Samráð fyrirhugað 06.04.2018—20.04.2018
Til umsagnar 06.04.2018—20.04.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 20.04.2018
Niðurstöður birtar 09.05.2018

Drög að breytingum á reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga

Mál nr. 45/2018 Birt: 06.04.2018 Síðast uppfært: 09.05.2018
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Sveitarfélög og byggðamál

Niðurstöður birtar

Reglugerðin hefur verið gefin út og birt í B-deild Stjórnartíðinda, nr. 458/2018.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 06.04.2018–20.04.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 09.05.2018.

Málsefni

Drögin fela í sér breytingar varðandi annars vegar meðferð útgjalda og skulda vegna veitu- og orkufyrirtækja í reikningsskilum sveitarfélaga og hins vegar skilgreiningu á því hvernig fara skuli með hreint veltufé við útreikning á skuldaviðmiði sveitarfélaga.

Í 12. gr. reglugerðar um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga, nr. 502/2012, er kveðið á um að ef heildarútgjöld allra veitu- og/eða orkufyrirtækja sem færð eru í B-hluta sveitarfélags séu umfram 15% af heildarútgjöldum A- og B-hluta eða ef heildarskuldir og skuldbindingar eru umfram 30% af heildarskuldum og skuldbindingum skuli undanskilja reikningsskil viðkomandi veitu- og/eða orkufyrirtækja frá útreikningum á jafnvægisreglu og skuldaviðmiði.

Þetta er í ósamræmi við ákvæði bráðabirgðaákvæðis III við sveitarstjórnarlög, nr. 138/2011, þar sem segir að skylt sé við útreikning á afkomu og fjárhagsstöðu að undanskilja tekjur, útgjöld, eignir, skuldir og skuldbindingar sem hljótast af eignarhlutum sveitarfélags í veitu- og orkufyrirtækjum í allt að tíu ár frá gildistöku laganna, óski sveitarfélagið þess, enda verði það fyrir umtalsvert meiri útgjöldum og/eða beri umtalsvert meiri skuldir en annars væri vegna eignarhlutanna. Regla laganna er m.ö.o. valkvæð og tímabundin til ársins 2022. Lagt er því til að ákvæði laganna verði tekið upp í reglugerðina í stað núverandi ákvæðis.

Í öðru lagi er lögð til breyting á orðalagi 3. tölul. 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar þar sem skilgreint er hvernig fara skuli með hreint veltufé við útreikning á skuldaviðmiði. Er hið nýja orðalag talið skýrara að mati reikningsskila- og upplýsingarnefndar sveitarfélaga.