Samráð fyrirhugað 22.03.2018—05.04.2018
Til umsagnar 22.03.2018—05.04.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 05.04.2018
Niðurstöður birtar 27.09.2018

Reglugerð um breytingu á reglugerð um innritun nemenda í framhaldsskóla

Mál nr. 38/2018 Birt: 21.03.2018 Síðast uppfært: 27.09.2018
  • Mennta- og menningarmálaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Framhaldsskólastig

Niðurstöður birtar

Samráði lokið. Fjórar umsagnir bárust. Aðeins tvær þeirra fólu í sér tillögur að efnislegum breytingum. Að svo stöddu var ákveðið að ganga ekki lengra í breytingum á 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar en boðað hafði verið. Athugasemd Samband íslenskra sveitarfélaga var tekin til greina og ákveðið að fella 4. mgr. 2. gr. á brott í heild sinni. Reglugerðin var birt í stjórnartíðindum 15. maí 2018 og hefur þegar öðlast gildi.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 22.03.2018–05.04.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 27.09.2018.

Málsefni

Með reglugerðinni er mælt fyrir um tvær efnisbreytingar á núgildandi reglugerð. Annars vegar er kveðið á um brottfall orðanna „og niðurstöður samræmdra könnunarprófa“ úr 4. mgr. 2. gr. og hins vegar brottfalls g-liðar 3. mgr. 7. gr. sem kveður á um forgang nemenda, sem eru 25 ára og yngri, til framhaldsskólavistar.

Með breytingu á reglugerðinni, sbr. reglugerð nr. 1199/2016, var veitt heimild til að taka mið af niðurstöðum samræmdra könnunarprófa við innritun nemenda í framhaldsskóla. Með þeirri reglugerðarbreytingu sem hér er kynnt er lagt til að fella á brott orðalagið „og niðurstöður samræmdra könnunarprófa“ úr 4. mgr. 2. gr. úr reglugerðinni.

Með breytingum á reglugerðinni, sbr. reglugerð nr. 204/2012, var kveðið á um hvernig forgangsraða skal nemendum við innritun nemenda. Þar var mælt fyrir um að nemendur sem eru 25 ára og yngri og uppfylla skilyrði skulu hafa forgang á þá sem eldri eru við innritun. Um þessa reglu hefur ekki ríkt sátt frá því hún var sett. Mennta- og menningarmálaráðherra leggur til að töluliðurinn verði felldur á brott úr reglugerðinni.

Framangreindu að auki er lögð til breytt tilvísun til framhaldsskólalaganna, en í núverandi reglugerð er vísað til 32. gr. a en rétt er að vísa til 33. gr. a.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Ólafur Helgi Jóhannsson - 22.03.2018

Þessar tvær breytingar eru til bóta. Niðurstöður úr greinandi prófi í 9. bekk eiga ekki erindi til annarra en skólans, nemandans og foreldra hans.

Aðgerðir sem laða nemendur að námi eru jákvæðar og það á við um afnám 25 ára "reglunnar".

Afrita slóð á umsögn

#2 Lára Stefánsdóttir - 03.04.2018

Þessar breytingar báðar eru til bóta.

Það væri líka þarft að fella út i. lið reglugerðarinnar „umsækjendur um fjarnám eða kvöldskóla.“ Ekki er rétt að mismuna nemendum sem ekki komast til skóla vegna búsetu eða aðstæðna og gera þeim kleift að stunda nám til jafns við aðra í stað þess að setja þá síðasta í forgangsröð.

Afrita slóð á umsögn

#3 Samband íslenskra sveitarfélaga - 04.04.2018

Meginbreyting skv. reglugerðinni er að fella brott breytingu sem gerð var á 4. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar árið 2016, um að heimilt sé að leggja niðurstöður samræmdra könnunarprófa til grundvallar við mat á umsóknum um innritun nemenda í framhaldsskóla.

Samband íslenskra sveitarfélaga er sammála þessari breytingu en telur þó að mögulega gangi breytingin ekki nógu langt. Til nánari skýringar skal bent á að sú viðbót við reglugerðina sem kom inn með reglugerð nr. 1199/2016 hljóðar svo:

"Í þeim tilvikum þegar velja þarf úr stórum hópi umsækjanda er framhaldsskóla einnig heimilt að taka mið af viðbótargögnum sem nemandi kýs að senda með umsókn sinni, eins og staðfestar upplýsingar um þátttöku og árangur í félagsstarfi, öðru námi, keppnum af ýmsu tagi, svo sem íþróttum, listum, tungumálum og raungreinum og niðurstöður sam¬ræmdra könnunarprófa."

Í fyrirhugaðri reglugerðarbreytingu er einungis horfið frá því að heimila skólum að leggja árangur á samræmdum könnunarprófum til grundvallar við innritun í framhaldsskóla. Eftir stendur heimild fyrir nemendur til þess að láta önnur gögn fylgja umsókn sinni. Sambandið telur rétt að halda því sjónarmiði til haga í þessari umsögn að það geti alið á mismunun milli nemenda að setja í reglugerð um innritun í framhaldsskóla heimild til þess að senda inn viðbótargögn til staðfestingar á þátttöku í listnámi, íþróttum, tungumálum og öðru sem gjarnan veltur á fjárhag og félagslegri stöðu foreldra hvort nemendur hafi tækifæri til að stunda, fremur en að byggja eingöngu á námslegri hæfni þeirra og áhuga. Vafamál hlýtur að teljast hvort sú samkeppni, sem nemendum er att út í við lok grunnskóla, um aðgang að tilteknum framhaldsskólum samræmist hugmyndafræði lögfestrar menntastefnu um skóla án aðgreiningar.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Baldur Gíslason - 05.04.2018

Skólameistarafélag Íslands styður þessar breytingar. Mikilvæg er að greiðsla fylgi fjölgun nemenda eldri en 25 ára. Nú þegar eru nemendur að 18 ára aldri forgangshópur við inntöku. SMÍ styður einnig að niðurstaða samræmdra prófa séu ekki notuð sem sem hluti af inntökukröfum framhaldsskóla.