæðin skýrari.

Úrræðið um greiðsluaðlögun einstaklinga hefur margsannað mikilvægi sitt en löggjöfin þarf að þróast í takt við breytt umhverfi og þarfir umsækjenda, sem margir eru úr öðrum samfélagshópum og í annarri stöðu en áður var.

Helstu breytingar sem lagðar eru til eru eftirfarandi:

• Breyting á meðferð ákveðinna krafna sem standa utan greiðsluaðlögunar þannig að úrræðið verði heildstæðara.

• Rýmkun á skilyrðum um búsetu og lögheimili á Íslandi og breyting á þeim aðstæðum sem geta leitt til synjunar á umsókn, þannig að fleiri geti leitað greiðsluaðlögunar.

• Breyting á meðferð veðskulda, m.a. til að bregðast við sérstökum aðstæðum eins og háu vaxtastigi.

• Breytingar á málsmeðferð vegna breytinga eða ógildingar á greiðsluaðlögunarsamningi, m.a. til þess að auka líkur á því að skuldari geti staðið við samninginn og auka skilvirkni gagnvart kröfuhöfum.

• Breytingar á málsmeðferð í kjölfar samþykkis umsóknar, m.a. nokkrar sem varða kröfuhafa, þá aðallega að skýrt komi fram hvaða efniskröfur eru gerðar til kröfulýsinga, umboðsmaður skuldara hafi heimild til að telja kröfu vanlýsta ef hún uppfyllir ekki efniskröfur og að eingöngu þeir kröfuhafar sem lýst hafi kröfum fái afhent frumvarp til greiðsluaðlögunar. Aðrir kröfuhafar fá þá senda tilkynningu um að greiðsluaðlögunarumleitanir séu hafnar.

Í vinnslu

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa félags- og lífeyrismála

frn@frn.is