Samráð fyrirhugað 13.06.2018—13.08.2018
Til umsagnar 13.06.2018—13.08.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 13.08.2018
Niðurstöður birtar 20.12.2018

Drög að reglugerð um búsetu fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir.

Mál nr. 71/2018 Birt: 13.06.2018 Síðast uppfært: 20.12.2018
  • Velferðarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Örorka og málefni fatlaðs fólks

Niðurstöður birtar

Alls bárust fimm umsagnir, þrjár í samráðsgátt og tvær í tölvupósti til ráðuneytis. Tekið var tillit til athugasemda eftir atvikum. Reglugerðin hefur verið birt á vef Stjórnartíðinda undir númerinu 1038/2018. https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/velferdarraduneyti/nr/21290

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 13.06.2018–13.08.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 20.12.2018.

Málsefni

Velferðarráðuneytið óskar eftir umsögnum um reglugerð um búsetu fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir skv. lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Samhliða gildistöku laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, er stefnt að birtingu reglugerða með stoð í lögunum. Meðal þeirra er reglugerð um búsetu fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir. Velferðarráðuneytið óskar eftir umsögum um drög að reglugerðinni sem unnin var í samráði við hagsmunaaðila.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Bára Sigurjónsdóttir - 18.07.2018

Meðfylgjandi eru athugasemdir velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna reglugerðar um búsetu fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Þroskahjálp,landssamtök - 13.08.2018

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um búsetu fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir.

Landssamtökin þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi reglugerðardrögin.

21. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

21. gr. laga nr. 38/2018 hljóðar svo:

Sé niðurstaða sérfræðingateymis skv. 20. gr. að barn þurfi þjónustu samkvæmt lögum þessum og því sé fyrir bestu að það búi utan heimilis fjölskyldu þess skal eftir fremsta megni reyna að finna barninu annað heimili í nærsamfélagi þess og gera því kleift að viðhalda sambandi við upprunafjölskyldu sína.

Heimilt er að útbúa sérstakt húsnæði fyrir fötluð börn með miklar þroska- og geðraskanir, enda hafi að mati sérfræðingateymis skv. 20. gr. verið fullreynt að styðja barn á heimili fjölskyldu þess eða á öðru heimili í nærsamfélagi þess. Um nauðung sem beitt er í slíkum úrræðum gilda ákvæði laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Ráðherra skal, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks, setja reglugerð um vistun barna utan heimilis samkvæmt þessari grein.

1. gr. reglugerðardraga. Gildissvið.

Í 1. gr. reglugerðardraganna er m.a. fjallað fjallað um húsnæði. Þar segir í 3. mgr.:

Gerð og rekstur sérstaks húsnæðis fyrir barn skal byggja á reglugerð um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk, nr. 370/2016, eftir því sem við á og ákvæðum reglugerðar um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu, nr. 1054/2010, eftir því sem við á.

Að mati samtakanna er hér margt óljóst og telja þau að m.a. þurfi að skýra eftirfarandi:

• Er átt við stærð einkarýmis og hvert barn búi í eigin íbúð (að lágmarki 45 m2)?

• Gilda sömu reglur um fjölda barna að hámarki 7? (Þess skal getið að Socialstyrelsen í Svíþjóð leggja til 2-4 börn).

Samtökin telja aðfinnsluvert í ljósi þeirra hagsmuna sem í húfi eru að í þessum ákvæðum reglugerðardraganna er ekki gerð nein tilraun til að nálgast hvað kröfur sé eðlilegt og málefnalegt að gera í þessu sambandi varðandi börn, heldur eru settar reglur sem ætlaðar eru fyrir fullorðið fólk og síðan er bætt við „eftir því sem við á.“

Þegar litið til ákvæða í 7. gr reglugerðardraganna vakna fleiri spurningar sem nauðsynlegt er að taka afstöðu til áður en reglugerðin verður sett. Greinin hljóðar svo:

7. gr. Samningur um húsnæði og þjónustutími.

Gildistími búsetusamnings milli forsjáraðila eða ungmennis og eftir atvikum barns og sveitarfélags er ótímabundinn við undirritun og gildir á meðan vistun varir en þó ekki lengur en til þess dags er barn nær 18 ára aldri. Þjónustuteymi ber ábyrgð á því að framtíðarþjónusta og búsetuþörf barns sé metin við 17 ára aldur í samráði við barn og forsjáraðila. Í þeim tilvikum þegar ungmenni býr á heimili fram yfir 18 ára aldur skal sveitarfélag gera nýjan tímabundinn búsetusamning vegna búsetu á heimili auk húsaleigusamnings. Samningar þessir skulu alla jafna ekki gilda til skemmri tíma en þriggja ára í senn. (Undirstr. þroskhj.)

Hér er samkvæmt orðalagi greinarinnar gert ráð fyrir einhvers konar búsetusamningi með gildistíma allt til þess dags sem barn nær 18 ára aldri. Eftir það er gert ráð fyrir að einstaklingurinn geti haldið áfram að búa á heimilinu og skal þá gera við hann húsaleigusamning auk búsetusamnings til alla jafna a.m.k. „þriggja ára í senn.“

Ekki verður séð að tilvitnuð ákvæði verði skilin á annan veg en þann að fullorðið fólk geti búið á heimili fyrir börn um óákveðinn tíma. Landssamtökin Þroskahjálp telja það fyrirkomulag vera varhugavert og vandkvæðum bundið.

Þá benda samtökin á að reynslan sýnir að einstaklingar sem náð hafa 18 ára aldri og búa við það fyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í greininni kunna að lenda í erfiðleikum hvað varðar rétt til örokubóta o.þ.h. réttinda.

5. gr. Eftirlit.

Í 5. gr. reglugerðardraganna er fjallað um eftirlit. Greinin hljóðar svo:

Sveitarfélög annast eftirlit með starfsemi þjónustu- og búsetuúrræða á þeirra vegum svo sem í formi úttektar, sem m.a. byggist á kröfulýsingum og heimsóknum þar sem aðstæður eru kannaðar ásamt viðræðum við aðila sem tengjast úrræðinu, þar á meðal barn, forsjáraðila, aðra nákomna eftir því sem við á og starfsfólk, sbr. 5. gr. laga.

Eftirlit byggist á 4. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, reglugerð um eftirlit og eftirfylgni vegna þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir svo og lögum nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Samtökin telja í ljósi þess hversu mikilvægt vandað og virkt eftirlit augljóslega er með starfsemi af þessu tagi sem lýtur að fötluðum börnum sem eru eðli máls mjög berskjölduð séu þessi ákvæði of almennt orðuð og eftirlitsskyldur og -heimildir ráðuneytisins allt of almennt skilgreindar.

Í þessu sambandi skal minnt á að fulltrúi samtakanna í starfshópi um samningu reglugerðardraganna lagði til að kveðið yrði á um að kröfulýsing sveitarfélaga þyrfti að lágmarki að fá samþykki ráðuneytisins ef ekki yrði farin sú leið að mæla fyrir um að ráðuneytiði sjálft ætti að útbúa slíkar kröfulýsingar. Bent var á að slík kröfulýsing þyrft m.a. að taka til starfsmannhalds og aðbúnaðar og var vísað til þess að samkvæmt. 3. grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna væru slíkar kröfur lagðar á ríkið:

Aðildarríki skulu sjá til þess að stofnanir þar sem börnum skal veitt umönnun og vernd starfi í samræmi við reglur sem þar til bær stjórnvöld hafa sett, einkum um öryggi, heilsuvernd og fjölda og hæfni starfsmanna, svo og um tilhlýðilega yfirumsjón. (Undirstr. þroskahj.).

Þá telja samtökin nauðsynlegt, eins og fulltrúi þeirra í starfshópi um reglugerðina benti þar skýrlega á að ekki sé forsvaranlegt að afgreiða þessa reglugerð nema skýrt verði hver er réttarstaðan hvað varðar vistun fatlaðra barna sem ekki hafa fötlun sem telst vera „miklar þroska- og geðraskanir“ og hvernig eftirlti með vistun þeirra er nú og hvernig því eftirliti skuli vera háttað.

Í þessu sambandi til skýringar og umhugsunar vekja samtökin athygli á auglýsingu sem birtist í Fréttablaðinu nýlega þar sem starf forstöðumanns á nýju heimili fyrir börn í Árborg var auglýst laust til umsóknar. Þá skal bent á að nýlega var opnað nýtt heimilisúrræði fyrir börn í Mosfellsbæ og nýir einstaklingar voru teknir inn á heimili fyrir börn í Reykjavík. Um vistun þessara fötluðu barna gilda engin sérstök laga- eða reglugerðaákvæði sé um einstaklinga að ræða sem ekki eru með tilgreinda fötlun, þ.e. „miklar þroska- og geðraskanir“.

Með vísan til framangreinds ítreka Landssamtökin Þroskahjálp að þau telja að þessi óljósa réttarstaða varðandi vistun umræddra barna og eftirlit þar að lútandi sé óforsvaranleg og að sú skylda hvíli augljóslega á ráðuneytinu að bregðast við því með fullnægjandi hætti án frekari tafa.

Afrita slóð á umsögn

#3 Jón Hrói Finnsson - 13.08.2018

Sjá meðfylgjandi skrá.

Viðhengi