Samráð fyrirhugað 05.02.2018—19.03.2018
Til umsagnar 05.02.2018—19.03.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 19.03.2018
Niðurstöður birtar 15.02.2019

Landsáætlun og verkefnaáætlun um innviði

Mál nr. 5/2018 Birt: 05.02.2018 Síðast uppfært: 15.02.2019
  • Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Umhverfismál

Niðurstöður birtar

Tillaga til þingsályktunar um stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum 2018-2029 var lögð fram á Alþingi á 148. löggjafarþingi. Tillagan var samþykkt 11. júní 2018, sjá https://www.althingi.is/altext/148/s/1245.html
Samantekt umsagna og viðbrögð við þeim er aðgengileg á eftirfarandi vefslóð: https://www.althingi.is/altext/pdf/148/fylgiskjol/s0689-f_III.pdf


Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 05.02.2018–19.03.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 15.02.2019.

Málsefni

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Fjallar hún um stefnumótun vegna uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, leiðum og svæðum. Jafnframt er kynnt verkefnaáætlun til þriggja ára.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið kynnir til umsagnar drög að landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Fjallar hún um stefnumótun vegna uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, leiðum og svæðum. Jafnframt er kynnt verkefnaáætlun til þriggja ára.

Um er að ræða fyrstu 12 ára landsáætlun og þriggja ára verkefnaáætlun sem unnar eru samkvæmt lögum, nr. 20/2016, um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Landsáætlunin er stefnumarkandi til 12 ára um gerð innviða á ferðamannastöðum til verndar náttúru og minja og skal hún lögð fram sem þingsályktunartillaga til samþykktar Alþingis. Verkefnaáætlun setur hins vegar fram tillögur að verkefnum á ferðamannastöðum, sem lagt er til að njóti stuðnings 2018-2020, auk tillagna um eflda landvörslu.

Vakin er athygli á að samhliða áætlununum er kynnt umhverfismat þeirra í samræmi við lög um umhverfismat áætlana. Finna má umhverfisskýrsluna hér á Samráðsgátt Stjórnarráðsins.

Vakin er athygli á því að frestur til að skila inn umsögnum um drög að stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára er í sex vikur, eða til og með 19. mars 2018, en frestur til að skila inn umsögnum um drög að verkefnaáætlun 2018-2020 er í þrjár vikur, eða til og með 26. febrúar 2018.

Verkefnisstjórn um gerð landsáætlunarinnar hefur unnið drög að þeirri áætlun sem hér er til umsagnar, en í henni sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk umhverfis – og auðlindaráðuneytis.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Karl Björnsson - 05.02.2018

Samband íslenskra sveitarfélaga telur opnun samráðsgáttar vera mjög gott skref til þess að auka samráð um áform um lagasetningu og áætlanagerð. Framtíðarsýnin hlýtur að vera að sjá hana þróaða frekar þannig að mál frá sveitarfélögum verði einnig aðgengileg innan tíðar.

Sambandið hefur tekið þátt í vinnu við smíði stefnumarkandi landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum og er það álit sambandsins að hér sé um mikilvægt verkefni að ræða til að bregðast við fjölgun ferðamanna. Sveitarfélög og landshlutasamtök þeirra verða hvött til að kynna sér efni áætlunarinnar og senda inn umsagnir um hana.

Afrita slóð á umsögn

#2 Landvarðafélag Íslands - 22.02.2018

Landvarðafélag Íslands fagnar því að stefnt sé að, samkvæmt stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, landvarsla gegni veigameiri hlutverki í vernd náttúru Íslands. Einnig fagnar Landvarðafélagið því að settar séu 320 milljónir aukalega í landvörslu á tímabilinu, umfram fastra fjármuna á fjárlögum. Þó ber að gæta að fjármunir sem settir eru í landvörslu á fjárlögum minki ekki í samræmi við aukninguna, heldur aukist enn meira. Margir staðir á Íslandi bera enn sár vegna þess að ekki var landvarsla á svæðinu, eða að það var ekki landvarsla nógu lengi á svæðinu til að varna skemmdum.

Nú er því um að gera fyrir alla hlutaðkomandi að spýta í lófana, tryggja landvörslu á öllum þeim svæðum sem þurfa á því að halda. Sem og tryggja það að landvarsla dafni sem heilsársstarf því eins og allir vita sem vinna á friðlýstum svæðum að nóg eru verkefnin og þekking landvarða er mikil.

#3 - 24.02.2018

Umsögn barst en birtist ekki í gáttinni samkvæmt ákvörðun ábyrgðaraðila samráðsmálsins. Upplýsingalög gilda, sjá nánar í Um samráðsgáttina

Afrita slóð á umsögn

#5 Djúpavogshreppur - 25.02.2018

Lands- og verkefnaáætlun

Uppbygging innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum.

Umsögn frá Djúpavogshreppi

Undirritaður f.h. hönd Djúpavogshrepps fagnar framkomnum drögum um áætlun uppbyggingar innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum. Í drögum að landsáætlun er að finna metnaðarfulla og nýja nálgun við innviðauppbyggingu sem tekur ríkara tillit til aðstæðna en áður hefur sést, meðal annars mikilvægis vandaðrar skipulagsgerðar og rannsókna í aðdragenda uppbyggingar. Áætlunin hvetur einnig til ábyrgrar uppbyggingar innan viðkvæmra svæða er varða náttúru- og menningarminjar. Ljóst er að stefna sú sem fram kemur í áætluninni fellur einstaklega vel að þeim verkefnum sem Djúpavogshreppur hefur unnið að á liðnum árum. Ber þar langhæst náttúruvættið, fólkvangurinn og minjastaðurinn Teigarhorn. Öll aðferðafræði við skipulagningu og uppbyggingu á Teigarhorni fellur einstaklega vel að þeirri stefnu sem finna má í landsáætlun og því skal árétta mikilvægi þess að Teigarhorn verði tryggt sem verkefni innan Landsáætlunar til lengri og skemmri tíma. Á Teigarhorni hafa skipulagsmál verið unnin af sérstaklega miklum metnaði, bæði hvað varðar breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins og svo einstaklega metnaðarfullt deiliskipulag sem nú er í formlegu auglýsingaferli. Þá hafa umhverfissálfræðilegar rannsóknir á upplifun gesta verið gerðar samhliða skipulagsvinnunni, sem og var unnið sagnfræðilegt yfirlit. Auk þess hefur fornleifa- og örnefnaskráning verið framkvæmd á svæðinu, en Teigarhorn er sérstaklega ríkt af menningarsögulegum minjum. Einnig stendur nú yfir nánari kortlagning og rannsókn á jarðfræði svæðisins og er verkefnið í höndum Birgis Óskarssonar jarðfræðings. Jafnframt hefur verið unnin verndar- og stjórnunaráætlun fyrir Teigarhorn af ráðgefandi stjórn svæðisins í samstarfi við UST. Sveitarfélagið hefur þótt fjárhagur sé af skornum skammti lagt meira til landvörslu en að jafnaði hefur tíðkast meðal sveitarfélaga í landinu, auk þess að sinna tilfallandi rekstar- og umsjónarkostnaði við rekstur friðlýstra svæða í sveitarfélaginu sem eru í eigu íslenska ríkisins.

Mikilvægt er því að landsáætlun styðji bæði við landvörslu og þá uppbyggingu sem framundan er á Teigarhorni, en svæðið hefur einstaka stöðu til framtíðar litið sem friðlýst svæði. Fá eða engin sveitarfélög hérlendis hafa gengið eins langt í verndun náttúru- og menningarsögulegra minja og Djúpavogshreppur og því vill sveitarfélagið fagna sérstaklega að nú í fyrsta sinn séu komin fram drög að metnaðarfullri áætlun sem nær yfir og tekur mið af bæði náttúru- og menningarminjum.

Undirritaður vill í ljósi stefnumarkandi áætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum hvetja verkefnisstjórn til að halda áfram á þeirri góðu og metnaðarfullu braut sem mörkuð hefur verið í þeim drögum sem liggja hér fyrir til umsagnar.

Virðingarfyllst

F.h. Djúpavogshrepps

Andrés Skúlason Oddviti

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Ungir umhverfissinnar - 25.02.2018

Ungir umhverfissinnar fagna gerð Landsáætlunar og verkefnaáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Einkum ríkir ánægja yfir heildrænni og úthugsaðri nálgun hennar og þykir ljóst að hún veiti þessum mikilvæga málaflokki skýra umgjörð.

Það atriði sem Ungir umhverfissinnar vilja vekja athygli á varðar aðgangsgjöld að ferðamannastöðum, þ.m.t. óbeint í gegnum bílastæðagjöld eða svokölluð þjónustugjöld. Slík gjaldtaka getur verið viðkvæmt málefni og mögulega haft skaðleg áhrif á samfélagsþátt sjálfbærni verndarsvæða/ferðamannastaða. Afstaða almennings á Íslandi gagnvart þjóðgörðum og friðlýsingum er viðkvæm, sérstaklega þegar kemur að rétt landsmanna til að ferðast óheft um land sitt, og er því mikilvægt að horfa til langtímaáhrifa slíkrar stefnumótunar en ekki eingöngu þeirra tekna sem slík gjaldtaka getur skapað og/eða stýringar á straumi ferðamanna.

Í því samhengi er minnt á aðrar leiðir til gjaldtöku og stýringar sem ekki eru umdeildar á þennan hátt.

Enn fremur er framkvæmd Vatnajökulsþjóðgarðs, þar sem myndir eru teknar af bílnúmerum gesta, sérstaklega til þess fallinn að skaða ímynd náttúruverndar.

Að því sögðu eru Ungi umhverfissinnar vongóðir um að þessi stefnumótun nái settu marki og stuðli að heildstæðri vernd íslenskrar náttúru.

f.h. stjórnar Ungra umhverfissinna

Pétur Halldórsson, formaður

Afrita slóð á umsögn

#9 Auður H Ingólfsdóttir - 26.02.2018

Sjá umsögn frá Rannsóknarmiðstöð ferðamála í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#10 Páll Jakob Líndal - 26.02.2018

Stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Umsögn - Páll Jakob Líndal f.h. TGJ Teiknistofu Guðrúnar Jónsdóttur

Undirritaður fagnar þeim drögum sem nú liggja fyrir varðandi stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Sérstaklega vill undirritaður fagna þeim áherslum, sem er víða að finna í drögum og snúa að hagnýtingu rannsóknarniðurstaðna og að fagþekking á sviði innviðauppbyggingar verði efld.

Í umsögn þessari vill undirritaður ljá máls á tveimur atriðum varðandi drögin.

1. Hagnýtar rannsóknir til að hámarka jákvæða upplifun ferðamanna - umhverfissálfræði

Sem fyrr segir er víða í drögunum fjallað mikilvægi rannsókna og er gjarnan vísað til þolmarka vegna ágangs ferðamanna í því samhengi. Mikilvægi þessara rannsókna er ótvírætt og hefur TGJ Teiknistofa Guðrúnar Jónsdóttur m.a. hagnýtt þær niðurstöður við gerð deiliskipulags í fólkvangnum og náttúruvættinu Teigarhorni í Djúpavogshreppi, sem nú er í formlegu auglýsingaferli. Með hliðsjón af þessum áherslum, hvetur undirritaður eindregið til þess að umhverfissálfræði, sú fræðigrein sem hvað mest fæst við samspil fólks og umhverfis t.d. með rannsóknum á upplifun, viðhorfum og hegðun ferðamanna, verði hagnýtt og fái sitt rými í þeirri stefnu sem nú er verið að móta.

Undirritaður vill leyfa sér að fullyrða að áhersla á sjónarmið og aðkomu umhverfissálfræði í stefnumarkandi landsáætlun, yrði til að auka enn frekar gæði uppbyggingar innviða ferðamannastaða sem nú er stefnt að.

2. Rauntímatalningar á fjölda ferðamanna á ferðamannastöðum

Ein meginforsenda skipulags og uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum er fjöldi þeirra ferðamanna sem þangað sækja. Söfnun áreiðanlegra gagna er mikilvæg og er sú aðferðafræði sem hérlendis er beitt við talningar ferðamanna á ferðamannastöðum, að mörgu leyti barns síns tíma. Fyrirliggjandi upplýsingar um fjölda ferðamanna á ferðamannastöðum eru gloppóttar og rauntímamælingar ekki til staðar eða lítt aðgengilegar.

Undirritaður telur því, að í stefnumarkandi landsáætlun þurfi leggja ríka áherslu á að þeirri aðferðafræði skuli beitt sem skilar hvað skilvirkustum árangri, t.d. hvað varðar nákvæmni í gagnasöfnun, öryggi í vörslu gagna sem safnað er og afhendingu þeirra.

Benda má að Umhverfisstofnun, Reykjavíkurborg og fleiri aðilar hafa tekið í noktun rauntímatalningakerfi fyrir gangandi og hjólandi umferð, sem brýtur upplýsingar niður í allt að 15 mínútna tímabil og færast þær með sjálfvirkum hætti inn í miðlægan gagnagrunn einu sinni á sólarhring.

Þessi aðferð hefur þegar sannað gildi sitt og reynst gagnleg við stefnumótun og ákvarðanatöku víða um heim.

Með góðri kveðju,

Páll Jakob Líndal dr. í umhverfissálfræði

Afrita slóð á umsögn

#11 Sveitarfélagið Hornafjörður - 26.02.2018

Komið sæl,

að auki við þá tvo staði sem eru á áætlun, Jökulsárlón og Sandfell, viljum við hjá Sveitarfélaginu Hornafirði leggjá áherslu á mikilvægi þess að bæta vegina inn að aðgengilegum skriðjöklum í sveitarfélaginu. Má þar helst nefna Heinabergsjökul, Fláajökul, Hoffellsjökul og Svínafellsjökul, en vegirnir að þeim eru oft á tíðum ófærir fyrir fólksbíla og jafnvel jeppa. Auk þess að auka aðdráttarafl svæðisins í heild og nýtingu þeirra innviða sem hafa verið byggðir upp (göngustígar, fræðsluskilti o.fl.) þá er þetta mikilvægur liður í því að bjóða ferðamönnum upp á áfangastaði víðar um svæðið og með því minnka álagið á allra vinsælustu áfangastöðunum, sbr. Skaftafell og Jökulsárlón.

Ásóknin í að heimsækja þessa staði hefur aukist hratt á undanförnum árum, og ekki síst yfir lágönnina. Auk þess hefur verið lögð mikil vinna í að byggja svæðin upp til að taka á móti gestum. Er því brýnt að bæta aðgengið að þeim árið um kring, sem og að halda áfram uppbygginu á innviðum við áðurnefnda jökla.

Hjálagðar eru skrár sem sýna þróun í gestakomum á svæðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar á meðal inn að Heinabergsjökli, Fláajökli og Heinabergsjökli.

Bestu kveðjur,

Árdís Erna Halldórsdóttir

Atvinnu- og ferðamálafulltrúi Sveitarfélagsins Hornafjarðar

Afrita slóð á umsögn

#12 Landvernd - 26.02.2018

Sjá umsögn Landverndar í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#13 Trausti Baldursson - 01.03.2018

Meðfylgjndi er umsögn Náttúrufræðistofnunar.

Kveðja Trausti Baldursson

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#14 Ferðafélag Íslands - 07.03.2018

Umsögn um verkefnaáætlun vegna landsáætlunar um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#15 Guðjón Bragason - 09.03.2018

Meðfylgjandi umsögn er send f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga en sendandi er fulltrúi sambandsins í verkefnisstjórn um landsáætlun

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Þorsteinn Gunnarsson - 15.03.2018

Eftirfarandi var bókað á fundi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps 14. mars 2018:

14. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið: Landsáætlun og verkefnaáætlun um innviði - 1803001

Lögð fram drög að stefnu stjórnvalda um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps leggur áherslu á mikilvægi landvörslu. Í ljósi mjög aukins fjölda ferðamanna er mikilvægt að tryggja varanlegt fjármagn til landvörslu allt árið um kring við Mývatn og Dettifoss, en jafnframt á hálendi þar sem umferð hefur stóraukist á jaðartímum.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps minnir á ákvæði í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð er kveður á um byggingu gestastofu þjóðgarðsins í Mývatnssveit, en það er nú eina gestastofan af sex sem er ófjármögnuð. Sveitarstjórn lýsir yfir vilja til að framkvæmdin verði sett á áætlun og kannaðir möguleikar á samlegðaráhrifum við rekstur þekkingarseturs.

F.h. sveitarstjórnar Skútustaðahrepps

Þorsteinn Gunnarsson

sveitarstjóri

Afrita slóð á umsögn

#17 Bolungarvíkurkaupstaður - 16.03.2018

Menningar- og ferðamálaráð Bolungarvíkurkaupstaður fagnar aukinni áherslu á landvörslu og að settar séu fram fyrirbyggjandi aðgerðir vegna álags á ferðamannastaði og -svæði. Ráðið vill sjá rauntímatalningar á fjölda ferðamanna á ferðamannastöðum á Vestfjörðum og hvetur umhverfis- og auðlindaráðuneyti að byggja úthlutun verkefna á slíkum tölulegum gögnum.

Afrita slóð á umsögn

#18 Reykjanes jarðvangur ses. - 16.03.2018

Fyrir hönd Reykjaness UNESCO hnattræns jarðvangs vil ég koma á framfæri ábendingum varðandi kafla 1.2 um frekari leiðsögn. Ábendingum hefur jafnframt verið komið á framfæri gagnvart umhverfisskýrslu áætlunarinnar.

Áætlun um hnattræna jarðvanga var samþykkt á aðalráðstefnu UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sem fór fram í París 3.-18. nóvember 2015. Með samþykktinni innleiddi UNESCO formlegt samstarf sem verið hefur á milli UNESCO og alþjóðlegra samtaka jarðvanga, Global Geoparks Network frá 2004.

Íslensku jarðvangarnir eru samstarfsverkefni íbúa og stjórna sveitarfélaganna, fræðasamfélagsins og náttúrtengdra fyrirtækja sem vinna sameiginlega að því að byggja sterkara samfélag á gildum menntunar, verndar og nýtingar merkra jarðminja, menningarminja og náttúru. Aðild að UNESCO áætluninni er markaðssetning fyrir svæðin enda gerðar strangar kröfur til aðildarfélaga.

Katla jarðvangur nær yfir sveitarfélögin Rangárþing eystra, Mýrdalshrepp og Skaftárhrepp. Sérstaða jarðvangsins er eldvirkni og samspil eldvirkni og jökla. Yfir 150 eldsumbrot hafa mótað landið frá landnámi og haft áhrif á náttúrufar, búsetu og lifnaðarhætti fram til dagsins í dag.

Reykjanes jarðvangur nær yfir land fimm sveitarfélaga, þ.e. Grindavíkurbæ, Reykjanesbæ, Sandgerðisbæ, Sveitarfélagið Garð og Sveitarfélagið Voga. Sérstaða jarðvangsins er Mið-Atlantshafshryggurinn og afleiðingar hans, s.s. jarðhiti, skjálftavirkni, eldsumbrot og hreyfingar Evrasíu og Norður-Ameríkuflekans.

Frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu UNESCO: http://www.unesco.org/new/en/natural-sciences/environment/earth-sciences/unesco-global-geoparks/

Og í þýddu upplýsingariti sem UNESCO gaf út um jarðvanga: http://www.reykjanesgeopark.is/static/files/Pdf/hnattraenir-unesco-jardvangar.pdf

Þar segir m.a.: „Hnattrænir UNESCO jarðvangar mynda ásamt hinum tveimur UNESCO útnefningunum – verndarsvæðum lífhvolfa (e. Biosphere Reserves) og heimsminjum (e. World Heritage) – eina samfellda heild. Þar er okkar sameiginlegu arfleifð haldið á lofti og á sama tíma reynt að varðveita menningarlega, líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni heimsins og stuðla að sjálfbærri efnahagsþróun.“

F.h. Reykjanes jarðvangs

Eggert Sólberg Jónsson

Afrita slóð á umsögn

#19 Landvernd - 16.03.2018

Sjá umsögn Landverndar í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#20 Gunnar Valur Sveinsson - 16.03.2018

Samtök ferðaþjónustunnar (Samtökin) hafa kynnt sér drög að verkefnaáætlun sem lögð er fram samhliða stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Í þeim drögum sem lögð eru fram um staðbundin verkefni eru margir allra mikilvægustu ferðamannastaðir landsins og er það jákvætt. Landvarsla er mjög mikilvægur hluti verndaraðgerða og því eðlilegt að hluti fjármagnsins fari í þann málaflokk.

Í drögunum sem kynnt hafa verið kemur ekki fram hve miklu fjármagni er ætlað í hvert verkefni og óljós lýsing á verkefnunum, því er útilokað fyrir Samtökin að meta hvort aðgerðir verði nægilegar eða skili tilætluðum árangri. Miðað við það heildarfjármagn sem kynnt er í áætluninni til aðgerða á þeim tæplega 70 stöðum sem tilgreindir eru, má áætla að meira fjármagn þurfi til að koma. Samtökin gera ráð fyrir að sá hluti fjármagnsins sem fara á í landvörslu sé viðbót við það sem er í rekstraráætlunum þeirra stofnana sem umsjón hafa með svæðunum.

Samtökunum er ljóst að mun meiri þörf er á uppbyggingu og vernd en nú er til staðar. Því er þörf á auknu fjármangi til ráðstöfunar í verkefni sem landsáætluninni er ætlað að ná til. Vilja Samtökin í því sambandi benda á að ferðamenn eru að skila mjög miklu til ríkissjóðs en samkvæmt úttekt sem gerð var af Deloitte og kynnt var í júní sl. voru bein nettótekjuáhrif ríkissjóðs og sveitafélaga af ferðamönnum 39 milljarðar árið 2015 og áætla samtökin að þau hafi numið 65 milljörðum á síðasta ári. Mikilvægt er að stjórnvöld átti sig á að náttúra landsins og möguleikarnir til að upplifa hana er að miklu leiti sú undirstaða sem fyrrgreindar tekjur byggja á.

Samtökin áskilja sér rétt til frekari athugasemda á síðari stigum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#21 Fornleifastofnun Íslands - 17.03.2018

Umsögn um Drög að landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum

Fornleifastofnun Íslands ses fagnar því að unnið sé að áætlun um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum á Íslandi til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum en vill koma á framfæri athugasemdum er snúa að fornminjum (menningarminjum) og fjalla aðallega um eftirfarandi: í skýrslunni er hvergi gerð grein fyrir stöðu þekkingar á sviði menningarminja en skortur á slíkri yfirsýn hamlar skýrslunni mikið; í henni er gríðarleg áhersla lögð á friðlýstar minjar (skrá sem hvílir á afar veikum grunni); ekki er fjallað um minjar í samhengi við náttúru og víðari landshætti og hugtakanotkun er óljós.

• Í umfjöllun um minjar í skýrslunni er hvergi lagt mat á stöðu þekkingar á sviði menningarminja. Hvergi kemur fram á hvaða gögnum áætlun um minjar og verndun þeirra innan svæðanna ætti að byggja eða hver staða þekkingar innan málaflokksins er. Ekki er heldur skýrt á hvaða þekkingargrunni skýrslan er byggð eða hvaða takmörkunum hún er háð. Er þetta stór galli á skýrslunni og dregur mjög úr gildi hennar.

• Umfjöllun um minjar í verkefnaáætlun 2018-2020 virðist að mestu leyti byggja á friðlýstum minjum. Friðlýstar minjar eru dreggjar af eldra kerfi, og geta hvorki talist dæmigerðar minjar né úthugsað úrval minjastaða á Íslandi. Af þeim stöðum sem teljast til friðlýstra minja hér á landi voru meira en 80% friðlýstir fyrir 1940, löngu áður en hafist var handa við kerfisbundna skráningu minja hér á landi og áður en fagmenntaðir fornleifafræðingar tóku til starfa. Kerfisbundin skráning á fornleifum hér á landi hófst ekki að ráði fyrr en á 9. og 10. áratug 20. aldar. Af þeim tugþúsundum staða sem skráðir hafa verið á vettvangi á síðustu áratugum hafa hins vegar engir bæst við á friðlýsingaskrá. Listinn yfir friðlýstar minjar er úrelt plagg og hefur verið í endurskoðun um árabil hjá Minjastofnun Íslands án þess að niðurstöður þeirrar endurskoðunar liggi fyrir. Meðan svo er hlýtur að teljast varhugavert að friðlýstar menningarminjar njóti forgangs, eins og kemur fram á bls. 10 í drögunum. Þess má geta að friðlýstar minjar eru aðeins agnarsmátt brot af minjastöðum hér á landi, líklega 0,2-0,5% af heildarfjölda (samtals um 850 staðir). Áætlað er að á landinu öllu séu allt að 300.000 fornminjar en aðeins hafa um 50.000 þeirra verið skráðar á vettvangi.

• Á sumum svæðanna í Verkefnaáætlun 2018-2020 hefur verið unnin ítarleg fornleifaskráning og í þeim tilfellum er sjálfsagt að styðjast við slík gögn en ekki er auðsætt á skýrslutexta að slíkt hafi verið gert. Hér má t.d. nefna Látrabjarg, Ásbyrgi og Skálholt. Á öðrum stöðum hefur engin heildræn skráning á minjum verið gerð, t.d. á Hornströndum. Víða er pottur brotinn í skráningu minja innan þjóðgarða, til dæmis er fornleifaskráning í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli brotakennd og komin til ára sinna og heildarskráning fornleifa í Vatnajökulsþjóðgarði er ekki til. Eigi að byggja upp langtímaáætlun varðandi minjar á umræddum ferðamannastöðum hlýtur að vera nauðsynlegt að gera úttekt á stöðu þekkingar á hverju svæði og byggja á henni áætlun um forgangsverkefni á sviði fornleifarannsókna. Á slíkum grunni má svo byggja langtímaáætlanir um skráningu, rannsóknir og verndun á minjum samhliða uppbyggingu ferðamannastaða, útfærslu ferðamannaleiða og mati á nýjum svæðum til að dreifa álagi.

• Æskilegast væri að horfa heildrænt á landshætti á hverju svæði fyrir sig fremur en einstaka minjastaði, bæði hvað einkennir náttúru þeirra og menningarsögu og má í því samhengi minna á að í lögum um menningarminjar eru ákvæði um búsetu- og menningarlandslag en þessi hugtök koma hvergi fram í drögunum.

• Samspil náttúru- og menningarminja er það sem gefur mörgum svæðanna sem um er fjallað hvað mest gildi. Í skýrslunni er hins vegar mjög skýr aðgreining milli náttúru- og menningarminja á stöðum/svæðum. Þetta stafar vafalaust af því að hér eru málaflokkar sem heyra undir tvö ólík ráðuneyti en er bagalegt engu að síður. Minjastaðirnir eru í flestum tilvikum mjög þröngt afmarkaðir (t.d. hellir, tóft, fjárborg) en ekki litið til víðari landshátta. Í skýrslunni er alveg óljóst hvernig á að stuðla að verndun minja á þeim svæðum sem ekki eru valin sérstaklega vegna minjanna (sem eru t.d. friðlýst náttúruvætti/þjóðgarðar/á náttúruminjaskrá) en á mörgum þeirra er tals verður fjöldi minja. Umrædd svæði eru mörg umfangsmikil, enda má segja að náttúruvernd hafi, góðu heilli, þróast frá því að líta til einstakra náttúruvætta til þess að afmarka svæði og heildir.

• Við lestur draga að landsáætlun verður fljótlega vart við að hugatakanotkun er víða óljós og misvísandi. Hugtökin menningarsögulegar minjar og menningarminjar eru notuð sitt á hvað og hvergi er gert ljóst hvernig þau eru skilgreind og hvort þau hafi sömu merkingu. Ekki er heldur útskýrt hvað felist í mun á hugtökunum friðlýstar/friðaðar minjar. Þetta er varhugavert, en lögum samkvæmt hafa allar fornleifar á Íslandi verið friðaðar síðan 1989.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#23 Sævar Þór Halldórsson - 18.03.2018

Í landsáætlun er talað um að það verði til gagnagrunnur um staði, svæði, og leiðir og innviði þeirra og þá þjónustu sem hægt er að fá á þeim stöðum (undir kafla 6.1 og áherslu 1.4.4 í sama kafla). Á kynningarfundi sem haldinn var til að kynna þessa landsáætlun kom fram að þessi gagnagrunnur gæti orðið svipaður og hafnaskrá, þar sem allir innviðir hafna á Íslandi eru sýnilegir og þær upplýsingar sem gestir hafna þarfnast eru í þeirri skrá.

Ég tel að það sé hægt að gera mikið betur en það, landupplýsingar fyrir friðlýst svæði og önnur ferðamannasvæði eru ekki algengar. Upplýsingar um afmarkanir friðlýstra svæða eru til. Þó hefur það komið fyrir að þær upplýsingar eru ekki réttar, samanber útlínur Vatnajökulsþjóðgarðs þegar drög Landsnets um Sprengisandslínu voru kynnt og misræmi í lýsingum á mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs og þeirra landupplýsinga sem til eru um Vatnajökulsþjóðgarð þegar frummatsskýrslan um Kröflulínu 3 var kynnt. Eitthvað fleira er til fyrir Vatnajökulsþjóðgarð og eitthvað safnaðist þegar þjóðgarðurinn og nágrenni var tilnefnt á Heimsminjaskrá UNESCO, og eitthvað er til fyrir Þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þau landupplýsingagögn sem hægt er að fá inn á síðu Umhverfisstofnunar eru svo ekki upp á marga fiska.

Auðvelt er að nýta landupplýsingar til að halda utan um innviði ferðamannastaða og svæða á Íslandi og miðlun upplýsinga með landupplýsingum er mjög læsilegt fyrir flesta sem vilja sækja þá staði heim.

Að búa til almennilegan landupplýsingagagnagrunn gerir það einnig að verkum að starfsmenn svæða eiga auðveldara með að halda utan um svæðin, þar sem allir innviðir td; ruslatunnur, skilti, bekkir, göngustígar, vegir og svo mætti lengi áfram telja, væri hnitað upp og jafnvel ljósmyndir af innviðum og texti á skiltum væri aðgengilegt með auðveldum hætti á netinu og því hægt að sjá það nánast hvar sem er í nútíma samfélagi.

Að þessu sögðu, vil ég líka benda á eitt. Annarstaðar í Landsáætlun (2.3.1) er talað um að safna gögnum um álag af völdum ferðamanna á svæðum. Með landupplýsingum og loftmyndum má fylgjast með ágangi á náttúruna og traðki af völdum ferðamennsku. Með góðum loftmyndum og því sem hægt er að gera með loftmyndum og landupplýsingum mætti gera líkön til að velja hagstæða staðsetningu fyrir hús og aðra uppbyggingu á ferðamannastöðum, hægt að gera líkan að vorleysingum, snjódýptarlíkön og margskonar önnur gögn og líkön er hægt að fá með góðum landupplýsingum. Það er nefnilega hægt að gera svo margt með landupplýsingum og sýna svo margt með góðum kortum.

Réttast væri því að halda þessum hugmyndum um gagnagrunn lifandi, og í stöðugri þróun ekki safna í gagangrunnin bara í innleiðingunni 2018-2020 eins og stendur í skjalinu. Þá er einnig nauðsyn að safna landupplýsingum og setja þær fram með skilvirkum hætti. Þannig er hægt að auka öryggi gesta til muna, því ef gestir eru betur upplýstir og skylja svæðið betur þá eru meiri líkur á að þeir gangi betur um svæðið og taki ekki óupplýstar ákvarðanir. Fylgst er betur með innviðum og auðveldara er að skrá galla, vöntun og þarfar endurbætur og því meiri líkur að hægt sé að bregðast við fyrr og lagfæra það sem þarf að lagfæra.

Afrita slóð á umsögn

#24 Már Einarsson - 19.03.2018

Sjá umsögn Þjóðminjasafns Íslands í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#25 Minjastofnun Íslands - 19.03.2018

Umsögn Minjastofnunar Íslands er hér í viðhengi

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#26 Gunnar Þór Jóhannesson - 19.03.2018

Umsögn námsbrautar í land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands er í viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#27 Samtök ferðaþjónustunnar - 19.03.2018

Samtök ferðaþjónustunnar (samtökin) hafa kynnt sér drög að stefnumarkandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum (Landsáætlun) og fagna því að þetta mikilvæga mál skuli komið í farveg. Telja samtökin þetta jákvætt skref og að Landsáætlunin eigi eftir að þróast og verða mikilvægt stýritæki við varðveislu náttúru landsins og menningarsögulegra minja á sama tíma og tryggð er nýting auðlindarinnar til atvinnusköpunar og upplifunar, jafnt fyrir gesti sem og heimamenn.

Samtökin eru almennt sátt við þá hugmyndafræði og áherslur sem fram koma í tillögunni, en vilja leggja áherslu á að unnið verði að samræmingu og samhæfingu við aðrar áætlanir og verkefni sem í unnið er að á sama tíma. Má t.a.m. nefna að Landsáætlun og samgönguáætlun þurfa að vera samræmd m.t.t. heildarmyndar. Þá má nefna að meðal verkefna Vegagerðarinnar eru reiðleiðir en þær eru einnig verkefni Landsáætlunar. Tryggja þarf að verkefni tengd hjólaleiðum, gönguleiðum svo ekki sé talað um áningastöðum við þjóveginn séu á einum stað, t.a.m. innan Vegagerðar þar sem umsjón og framkvæmdir væru allar vistaðir innan samgönguáætlunar.

Einnig þarf að hafa í huga tengingar við aðrar opinberar áætlanir og stefnur, t.a.m. um vernd náttúru og menningarminja, byggðastefnu. Samtökin vilja benda á að verið er að vinna áfangastaðaáætlanir (DMP), á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála, sem verður mikilvægur grunnur að þeim verkefnum sem Landsáætlunin mun beita sér að og ættu þær því að tengjast beint saman.

Samtökin taka undir og hvetja til að sem fyrst verið farið í að móta skilvirkar leiðir til stýringar á aðgengi ferðamanna um viðkvæm svæði með hliðsjón af ákvæðum um almannarétt. Stýringar eru ekki síður mikilvægar með tilliti til öryggis- og gæðamála. Með aukinni vetraferðamennsku hafa komið upp nýjar áskoranir sem takast þarf á við, ekki síst hvað varðar öryggismálin, bæði með tilliti til forvarna og lokanna. Mikilvægt er að ná góðu og víðtæku samstarfi milli aðila til að árangur náist og stýringin stuðli að sjálfbærni. Nú þegar eru til upplýsingar sem byggja má á, en efla þarf frekari rannsóknir og þekkingu sem byggja undir þær ákvarðanir sem taka þarf.

Samtökin vilja sérstaklega fagna því að í drögunum er gert ráð fyrir að stuðlað verði að aukinni fagþekkingu á sviði hágæða innviðauppbyggingar og tryggt verði að aðgengi að slíkri þekkingu verði tryggð eftir því sem þörf er á. Hönnun, yfirbragð og efnisval þarf að fara saman við upplifun, notagildi og endingu.

Rekstur svæða og viðhald er ekki síður mikilvægt. Mikilvægt er að hluti af því skipulagi sem verður komið á, varðandi umsjón staða, leiða og svæða, sé skýr stefna um rekstur, viðhald og fjármögnun. Víða þar sem innviðir hafa verið byggðir upp hefur sárlega skort á að þeim sé haldið við, þessari þróun verður að breyta.

Ferðleiðir fá ekki mikla athygli í þessari fyrstu áætlun og er það að vissu leiti skiljanlegt en samtökin vilja samt benda á að ferðaleiðir er mjög mikilvægur hluti ferðamennsku um landið. Vænta samtökin þess að frekar verði unnið með þær í komandi vinnu við Landsáætlun.

Ljóst er að á mörgum ferðamannastöðum og svæðum er hlutverk umsjónaraðila óskilgreint, Samtökin lýsa ánægu með að til standi að taka á þessu með skipulegum hætti. Margar ríkisstofnanir koma að málum ásamt sveitarfélögum, landeigendum, frjálsum félögum o.fl. Stofnun þjóðgarðsstofnunar ætti að stórum hluta að geta einfaldað slíka vinnu.

Samtökin áskilja sér rétt til frekari athugasemda á síðari stigum.

Viðhengi