Samráð fyrirhugað 18.06.2018—10.09.2018
Til umsagnar 18.06.2018—10.09.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 10.09.2018
Niðurstöður birtar 16.09.2021

Leyfi til farþegaflutninga með skipum

Mál nr. 67/2018 Birt: 11.06.2018 Síðast uppfært: 16.09.2021
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Í kjölfar samráðs var talin þörf á frekari vinnu við reglugerðina. Alþingi hefur samþykkt ný heildarlög um skip, skipalög nr. 66/2021, sem snúa m.a. að starfsemi farþegaskipa. Ný drög að reglugerð verða kynnt í kjölfarið.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 18.06.2018–10.09.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 16.09.2021.

Málsefni

Með drögum þessum er lagt til að sett verði ný reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum.

Samhliða vinnu við drög að reglugerð um leyfi til reksturs báta í farþegaflutningum (sjá mál á samráðsgátt nr. 56/2018) hefur Samgöngustofa unnið að endurskoðun reglugerðar nr. 463/1998, um leyfi til farþegaflutninga með skipum. Með drögunum er fyrst og fremst gerðar breytingar í ljósi fenginnar reynslu. Ákvæði reglugerðar nr. 463/1998 eru ekki ítarleg og talsvert svigrúm til útfærslu. Helsta nýjungin sem lögð er til er krafa um öryggisstjórnunarkerfi. Helstu breytingar aðrar eru eftirfarandi:

- Lagt er til að mælt verði nánar fyrir um þær kröfur sem gerðar eru til smíði og búnaðar skipa í farþegaflutningum og þær taki mið af því hafsvæði sem skipið er starfrækt á.

- Lagt er til að skip, sem einungis sigla í útsýnis- og skoðunarferðum, fái tiltekið svigrúm við úthlutun hafsvæða við hagstæðar aðstæður.

- Lagt er til að fyrir skip, sem ekki falla undir reglugerð nr. 337/2009, séu settar sambærilegar kröfur og gerð er í máli nr. 56/2018. Áhættumat yrði þar jafnframt hluti af öryggisstjórnunarkerfinu.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Hilmar Snorrason - 25.06.2018

2. gr. 5 liður

Breyta þarf skýringunni mílu í sjómílur.

2. gr 12 liður

Skilgreining á söfnunarstað er ekki sú að áhöfn aðstoði farþega við að klæðast björgunarvestum. Þeir eiga að leiðbeina þeim við ásetningu björgunarvesta og því ætti skilgreiningin að vera afmarkað autt þilfarsrými sem er nægjanlegt til að safna saman og leiðbeina farþegum.

5. gr

Þar segir að í ferðum sem að jafnaði taka innan við 4 klst er fjöldi hvíla háður samþykkti Samgöngustofu. Þetta ákvæði er afskaplega opið og því í raun einstaklingsákvörðun sem byggir ekki á neinni forsendu og gæti valdið ósamræmi í ákvörðun um hvort eða hve margar hvílur ættu að vera fyrir farþega. Hér er um að ræða dagsferjur sem að öllu jöfnu ekki eru búin hvílum.

7. gr o) liður

Í þessu lið er tilgreint að teikningum af skipi sé komið fyrir á einum eða fleiri áberandi stöðum um borð. Í viðauka reglugerðar 666/2001, kafla III, lið 5-3, .3.4 er fjallað um stoðkerfi sem skuli innihalda neyðarfyrirmæli um ólögmætar aðgerðir gegn skipi sem ógna öryggi farþega þess og áhafnar. Með vaxandi áherslum á vernd skipa getur orkað tvímælis að hafa til sýnis nákvæmar teikningar af innviðum farþegaskipa sem gætu verið nýttar í ólögmætum tilgangi. Í SOLAS er í kafla III, reglu 8 lið 4 fjallað um að teikningar og leiðbeiningar til farþega eigi að vera á tilteknum stöðum þar sem fram komi mótstaður, aðgerðir þeirra á neyðarstundu og hvernig eigi að setja á sig björgunarvesti. Þar er krafa um að vera með ákveðnar uppýsingar sýnilegum farþegum en ekki afgerandi að um ýtarlegar teikningar af skipinu eða neyðarfyrirmælum þess sé þar notaðar. Rétt væri að hér yrði tiltekið að þessar teikningar ættu að vera á áverandi stöðum þar sem skipverjar halda til. Þá væri gert að hafa upplýsingar til farþega í samræmi við ákvæði SOLAS samþykktarinnar sem áður er nefnt hér að framan.

Afrita slóð á umsögn

#2 Öryrkjabandalag Íslands - 06.07.2018

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Sölvhólsgötu 7

101 Reykjavík

Reykjavík, 6. júlí 2018

Umsögn Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um drög að reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum

Nú liggja fyrir drög að reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum. Í reglugerðinni er ekki gert ráð fyrir að fatlað fólk ferðist með skipum, miðað við ákvæði um fjölda farþega og aðbúnað í 5. gr.

Það brýtur í bága við ákvæði Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) sem Ísland fullgilti í september 2016.

Eftir fullgildingu SRFF er ekki heimilt að setja lög og reglur sem brjóta í bága við samninginn. Aðildarríkin skuldbinda sig til að „gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin“ , þar á meðal „að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til: 10 a) bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar með talið skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða.“

Aðgengi að skipum

Til að tryggja að fatlað fólk geti ferðast með farþegaskipum þarf að ganga út frá ákveðnum viðmiðum um aðgengi að skipum og um borð þar sem það er hægt, svo sem að leiðir séu breiðar og hindurnarlausar, merkingar séu skýrar, leiðbeiningar og tilkynningar auðskildar og að hugað sé að lýsingu og hljóðvist. Salernisaðstaða þarf að vera til staðar og öll öryggisatriði til að tryggja skjóta rýmingu þurfa að vera í lagi.

Þá er rétt að ganga út frá þeim viðmiðum sem koma fram í leiðbeiningarblaði MGN 306 frá 1996: „ Recommendation on the design and operation of passenger ships to respond to elderly and disabled persons' needs.“

Það eru sömu viðmið og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um öryggisreglur og staðla fyrir farþegaskip (nr. 2009/45/EC) fylgir, en reglugerð þessi er aftur á móti sett samkvæmt lögum um eftirlit með skipum nr. 47/2003.

Fyrir ári síðan, þ. 1. júlí 2017, tóku gildi ný lög um farþegaflutninga og farmflutninga á landi, nr. 28/2017, sem innleiddu með reglugerð ESB reglugerð nr. 181/2001 um réttindi farþega í

hópbifreiðum. Með þessari gildistöku fylgja auknar kröfur á sérleyfishafa um aðgengi fyrir fatlað og hreyfihamlað fólk að hópferðabílum, með hliðsjón af 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 8. mgr. aðfararorða ESB reglugerðarinnar.

Rétt væri að setja nú ný lög um eftirlit með skipum sem byggir á og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um öryggisreglur og staðla fyrir farþegaskip (nr. 2009/45/EC), sem heimilar ekki nýskráningu farþegaskipa og – báta nema að aðgengi fyrir fatlað fólk sé tryggt.

Samráð

Ekki hefur verið leitað eftir áliti eða óskað eftir samráði við ÖBÍ við gerð þessarar reglugerðar. Stjórnvöldum er skylt að hafa virkt samráð fyrir heildarsamtök fatlaðs fólks um ákvarðanir sem varða hagsmuni þess, enda segir í 3. mgr. 4. gr. SRFF:

„Aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð við og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

Sú skylda er ennfremur ítrekuð í 2. mgr. 8. gr. ofangreindrar ESB tilskipunar nr. 2009/45/EC.

Í öllum málum sem snerta hagsmuni fatlaðs fólks ber stjórnvöldum að kalla Öryrkjabandalag Íslands að borðinu á fyrstu stigum, enda segja einkennisorð samtakanna:

Ekkert um okkur án okkar.

Með vinsemd og virðingu,

________________________________

Þuríður Harpa Sigurðardóttir

formaður ÖBÍ

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Sigurmundur Gísli Einarsson - 17.08.2018

Bendi á að bátar undir tólf metrum og eru háhraðaför hafa valdið fjölda slysa. Slýkir bátar eru ekki örugg leið til farþegaflutninga milli tveggja hafna á úthafi. Er sammála Samgöngustofu um að öryggi farþega skal haft í forgangi við úthlutun leyfa. Kröfur samkvæmt reglugerð 666/2001 er evrópureglugerð um farþegaför. Sé ekki ástæðu fyrir íslenskt regluverk að breyta út af þeirri reglugerð.

Afrita slóð á umsögn

#4 Sigurmundur Gísli Einarsson - 17.08.2018

Bendi á að bátar undir tólf metrum og eru háhraðaför hafa valdið fjölda slysa. Slýkir bátar eru ekki örugg leið til farþegaflutninga milli tveggja hafna á úthafi. Er sammála Samgöngustofu um að öryggi farþega skal haft í forgangi við úthlutun leyfa. Kröfur samkvæmt reglugerð 666/2001 er evrópureglugerð um farþegaför. Sé ekki ástæðu fyrir íslenskt regluverk að breyta út af þeirri reglugerð.

Afrita slóð á umsögn

#5 Samtök ferðaþjónustunnar - 10.09.2018

Ágæti viðtakandi,

Í viðhengi er umsögn SAF um drög að reglugerð um leyfi til farþegaflutninga með skipum

Viðhengi