Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 27.3.–17.4.2018

2

Í vinnslu

  • 18.4.2018–31.3.2019

3

Samráði lokið

  • 1.4.2019

Skjöl til samráðs

Fylgiskjöl

Mál nr. S-40/2018

Birt: 27.3.2018

Fjöldi umsagna: 2

Drög að frumvarpi til laga

Matvælaráðuneytið

Samgöngu- og fjarskiptamál

Frumvarp til laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu

Niðurstöður

Frumvarpsdrög voru birt í samráðsgáttinni 27. mars 2018 og frestur til umsagna veittur til 17. apríl 2018. Umsagnir bárust frá Neytendastofu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins og Viðskiptaráði Íslands og skiluðu fyrrnefnd samtök ásamt Viðskiptaráði sameiginlegri umsögn. Hinn 23. apríl 2018 fundaði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið með Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins og Viðskiptaráði Íslands um frumvarpsdrögin og umsögn þeirra. Helstu athugasemdir í sameiginlegri umsögn samtakanna lutu að því að greinargerð frumvarpsdraganna væri ekki nógu ítarleg. Í umsögninni kom fram að bæta þyrfti umfjöllun um ákvæði reglugerðarinnar sem fjalla um réttaráhrif traustþjónustu og áhrif ákvæðanna að íslenskum rétti. Þá kom fram að skýra þyrfti betur hlutverk Neytendastofu sem eftirlitsstofnunar og muninn á hlutverki ráðherra og Neytendastofu samkvæmt lögunum. Í umsögninni kom einnig fram að skýra þyrfti betur ákvæði um úrræði Neytendastofu og þagnarskylduákvæði laganna og ákvæði þeirra um heimildir Neytendastofu til að krefjast úttektar samræmismatsstofu á starfsemi traustþjónustuveitanda. Þá þótti brýnt að skýra betur í greinargerð að úrræði Neytendastofu til aðgengis að starfsstöð fæli ekki í sér húsleitarheimild. Jafnframt voru gerðar athugasemdir við að fjárhæð dagsekta væri umtalsvert hærri en almennt tíðkast. Þá voru athugasemdir gerðar við að skammur tími væri fyrir traustþjónustuveitendur að bregðast við nýjum kröfum og aðlaga sig að breyttu starfsumhverfi. Athugasemdir voru einnig gerðar við það að frummat á áhrifum virtist ekki í samræmi við ákvæði frumvarpsdraganna. Enga heimild væri að finna í frumvarpinu til gjaldtöku af traustþjónustuveitendum og misskilnings virtist gæta um fjármögnun eftirlits og kostnað vegna samræmismats traustþjónustuveitenda. Þá lutu nokkrar athugasemdir að orðalagi frumvarpsdraga og samræmi í hugtakanotkun. Athugasemdir Neytendastofu lutu helst að því að í frumvarpsdrögum væri ekki að finna ákvæði sambærilegt 1. mgr. 19. gr. gildandi laga um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, um eftirlitsgjald og að við mat á áhrifum þyrfti að taka mið af því. Við ritun frumvarps var samráð haft við dómsmálaráðuneytið um möguleg áhrif ákvæða frumvarpsdraganna um réttaráhrif traustþjónustu á löggjöf á sviði réttarfars, fullnustu og skuldaskila. Við ritun frumvarpsins var höfð hliðsjón af athugasemdum sem bárust í samráði. Breytingar voru aðallega gerðar á innihaldi greinargerðar frumvarpsins og samræmingu í orðalagi og hugtakanotkun. Rituð var ítarlegri umfjöllun um réttaráhrif traustþjónustu og áhrif á íslenskan rétt. Þá voru breytingar gerðar á einstökum ákvæðum til að skýra betur hlutverk Neytendastofu og ráðherra. Ítarlegri skýringar voru ritaðar við ákvæði um þagnarskyldu þeirra sem starfa fyrir Neytendastofu og um aðgengi Neytendastofu að starfsstöð. Ákvæði um að Neytendastofu væri heimilt að krefjast úttektar samræmismatsstofu á starfsemi traustþjónustuveitanda og afturkalla fullgilda stöðu voru tekin úr frumvarpinu enda er þegar kveðið á um slíkar heimildir eftirlitsstofnunar með sérstökum hætti í 2. og 3. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar. Breytingar voru einnig gerðar á gildistökuákvæði laganna til að veita traustþjónustuveitendum tíma til að laga starfsemi sína að breyttum kröfum laganna. Sjá frumvarp til laga hér: https://www.althingi.is/altext/149/s/1039.html

Málsefni

Frumvarp til laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu. Frumvarpið innleiðir reglugerð ESB nr. 910/2014 eða hina svokölluðu eIDAS reglugerð.

Nánari upplýsingar

Frumvarpið notast við tilvísunaraðferð þ.e. hún vísar til þýðingar reglugerðar ESB nr. 910/2014 varðandi meginefni en frumvarpið veitir lagastoð fyrir eftirlit Neytendastofu og kveður á um valdheimildir stofnunarinnar.

Helstu nýjungar serm felast í reglugerðinni eru eftirfarandi:

1. Aukið gildissvið en hún fjallar um rafræna auðkenningu, rafræn innsigli, rafræna tímastimpla, vefsíður og rafræna póstþjónustu.

2. Býr til innri markað fyrir rafræna traustþjónustu.

3. Auðkenningar milli landa – opinberar stofnanir.

4. Réttaráhrif rafrænna lausna.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa iðnaðar og nýsköpunar

postur@anr.is