Samráð fyrirhugað 01.02.2018—12.02.2018
Til umsagnar 01.02.2018—12.02.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 12.02.2018
Niðurstöður birtar 24.04.2018

Breyting á reglugerð um útlendinga

Mál nr. 4/2018 Birt: 05.02.2018 Síðast uppfært: 24.04.2018
  • Dómsmálaráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Réttindi einstaklinga, trúmál og stjórnsýsla dómsmála

Niðurstöður birtar

Fjórar umsagnir bárust, m.a. frá Rauða krossinum, Barnaheillum og Landssamtökum þroskahjálpar. Rauða krossinum var jafnframt boðið til fundar í dómsmálaráðuneytinu í þeim tilgangi að fara betur yfir umsögn þeirra og efni reglugerðardraganna. Tekið var tillit til athugasemda Rauða krossins þannig að mat stjórnvalda var rýmkað hvað varðar það að heilbrigðisþjónusta teldist ekki óaðgengileg þrátt fyrir að greiða þyrfti fyrir hana. Þá var einnig tekið tillit til athugasemda sem fram komu í öðrum umsögnum s.s. athugasemda Landssambands Þroskahjálpar um að líta ætti einnig til þess hvort viðkomandi gæti átt hættu á að fá ekki þjónustu í viðtökuríki vegna fötlunar sinnar.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 01.02.2018–12.02.2018. Umsagnir um þetta mál birtust ekki í gáttinni. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 24.04.2018.

Málsefni

Í reglugerðardrögunum er að finna nánari skilgreiningu á því til hvaða sjónarmiða stjórnvöldum er heimilt að líta við mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra ástæðna eða sérstakra tengsla við landið, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Drögin fela í sér reglugerðarákvæði er varða nánari skilgreiningu á því til hvaða sjónarmiða stjórnvöldum er heimilt að líta við mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra ástæðna eða sérstakra tengsla við landið, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Nánar tiltekið varðar þetta heimildir stjórnvalda til mats á því hvenær taka beri umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi umfram það sem leiðir af sérstökum reglum, svo sem reglum Dyflinnarreglugerðarinnar.

Samkvæmt drögunum er stjórnvöldum heimilt við mat á sérstökum ástæðum er varða umsækjanda um vernd að líta til eftirfarandi þátta:

Er hætta á að umsækjandi muni verða fyrir alvarlegri mismunun í viðtökuríki?

Glímir umsækjandi við mikil og alvarleg veikindi ?

Stendur honum ekki til boða fullnægjandi fæðingaraðstoð í viðtökuríki?

Samkvæmt drögunum geta efnahagslegar ástæður ekki talist til sérstakra ástæðna og einnig er óheimilt að líta til athafna umsækjanda eða afleiðinga þeirra athafna sem hafa þann tilgang að setja þrýsting á stjórnvöld við ákvarðanatöku.

Í drögunum er einnig kveðið á um sérviðmið er varða börn og ungmenni:

Taka ber ríkt tillit til afstöðu fylgdarlauss barns og þeirrar sérstaklega viðkvæmu stöðu.

Heimilt er að horfa til ungs aldurs viðkomandi sem náð hefur 18 ára aldri en var fylgdarlaust barn við komu til landsins.

Þá er einnig ítrekað það mannréttindasjónarmið að almennt skuli vera viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Samkvæmt reglugerðardrögunum er ennfremur heimilt er að taka tillit til sérstakra tengsla við landið hafi umsækjandi áður haft útgefið dvalarleyfi hér á landi í eitt ár eða lengur.