Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 29.9.–27.10.2023

2

Í vinnslu

  • 28.10.–7.11.2023

3

Samráði lokið

  • 8.11.2023

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-177/2023

Birt: 29.9.2023

Fjöldi umsagna: 5

Drög að frumvarpi til laga

Heilbrigðisráðuneytið

Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Drög að frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu

Niðurstöður

Unnið var úr umsögnum og gerðar viðeigandi breytingar á frumvarpinu.

Málsefni

Heilbrigðisráðuneytið kynnir til samráðs drög að frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu.

Nánari upplýsingar

Frumvarp þetta er samið í heilbrigðisráðuneytinu og eru helstu breytingar eftirfarandi:

- Lagt er til að foreldrar eigi rétt til bóta vegna andláts fósturs á meðgöngu eða barns undir 18 ára aldri vegna sjúklingatryggingaratviks.

- Lagt er til að bætur séu greiddar til þeirra sem gangast undir bólusetningu á Íslandi með bóluefni sem íslensk heilbrigðisyfirvöld leggja til, vegna tjóns sem hlýst af því.

- Lagt er til að hámarksfjárhæð vegna tjóns verði hækkuð.

- Lagt er til að afnema það skilyrði að skaðabótakrafa verður ekki gerð á hendur neinum sem er bótaskyldur samkvæmt reglum skaðabótaréttar nema tjón hafi ekki fengist að fullu bætt úr sjúklingatryggingu og þá einungis um það sem á vantar.

- Lagt er til að afnema þá aðgreiningu sem gerð hefur verið í lögum um sjúklingatryggingu eftir því hvar í heilbrigðisþjónustu tjónsatvik á sér stað.

- Lagt er til að skýrt verði hvernig skuli greiða bætur þegar um er að ræða andlát þar sem einstaklingar á framfæri hins látna eru fleiri en einn.

- Lagt er til að skýra heimild sjúkratryggingastofnunarinnar til að afla gagna með nákvæmari hætti og heimila stofnuninni og embætti landlæknis að deila gögnum sem varða sama atvik.

- Lagt er til að lögfesta málsmeðferð sjúkratryggingastofnunarinnar með nákvæmari hætti en nú er gert.

- Lagt er til að mál sem heyrir undir sjúkratryggingastofnunina verði ekki borið undir dómstóla fyrr en eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála hefur úrskurðað í málinu. Að öðrum kosti skal tjónþoli höfða almennt skaðabótamál.

- Lagt er til að sektarákvæði verði fellt úr gildi þar sem því hefur ekki verið beitt frá setningu gildandi laga og ekki skýrt hvernig ákvæðinu skal beitt í framkvæmd. Þá er refsiákvæði í lögum um heilbrigðisstarfsmenn auk úrræða sem embætti landlæknis getur beitt skv. lögum um landlækni og lýðheilsu.

Frestur til að skila inn umsögnum um frumvarpið er til og með 27. október 2023.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa innviða heilbrigðisþjónustu

hrn@hrn.is