Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 9.–23.11.2023

2

Í vinnslu

  • 24.11.2023–16.1.2024

3

Samráði lokið

  • 17.1.2024

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-230/2023

Birt: 9.11.2023

Fjöldi umsagna: 11

Annað

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Örorka og málefni fatlaðs fólks

Landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Niðurstöður

Alls bárust 11 umsagnir. Í umsögnum var fjöldi góðra ábendinga og athugasemda. Almennt var áætluninni og innleiðingu SRFF fagnað. Sjá nánar í niðurstöðuskjali.

Málsefni

Drög að tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024 – 2027 (landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks).

Nánari upplýsingar

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið kynnir til umsagnar drög að tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024 – 2027 (landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks). Áætlunin er lögð fyrir Alþingi skv. 37. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

Framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks, sem nú er lögð fram sem landsáætlun um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, byggir á þeirri framtíðarsýn og þeim meginreglum sem fram koma í samningnum. Markmið landsáætlunar er þannig samhljóðandi við fyrstu grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks; að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi og að auka virðingu fyrir eðlislægri mannlegri reisn þess.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti að hefja vinnu við gerð landsáætlunar um innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þann 1. júlí 2022. Félags- og vinnumarkaðsráðherra skipaði verkefnisstjórn um gerð landsáætlunar í október 2022. Í verkefnisstjórn sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, innviðaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Geðhjálpar, Landssamtakanna Þroskahjálp, ÖBÍ réttindasamtaka og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis, undir forystu þess síðastnefnda.

Í nóvember 2022 tóku 11 vinnuhópar til starfa, sem störfuðu með verkefnisstjórn að mótun landsáætlunar. Í hverjum hópi sátu fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks; Geðhjálpar, Landssamtakanna Þroskahjálp og ÖBÍ réttindasamtaka, fulltrúar sveitarfélaga og fulltrúar Stjórnarráðsins, þ.e. starfsmenn ráðuneyta eða stofnana þeirra. 33 ákvæðum samningsins var skipt upp á milli vinnuhópanna og á grundvelli greiningar á stöðu hvers ákvæðis hér á landi mótuðu vinnuhóparnir tillögur að aðgerðum til að nálgast markmið samningsins.

Landsáætlun felur þannig í sér 57 aðgerðir til að koma í framkvæmd ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Áætluninni er ætlað að fela í sér skýra framtíðarsýn, kortlagningu, greiningu og mat á kostum í þjónustu og þróun réttinda fatlaðs fólks, til þess að stuðla að farsælli innleiðingu samningsins.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa félags- og lífeyrismála

frn@frn.is