Samráð fyrirhugað 07.06.2018—21.06.2018
Til umsagnar 07.06.2018—21.06.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 21.06.2018
Niðurstöður birtar 13.12.2018

Drög að frumvarpi til laga um póstþjónustu

Mál nr. 64/2018 Birt: 07.06.2018 Síðast uppfært: 01.11.2019
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Niðurstaða málsins er í stuttu máli sú að fjórar umsagnir bárust. Tvær í samráðsgátt og tvær beint til ráðuneytisins. Gerð er grein fyrir athugasemdunum í niðurstöðuskjali og frumvarpinu sjálfu.

Nánar um niðurstöður

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 07.06.2018–21.06.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 13.12.2018.

Málsefni

Um er að ræða drög að frumvarpi til nýrra laga um póstþjónustu þar sem m.a. er lagt til að innleidd verði tilskipun Evrópuráðsins nr. 6/2008 um afnám einkaréttar á póstþjónustu.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að frumvarpi til nýrra laga um póstþjónustu sem m.a. fjallar um innleiðingu á tilskipun Evrópuráðsins nr. 6/2008 um afnám einkaréttar á póstþjónustu.

Ísland hefur fyrir tilstilli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið innleitt tilskipanir og reglugerðir Evrópusambandsins er varða póstþjónustu frá árinu 1997 og 2002, fyrst á árinu 1998 og síðan á árunum 2003 og 2005. Þriðja pósttilskipun Evrópusambandsins (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/6/EB) sem nú er innleidd kveður á um afnám einkaréttar og opnun póstmarkaðar. Flest ríki Evrópusambandsins afnámu einkarétt á póstþjónustu fyrir 1. janúar 2011 líkt og tilskipunin kveður á um, og afnám einkaréttar hefur nú komið til framkvæmdar í öllum aðildarríkjum. Innleiðing þriðju pósttilskipunarinnar í EES-samninginn hefur hins vegar tafist. Ástæðan fyrir þeim töfum sem urðu á innleiðingu þriðju pósttilskipunarinnar er að þrátt fyrir að tilskipunin væri merkt EES-tæk gerðu Norðmenn stjórnskipulegan fyrirvara við upptöku hennar, og málið varð að kosningamáli í Noregi á sínum tíma. Fyrrverandi innanríkisráðherra Íslands ákvað þá að fylgja Norðmönnum að málum og fresta innleiðingu hér á landi. Með nýrri ríkisstjórn í Noregi sem og á Íslandi hefur verið ákveðið að taka tilskipunina upp í samninginn um evrópska efnahagssvæðið, ljúka innleiðingu og leggja fram frumvarp til nýrra póstlaga. Ný póstlög tóku gildi í Noregi 1. janúar 2016.

Með frumvarpinu er m.a. lagt til að einkaréttur ríkisins á póstþjónustu, þ.e. bréfum undir 50 g, verði afnuminn og gerð er grein fyrir inntaki alþjónustu.

Sú leið sem hér er lögð til við að tryggja öllum landsmönnum lágmarks póstþjónustu á hverjum tíma, svokallaða alþjónustu, miðar að því að póstþjónusta verði veitt á markaðslegum forsendum. Reynist það ekki kleift verði alþjónustan eigi að síður tryggð með þjónustusamningi, útboðsleið eða með því að útnefna alþjónustuveitanda.

Umsögnum skal skilað eigi síðar en 21. júní 2018 í samráðsgátt https://samradsgatt.island.is/ eða á netfangið srn@srn.is.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Samband íslenskra sveitarfélaga - 20.06.2018

Áhyggjur sambandsins snúa sérstaklega að því að litlar skorður eru settar gagnvart skerðingu póstþjónustu á dreifbýlum svæðum. Virðist þannig mega álykta af frumvarpinu að það muni færast í vöxt í dreifðum byggðum að póstburður verði einungis einu sinni í viku, sem er verulegt frávik frá meginreglu tilskipunarinnar um að alþjónusta feli í sér póstdreifingu að lágmarki 5 virka daga í hverri viku. Sömuleiðis er allmikill munur á því hvort póstdreifing fer fram tvisvar í viku, sem er lágmarksþjónusta samkvæmt gildandi reglugerð, eða aðeins einu sinni.

Sambandið telur það verulegt umhugsunarefni að í þessu efni er gengið mun lengra en Norðmenn gerðu við sína innleiðingu á þriðju pósttilskipuninni en þar verður eingöngu vikið frá meginreglunni um póstdreifingu 5 daga í viku, við sérstakar aðstæður eða sérstakar landfræðilegar aðstæður (n. ekstraordinære omstendigheter ellert særlige geografiske forhold) sem ákveðið er í hverju tilviki fyrir sig sbr. 3. mgr. 8. gr. norsku laganna.

Sambandið ítrekar tilmæli til ráðuneytisins um að áður en frumvarpið verður lagt fram á Alþingi liggi fyrir greining frá Byggðastofnun um hvaða áhrif slík skerðing á póstþjónustu geti haft á skilyrði til búsetu og atvinnurekstrar í dreifbýli, m.a. fyrir fyrirtæki sem senda vörur til viðskiptavina í öðrum landshlutum og fyrir rekstraraðila sem reiða sig á að fá sendingar, t.d. litla varahluti, senda í pósti.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Bændasamtök Íslands - 21.06.2018

Hjálögð er umsögn Bændasamtaka Íslands um frumvarp til laga um póstþjónustu, mál nr. S-64/2018.