Samráð fyrirhugað
Samráð stendur yfir 28.03.2018 - 13.04.2018
Niðurstöður í vinnslu
Niðurstöður birtar 04.12.2018

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna frekari aðgerða gegn skattundanskotum og skattsvikum (hert skatteftirlit og -rannsóknir, aukin upplýsingaöflun o.fl.).

Mál nr. S-41/2018 Stofnað: 28.03.2018 Síðast uppfært: 04.12.2018
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Niðurstöður birtar

Ráðuneytið hefur brugðist við mörgum athugasemdum í frumvarpinu sem var samþykkt á Alþingi sem lög nr. 77/2018 þann 11. júní 2018.

Skoða niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 28.03.2018–13.04.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 04.12.2018.

Málsefni

Í frumvarpsdrögunum er gert ráð fyrir ýmsum breytingum á skattalöggjöf, m.a. vegna frekari aðgerða gegn skattundandrætti og -svikum auk fleiri breytinga sem aðallega tengjast skattlagningu lögaðila en einnig einstaklinga

Í frumvarpsdrögunum eru lagðar til breytingar á lögum á sviði skattamála sem byggðar eru á tillögum þriggja starfshópa, sem skiluðu skýrslum til fjármála- og efnahagsráðherra sumarið 2017, um frekari aðgerðir gegn skattundandrætti og –svikum. Er hér um að ræða skýrslur um umfang skattundanskota og tillögur til aðgerða, milliverðlagningu og faktúrufölsun og skattskyldu af erlendri ferðaþjónustustarfsemi á Íslandi. Tillögur starfshópanna eru margar og af margvíslegum toga og er í fyrsta áfanga gert ráð fyrir því að gerðar verði breytingar sem snúa að skjölunarskyldu í viðskiptum milli tengdra lögaðila þegar allir aðilar eru heimilisfastir hér á landi, heimild erlendra atvinnufyrirtækja, þ.m.t. ferðaþjónustuaðila, sem eru virðisaukaskattsskyldir hér á landi til að skrá sig og skila virðisaukaskatti í gegnum einfaldað rafrænt skráningarkerfi og heimild tollstjóra til að fjarlægja skráningarmerki ökutækis hafi ekki verið staðið skil á lögbundnum aðflutningsgjöldum bifreiðar. Þá fela frumvarpsdrögin í sér breytingar vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA sem varða samsköttun félaga. Frumvarpsdrögin fela einnig í sér tillögur um breytingu á skilaskyldu launagreiðanda á staðgreiðslu af launum í tengslum við útleigu á vinnuafli þar sem þörf er á að skilgreina enn frekar ábyrgð launagreiðanda á staðgreiðsluskilum starfsmanna starfsmannaleigu eða annars aðila sem leigir út vinnuafl vegna starfa þeirra hér á landi. Gert er ráð fyrir því að tollstjóri fái almenna heimild til þess að fjarlægja skráningarmerki ökutækis ef fyrir liggur að aðili, jafnt innlendur sem erlendur, hefur ekki staðið skil á lögbundnum aðflutningsgjöldum bifreiðar hér á landi. Þá er þar jafnframt að finna tillögu um að sett verði stöðluð gjaldskrá um greiðslu aðflutningsgjalda vegna tímabundins innflutnings erlendra hópferðabifreiða til landsins, eða annarra ökutækja sem nota á til atvinnurekstrar, í stað þess að útreikningur eigi sér stað út frá áætlaðri leigu m.v. 1/60 hluta tollverðs. Fyrir liggur að áfram verður unnið með tillögur starfshópanna sem sumar hverjar krefjast lengri tíma til úrvinnslu.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Samtök atvinnulífsins - 13.04.2018

Meðfylgjandi er umsögn Samtaka atvinnulífsins um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna frekari aðgerða gegn skattundanskotum og skattsvikum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Gunnar Valur Sveinsson - 13.04.2018

Samtök ferðaþjónustunnar (Samtökin) hafa kynnt sér drög að ofangreindu frumvarpi og eru með eftirfarandi ábendingar.

Samtökin fagna því að fram sé komið frumvarp til breytinga á lögum sem vinnur gegn skattaundanskotum og skattsvikum. Ákvæði 5. greinar frumvarpsins um tollafreiðslu hópbifreiða er þó ekki samræmi við fjórða lið tillagna starfshóps fjármálaráðherra um skattskyldu af erlendri ferðaþjónustustarfsemi á Íslandi sem lagðar voru fram 13. júlí 2017. Aðrar hugmyndir þess starfshóps eru heldur ekki viðraðar í frumvarpinu og sakna samtökin þess.

Samtökin leggja til að hugað verði að innleiðingu umræddra tillagna í fyrirliggjandi frumvarpi og eru þær eftirfarandi:

• Þegar fyrir liggur að erlendur ferðaþjónustuaðili þarf að skrá hópferðabifreið í atvinnurekstri á Íslandi skal skráning hjá Samgöngustofu eiga sér stað áður en ökutæki kemur til landsins, eða a.m.k. í síðasta lagi við komuna til landsins.

• Að lögfest verði skylda erlendra ferðaþjónustuaðila sem hafa með höndum skattskylda starfsemi hér á landi til að standa skil á skattgreiðslum áður en ökutæki er flutt úr landi, að viðlögðum refsingum eða refsikenndum viðurlögum. Samhliða verði málsmeðferðarreglur skattalaga skoðaðar í slíkum tilvikum með einföldun að leiðarljósi.

• Samstarfsvettvangur verði settur á laggirnar með tengiliðum frá Ferðamálastofu, tollstjóra, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, Vinnumálastofnun, Samgöngustofu og lögreglu til miðlunar upplýsinga og eftir atvikum samstarfs um eftirlit og úrbætur vegna ferðaþjónustustarfsemi á Íslandi. Samstarfsvettvangurinn hafi samráð við hlutaðeigandi ráðuneyti sem og Stjórnstöð ferðamála eftir þörfum hverju sinni.

• Sett verði stöðluð gjaldskrá um greiðslu aðflutningsgjalda (bráðabirgðaafgreiðsla) vegna tímabundins innflutnings erlendra hópferðabifreiða til landsins, eða annarra ökutækja sem nota á til atvinnurekstrar, í stað útreiknings út frá áætlaðri leigu. Gjaldið greiðist við komu til landsins en ekki við brottför.

• Tekið verði upp ákvæði í lög um virðisaukaskatt sem heimili erlendum ferðaþjónustuaðilum sem hafa með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi hér á landi að skrá sig í gegnum einfaldað rafrænt skráningarkerfi vegna skila á virðisaukaskatti hingað til lands. Á sama hátt yrði metið hvort gera þarf viðeigandi breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

• Frekari upplýsingar verði veittar til erlendra ferðaþjónustuaðila sem starfrækja erlendar hópferðabifreiðar hér á landi og til erlendra ferðaskrifstofa sem selja ferðir hingað til lands. Ítarlegri upplýsingagjöf verði á gáttinni www.posting.is fyrir þessa aðila. Þá verði hlekkir settir á vefsíðuna sem vísi á heimasíður mismunandi stofnana og öfugt.

• Ákvæði tollalaga er varðar tollfrelsi skemmtiferðaskipa í innanlandssiglingum verði viðhaldið, en þó þannig að lagaumhverfið verði skýrt og þrengt. Skýrt verði í tollalögum og/eða í reglugerð hvað felist í hugtökunum „skemmtiferðaskip“ og „innanlandssiglingar“.

• Innheimt verði sérstakt gjald fyrir hvern farþega sem er um borð í skemmtiferðaskipi á meðan á innanlandssiglingum þess stendur sem svarar sem næst til þeirra skatta, tolla og annarra gjalda sem útgerð skips þyrfti annars að inna af hendi ef starfsemi hennar væri skráð hérlendis. Ákvæði um slíka gjaldtöku taki gildi hinn 1. júní 2019.

Samtökin gera ráð fyrir að samhliða fyrirliggjandi frumvarpi verði lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um útsenda starfsmenn þar sem skyldur erlendra aðila sem starfa hér á landi eru gerðar skýrari.

Samtökin áskilja sér rétt að koma með frekari ábendingar á síðari stigum

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Deloitte ehf. - 13.04.2018

Meðfylgjandi eru athugasemdir Deloitte ehf.

Viðhengi