Umsagnarfrestur er liðinn (01.11.2023–22.11.2023).
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnir til samráðs skýrslu um mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi
Í maí 2022 óskaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið eftir því við Veðurstofu Íslands að fram færi mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum í þéttbýli. Ofanflóðahætta er víða á atvinnusvæðum bæði í og við þéttbýli og í dreifbýli. Skýrslunni er ætlað að skapa yfirsýn yfir þann ofanflóðavanda sem við er að eiga á atvinnusvæðum í ofanflóðahættu.
Frá 1996, þegar uppbygging varnarvirkja komst í núverandi horf, hefur Ofanflóðanefnd lagt áherslu á að verja íbúðarhúsnæði í þéttbýli. Þar eru enn stór verkefni óunnin og er áætlað að lokið sé við rúmlega helming þeirra verkefna sem þarf að vinna til þess að verja öll íbúðarhús á C-svæðum í þéttbýli. Mikilvægt er að sveitarfélög og ríkisvaldið hafi alltaf bestu upplýsingar sem völ er á um náttúruvá og að litið sé til þeirra upplýsinga þegar kemur að skipulagsvinnu og uppbyggingu varnarvirkja og skýrslan mikilvægt innlegg í þeim efnum.
Í skýrslunni ,,Mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi“ er fjallað um tíu þéttbýlisstaði þar sem atvinnuhús eru á C-svæði en á slíkum svæðum skal öryggi tryggt með varanlegum varnarvirkjum eða uppkaupum íbúðarhúsnæðis sbr. reglugerð nr. 505/2000 um hættumat vegna ofanflóða, flokkun og nýtingu hættusvæða og gerð bráðabirgðahættumats. Meiri staðaráhætta er leyfð í atvinnuhúsum en í íbúðarhúsum, þar sem viðvera fólks í heimahúsum er metin um 75% en mun minni, eða um 40% í atvinnuhúsnæði. Þannig er leyfilegt, á þegar skipulögðum svæðum, að reisa atvinnuhúsnæði á hættusvæði B, án kvaða um
styrkingar húsa en styrkja þarf íbúðarhúsnæði sem er reist á hættusvæði B. Í samræmi við þetta, áherslu sem lögð var af Ofanflóðanefnd og til þess að hafa umfang verkefnisins viðráðanlegt er í skýrslunni fyrst og fremst fjallað um atvinnusvæði á C-svæðum í og við þéttbýli.
Í skýrslunni kemur fram að brunabótamat atvinnuhúsnæðis á þessum stöðum er samtals tíu milljarðar kr. og þar hæst á Seyðisfirði eða rúmir 4,5 milljarðar. Í skýrslunni eru lagðar eru til varnir þar sem þær eru mögulegar og kostnaðarmat er minna eða á pari við brunabótamat þess sem er varið. Miðað er við að varnir fyrir atvinnusvæði færi þau af hættusvæðum C og a.m.k. á hættusvæði B. Lagðar eru til varnir fyrir eignir á C-svæðum með brunabótamat samtals 4,5 milljarða en með þeim vörnum yrðu einnig varðar eignir á B-svæðum með brunabótamat upp á 1,2 milljarða. Kostnaðarmat við þessar varnir er rúmir 4 milljarðar. Brunabótamat eigna sem ekki er mögulegt að verja er hinsvegar rúmir 5,5 milljarðar. Stærstur hluti verðmæti eigna sem ekki er hægt að verja er á Seyðisfirði.
Í skýrslunni eru ekki lagðar til varnir fyrir þau hús sem ekki svarar kostnaði að verja eða það er tæknilega ómögulegt en í mörgum tilfellum eru varnarkostir nefndir. Í einhverjum tilfellum munar ekki mjög miklu á kostnaði og brunabótamati. Frumathugun, þar sem varnarkostir væru skoðaðir nánar, gæti breytt þeirri niðurstöðu. Í flestum tilfellum munar þó töluverðu og ólíklegt að niðurstaðan breytist. Að mati skýrsluhöfunda kemur þrennt til greina í þessum tilfellum:
1. Reisa varnir sem gera stöðuna að einhverju leyti skárri og eyða til þess fjármunum sem geta numið töluverðum hluta af verðmæti eignanna
2. Kaupa upp húsin
3. Gera ekkert og láta þau standa áfram á hættusvæðum.
Efni skýrslunnar hefur verið kynnt sérstaklega fyrir þeim sveitarfélögum sem búa við ofanflóðahættu og fjallað er um í skýrslunni en í kjölfar þess samráðs auk kynningar í samráðsgátt stjórnvalda mun ráðuneytið á grundvelli niðurstöðu skýrslunnar og samráðs kynna til samráðs tillögu um lagafrumvarp þar sem m.a. verður skoðað hvort skýra eigi gildissvið laga nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum þannig að skýrt sé að lögin taki einnig til atvinnusvæða.
Óskað er eftir umsögnum og ábendingum um efni skýrslunnar.
Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók mál nr. 216/2023, fyrir á 1262. fundi sínum, þann 13. nóvember 2023, og bókaði eftirfarandi: "Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur áherslu á að lokið verði við að verja íbúabyggð áður en hafist verði handa við að verja atvinnuhúsnæði."
Álit Múlaþings um mál nr. 216/2023 í Samráðsgátt stjórnvalda – Skýrsla um mat á þörf fyrir varnarvirki og viðbúnað vegna ofanflóðahættu á atvinnusvæðum á Íslandi.
Múlaþing fagnar skýrslunni og telur að hún sé bæði ýtarleg og vel unnin og skýri stöðu atvinnuhúsnæðis á hættusvæðum með tilliti til ofanflóða. Skýrslan geti verið góðurgrunnur til að byggja á við áframhaldandi vinnu við undirbúning lagasetningar um frekari
varnir eða aðgerðir til uppkaupa á atvinnuhúsnæði. Mikilvægt er að breyta lögum til að betur koma til móts við eigendur atvinnuhúsnæða á hættusvæðum og fagnar Múlaþing því
að slíkt skuli vera loksins komið til skoðunar.
Um atvinnuhúsnæði á hættusvæðum
Múlaþing leggur áherslu á unnið verði með skipulagsáætlanir til þess að beina byggð, og þar með talið atvinnusvæðum, inn á svæði sem talin eru örugg og verður það meðal annars
til skoðunar við gerð nýs aðalskipulags sveitarfélagsins sem nú er unnið að.
Fram kemur í skýrslunni að á sumum svæðum geti verið mjög erfitt og jafnvel ómögulegt að verja öll mannvirki innan þess svæðis með varnarvirkjum. Í þeim tilvikum verður til
nokkurskonar kaflaskipt öryggi sem er að mati Múlaþings mjög óheppilegt. Það er líka rétt að hafa í huga að húsakostur á hættusvæðum á Seyðisfirði er að hluta til komin til ára sinna
og hentar þar af leiðandi ekki starfseminni að öllu leyti eins og hún fer fram í dag.
Í sumum tilvikum gæti verið farsælla að færa núverandi starfsemi af hættusvæðum á svæði sem talin eru örugg, en byggja varnir. Slíkt þyrfti að skoða betur þar sem vinna þyrfti
greiningu á þeirri starfsemi sem nú er á hættusvæði auk þess sem vinna þyrfti frummat á gerð varnarvirkja svo hægt sé að meta betur raunverulega möguleika til varnar. Slík vinna
myndi þá skila niðurstöðum um möguleikana í stöðunni fyrir hvert hús/starfsemi en líka skila okkur mikilvægum upplýsingum svo hægt sé að taka á verkefninu heildstætt.
Mikilvægt er að hafa möguleika á valkostum sem gætu verið hagstæðari í heildina en að byggja upp varnir sem væru í mörgum tilvikum mjög kostnaðarsamar, gagnsemi væri að
einhverju leyti háð óvissu og ekki víst að kæmu að fullu gagni við allar aðstæður. Með ofangreindum aðgerðum væri stefnt að því að öll byggð á hættusvæðum færist inn á örugg
svæði.
Múlaþing lýsir sig tilbúið í slíka vinnu svo hægt sé að leggja endanlegt mat á tilfærslu hluta/eða alls atvinnusvæðis af hættusvæðum. Til þess þarf þó ítarlegar greiningar enda
geta niðurstöðurnar þýtt að taka þurfi íþyngjandi ákvarðanir fyrir eigendur atvinnuhúsnæðis.
Um möguleg uppkaup á atvinnuhúsnæði
Þótt svo skýrsla þessi taki að litlu leyti á þeim möguleika um uppkaup á atvinnuhúsnæði á hættusvæði vill Múlaþing benda á að brunabótamat og eða fasteignamat segi takmarkað
um raunvirði húsa og að verði uppkaup á stóru svæði teljum við víst að það muni ekki skila sveitarfélaginu í jafnstóru atvinnusvæði á nýjum stað. Tryggja þarf að uppbygging
atvinnuhúsnæðis sé raunhæfur kostur auk þess sem best væri að tryggja að uppbygging yrði innan þess sveitarfélags (byggðakjarna) sem um ræðir.
Virðingarfyllst,
f.h. umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings
Jónína Brynjólfsdóttir, formaður ráðsins
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Vesturbyggðar um skýrsluna.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Dýraverndarsambands Íslands.
Viðhengi