Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 8.–26.11.2023

2

Í vinnslu

  • 27.11.2023–4.1.2024

3

Samráði lokið

  • 5.1.2024

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-228/2023

Birt: 8.11.2023

Fjöldi umsagna: 1

Drög að frumvarpi til laga

Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Fjölmiðlun

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla (EES-innleiðing)

Niðurstöður

Ein umsögn barst um frumvarpið, frá Öryrkjabandalagi Íslands, ÖBÍ. Laut hún að mikilvægi þess að tryggja aðgengi allra landsmanna að fjölbreyttu fjölmiðlaefni og gera sömu kröfur til textunar á innlendu og erlendu efni. ÖBÍ fagnaði innleiðingu ákvæða um bætt aðgengi sjón- og heyrnarskerts fólks og upplýsingagjöf. Hvatti ÖBÍ stjórnvöld til að styðja við þróun stafrænna lausna sem nýtist við textun og hljóðlýsingu. Umsögnin var þess eðlis að hún kallaði ekki á breytingar á frumvarpinu. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi 1. desember 2023, sjá þingmál nr. 32/2023, sbr. hlekk hér fyrir neðan.

Málsefni

Frumvarpið felur í sér innleiðingu í landsrétt á tilskipun 2018/1808/ESB, sem breytti tilskipun 2010/13/EB um hljóð- og myndmiðlun. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn 9. desember 2022.

Nánari upplýsingar

Menningar- og viðskiptaráðuneytið óskar umsagna um drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011, vegna innleiðingar á tilskipun 2018/1808/ESB. Frumvarp til innleiðingar á tilskipuninni var lagt fram á 151. og 153. löggjafarþingi og er nú lagt fram að nýju efnislega óbreytt, en uppfært með tilliti til umsagna sem bárust allsherjar- og menntamálanefnd á 153. löggjafarþingi.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjölmiðla í því skyni að samræma reglur um línulega og ólínulega myndmiðlun, með hliðsjón af tækniþróun og breyttri fjölmiðlanotkun almennings. Línulegt áhorf hefur minnkað og meira er horft á myndefni í ólínulegri dagskrá og á mynddeiliveitum, eins og YouTube, Facebook og Instagram. Nauðsynlegt er talið að lagaumhverfi fjölmiðla endurspegli framangreindar breytingar og að reglur þar að lútandi séu samræmdar á öllu EES-svæðinu. Þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu miða öðru fremur að þvi að tryggja vernd barna og öryggi notenda myndmiðla, óháð því hvort myndefni er miðlað með línulegum eða ólinulegum hætti í fjölmiðlum eða á mynddeiliveitum. Frumvarpið mælir ekki fyrir um aðrar breytingar en sem leiða má af tilskipun 2018/1808/ESB.

-Lagðar eru til nýjar skyldur mynddeiliveitna (e. video sharing platforms) um að tryggja vernd barna með tæknilegum úrræðum og gera notendum kleift að tilkynna efni sem hvetur t.d. til ofbeldis eða hryðjuverka. Auk þess verði gerðar kröfur um skýrar merkingar auglýsingaefnis á mynddeiliveitum. Þess skal getið að flestar stærstu mynddeiliveiturnar, t.d. YouTube, Facebook og Instagram, eru í írskri lögsögu og verða ekki fyrir áhrifum af framkvæmd laganna hér á landi.

-Lagt er til að reglur um auglýsingar í línulegri sjónvarpsdagskrá verði rýmkaðar með þeim hætti að hámarkshlutfall auglýsinga verði 20% á tilteknum tímabilum en ekki bundið við 20% (12 mínútur) á klukkustund, eins og kveðið er á um í núgildandi lögum. Þessum breytingum er ætlað að styrkja hefðbunda fjölmiðla í samkeppni við streymisveitur og samfélagsmiðla.

-Frumvarpið felur í sér að gerðar verði kröfur um 30% hlutfall íslensks og annars evrópsks efnis í ólínulegri dagskrá (myndmiðlum sem miðla efni eftir pöntun) en samkvæmt núgildandi lögum eru kröfur um tiltekið hlutfall íslensks og annars evrópsks efnis einungis gerðar til línulegrar sjónvarpsdagskrár. Til að auðvelda nýjum aðilum að koma inn á markaðinn er jafnframt lagt til að fjölmiðlaveitur með lítið áhorf eða lága afkomu geti verið undanþegnar skyldunni.

-Efni frumvarpsins miðar að því að fjölmiðlar bæti aðgengi sjón- og heyrnarskertra að myndefni með virkum hætti. Frumvarpið er þannig til þess fallið að efla réttindi sjón- og heyrnarskertra, sérstaklega rétt til táknmáls, textunar og hljóðlýsingar á því efni sem miðlað er. Er hér um að ræða útfærslu á réttindum er leiðir af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur fullgilt, sbr. þingsályktun nr. 61/145.

-Meginreglan um frelsi til móttöku hljóð- og myndmiðlunarþjónustu innan EES-svæðisins heldur gildi sínu en ákvæði um tímabundna stöðvun á móttöku myndmiðlunarefnis frá öðrum EES-ríkjum hafa verið endurskoðuð með tilliti til þess að ef fjölmiðlaþjónusta brýtur augljóslega, verulega og alvarlega gegn t.d. reglum um bann við hvatningu til hryðjuverka, eða með þvi að skaða eða ógna almannaöryggi geti fjölmiðlanefnd stöðvað slíka móttöku myndmiðlunarefnis tímabundið að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

-Þá miðar efni frumvarpsins að því að valdefla almenning með því að auka fræðslu um upplýsinga- og miðlalæsi. Upplýsinga- og miðlalæsi er talið nauðsynleg færni í nútímasamfélagi og mikilvægur hluti af netöryggi almennings, m.a. vegna netsvika og aukinnar dreifingar upplýsingaóreiðu á stafrænum miðlum. Í upplýsinga- og miðlalæsi felst m.a. færni til að leita áreiðanlegra upplýsinga og leggja gagnrýnið mat á upplýsingar sem birtast í fjölmiðlum og á stafrænum miðlum af ýmsu tagi.

Samráðsaðilar og aðrir áhugasamir eru hvattir til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum gagnvart efni frumvarpsins.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa menningar og fjölmiðla

mvf@mvf.is