Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 26.3.–18.4.2018

2

Í vinnslu

  • 19.4.–8.7.2018

3

Samráði lokið

  • 9.7.2018

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-39/2018

Birt: 26.3.2018

Fjöldi umsagna: 2

Drög að reglugerð

Mennta- og barnamálaráðuneytið

Leikskólar, grunnskólar, önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og barnamála

Reglugerð um sjálfstætt rekna grunnskóla

Niðurstöður

Farið hefur verið yfir allar innsendar athugasemdir, bæði þær sem bárust í samráðsgátt og með öðrum hætti og verið er að vinna úr þeim. Búið er að taka tillit til ýmissa athugasemda en eftir er samráð við Hagstofu Íslands og beðið hefur verið um fund vegna þessarar reglugerðar. Einnig þarf að skoða drögin í ljósi nýrra persónuverndarákvæða. Að auki á eftir að fara nánar yfir nokkur atriði sem fram komu í samráðsferlinu. Stefnt er að lokafrágangi eftir sumarleyfi og útgáfu heildstæðrar reglugerðar í september.

Málsefni

Nánari upplýsingar

Breytingar á lögum um grunnskóla sem tóku gildi um mitt ár 2016 var m.a. ætlað að skýra lagalega stöðu sjálfstætt rekinna grunnskóla betur og móta skýrari ramma um þá starfsemi. Starfshópur vann að undirbúningi þeirrar lagabreytingar og skilaði skýrslu með ítarlegri greinargerð ásamt tillögum að breytingu á 43. gr. laganna um sjálfstætt starfandi grunnskóla.

Í grunnskólalögum er kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglugerð um framkvæmd lagaákvæða um sjálfstætt rekna grunnskóla og alþjóðaskóla. Í desember 2016 var nokkrum atriðum í reglugerðinni breytt, þ.e. sem lúta að útreikningum á framlagi til þessara skóla, en það var gert til að mögulegt væri fyrir Hagstofuna að sinna lögbundnu hlutverki sínu. Hagstofan hafði áður komið á framfæri óánægju með lagabreytingarnar sem sneru að hlutverki þeirra gagnvart útreikningum á framlögum.

Í tengslum við þá endurskoðun reglugerðarinnar var boðuð heildarendurskoðun á reglugerðinni sem tæki gildi haustið 2017, en í millitíðinni þyrfti að huga að nauðsynlegum lagabreytingum, einkum gagnvart aðkomu Hagstofunnar að málinu. Innanhússhópur í ráðuneytinu með fulltrúum frá skrifstofu menntamála og skrifstofu laga og stjórnsýslu hefur unnið að heildstæðum drögum að reglugerð um sjálfstætt rekna grunnskóla samkvæmt 43. gr. laganna. Starfshópurinn hefur haft sérstakt samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga og gerir Sambandið ekki athugasemdir við að drögin að reglugerðinni verði send í opið samráð. Starfshópurinn telur rétt að samhliða opnu samráði á netinu verði öllum helstu hagsmunaaðilum sendur tölvupóstur með ósk um ábendingar eða athugasemdir við drögin og síðan verði metið í ljósi athugasemda hvort ástæða sé til að halda sérstaka fundi með tilteknum hagsmunaaðilum, einkum Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Hagstofunni og mögulega Samtökum sjálfstæðra skóla.

Við vinnnslu reglugerðarinnar kom í ljós að ýmsir annmarkar væru á því að hafa ákvæði um grunnskóla eða námsbraut innan almenns grunnskóla sem starfar samkvæmt viðurkenndri erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan í sömu reglugerð, ekki síst þar sem gert er ráð fyrir viðurkenningu slíkra skóla eða námsbrauta skv. 46. gr. en ekki eingöngu staðfestingu á lögmæti þjónustusamninga. Inn í þá umræðu blönduðust einnig önnur undanþáguákvæði sömu lagagreinar, þ.e. um heimakennslu en fram hafa komið óskir um að sú reglugerð verði einfölduð. Starfshópurinn taldi því rétt að halda alþjóðaskólunum aðskildum frá almennum sjálfstætt reknum grunnskólum og lögfræðisvið taldi það í lagi.

Reglugerðin fjallar um framkvæmd ákvæða grunnskólalaga, nr. 91/2008, sem fjalla um sjálfstætt rekna grunnskóla skv. 43. gr. Í reglugerðinni er m.a. fjallað um gerð þjónustusamnings og upplýsingar sem sveitarfélag skal afla sér um rekstraraðila, form og efni þjónustusamnings, umsókn til Menntamálastofnunar um staðfestingu þjónustusamnings, skilyrði fyrir staðfestingu Menntamálastofnunar, staðfestingarferli Menntamálastofnunar, rétt til framlaga úr sveitarsjóði, upphæð framlags úr sveitarsjóði, upplýsingagjöf og eftirlit með starfsemi, sérstakar skyldur samningsaðila þegar nemendur eiga ekki val um innritun, afturköllun staðfestingar Menntamálastofnunar á þjónustusamningi og riftun á þjónustusamningi vegna vanefnda á ákvæðum hans.

Helstu breytingar frá gildandi reglugerð:

Ekki er lengur gert ráð fyrir viðurkenningu ráðherra eða Menntamálastofnunar á sjálfstætt reknum skólum, heldur staðfestingu á lögmæti þjónustusamninga sem sveitarfélag gerir við lögaðila sem hyggst reka slíka skóla.

Sveitarfélög óska eftir staðfestingu Menntamálastofnunar á þeim þjónustusamningum sem þeir gera við sjálfstætt rekna grunnskóla en hingað til hafa lögaðilar leitað eftir viðurkenningu ráðuneytis/Menntamálastofnunar á viðkomandi skóla. Segja má að þetta sé mikil grundvallarbreyting sem færir stjórnsýslu þessara mála alfarið til Menntamálastofnunar f.h. ráðuneytis og til einstakra sveitarfélaga.

Settar eru skýrar reglur um staðfestingaferli Menntamálastofnunar sem annast öll samskipti við sveitarfélögu vegna slíkrar staðfestingar.

Svipuð skilyrði eru sett í nýrri reglugerð um tímafresti og atriði sem þarf að gæta að vegna lögmætis þjónustusamnings. Áfram er gert ráð fyrir umsókn til Menntamálastofnunar fyrir 1. febrúar vegna skóla sem fyrirhugað er að taki til starfa næsta skólaár.

Reglur um framlög úr sveitarsjóði eru óbreytt frá fyrri reglugerð, en ákvæði eru um mánaðarlegan uppreikning á framlögum í samræmi við nýtt lagaákvæði sem tók gildi 2016 (þetta atriði í reglugerðinn tók gildi í byrjun árs 2017 með sérstakri reglugerð sem nú er orðinn hluti af heildarreglugerðinni. Hagstofan hefur lýst óánægju með þetta atriði.)

Skýrari ákvæði eru sett um upplýsingagjöf og eftirlit með starfsemi sjálfstætt rekinna grunnskóla.

Sérstök grein er um sérstakar skyldur samningsaðila þegar nemendur eiga ekki val um innritun og á það t.d. við um Tálknafjarðarskóla sem er eini grunnskóli sveitarfélagsins og er rekinn af Hjallastefnunni samkvæmt samningi við sveitarfélagið. Þarna eru mikilvæg skilyrði eins og að gjaldtaka sé ekki heimil.

Menntamálastofnun getur afturkallað staðfestingu á þjónustusamningi vegna annmarka á starfseminni, en slíkt vald var áður einungis hjá ráðuneytinu.

Ákvæði um alþjóðaskóla eða námsbrauta innan almenns grunnskóla sem starfar samkvæmt erlendri eða alþjóðlegri námskrá og námsskipan verða sett í sérstaka reglugerð og verður hún gefin út síðar

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Mennta- og menningarmálaráðuneyti

postur@mrn.is