Samráð fyrirhugað 13.06.2018—14.08.2018
Til umsagnar 13.06.2018—14.08.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 14.08.2018
Niðurstöður birtar 20.12.2018

Drög að reglugerð um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum

Mál nr. 73/2018 Birt: 13.06.2018 Síðast uppfært: 20.12.2018
  • Velferðarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Örorka og málefni fatlaðs fólks

Niðurstöður birtar

Alls bárust fjórar umsagnir, þrjár í samráðsgátt og ein í tölvupósti til ráðuneytis. Tekið var tillit til athugasemda eftir atvikum. Reglugerðin hefur verið birt á vef Stjórnartíðinda undir númerinu 1037/2018. https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/velferdarraduneyti/nr/21289

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 13.06.2018–14.08.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 20.12.2018.

Málsefni

Velferðarráðuneytið óskar eftir umsögnum um reglugerð um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum skv. lögum nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Samhliða gildistöku laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, er stefnt að birtingu reglugerða með stoð í lögunum. Meðal þeirra er reglugerð um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum. Velferðarráðuneytið óskar eftir umsögum um drög að reglugerðinni sem unnin var í samráði við hagsmunaaðila.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Bára Sigurjónsdóttir - 18.07.2018

Meðfylgjandi eru athugasemdir velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna reglugerðar um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Þroskahjálp,landssamtök - 13.08.2018

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi reglugerðardrögin.

17. gr. laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Reglugerðin er sett á grundvelli 17. gr. laga nr. 38/2018 sem hljóðar svo:

Skammtímadvöl.

Fötluð börn og ungmenni eiga rétt á skammtímadvöl utan heimilis þegar þörf krefur. Skammtímadvöl er ætlað að veita fötluðum einstaklingum tímabundna dvöl vegna mikilla umönnunarþarfa umfram jafnaldra. Foreldrar barns sem á rétt á skammtímadvöl geta fengið stuðning inn á heimili sitt í stað vistunar utan heimilis óski foreldrar þess. Heimilt er að veita fullorðnu fötluðu fólki sem býr í foreldrahúsum skammtímadvöl meðan beðið er eftir annarri þjónustu.

Ráðherra setur reglugerð um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og hagsmunasamtök fatlaðs fólks. (Undirstr. Þroskahj.).

Samtökin benda á að þær efnislegu breytingar hafa verið gerðar á reglugerðardrögunum frá því að starfshópurinn sem vann drögin skilaði sínum tillögum að eftirfarandi ákvæði sem voru í 2. og 11. gr. draga starfshópsins varðandi fyrirkomulag og rétt foreldra til að fá stuðning heim hafa verið felld út.

Ákvæði sem fellt hefur verið úr 2. gr. hljóðaði svo:

Jafnframt skulu foreldrar fatlaðra baran og ungmenna eiga þess kost að fá beinan stuðning á heimili sínu óski þeir þess.

11. gr. hljóðaði svo:

Foreldrar barns sem á rétt á skammtímadvöl geta fengið stuðning inn á heimili sitt í stað vistunar utan heimilis óski foreldrar þess. Stuðningurinn getur falist í því að aðstoðarfólk kemur heim til fjölskyldu barns og veitir tímabundinn stuðning á hverjum sólarhring eða samfelldan stuðning í fleiri sólarhringa eftir atvikum. Hægt er að veita stuðninginn bæði meðan fjölskyldan er heima eða fjarverandi. Sé um að ræða sérstaklega umfangsmiklar stuðningsþarfir skal faglærður starfsmaður sinna samræmingu þjónustunnar og viðveru eftir því sem við á.

Samtökin skilja það svo að ráðuneytið hafi fellt þessi ákvæði úr drögunum vegna þess að það teldi að í 17. gr. laganna væri ekki nægileg lagstoð fyrir þeim í ljósi orðalags 17. gr. varðandi „skammtímadvalarstaði“. Samtökin telja ákvæði þessi mikilvæg og leggja því eindregið til að skoðað verði hvort þau hafi ekki nægilega stoð í lögunum þrátt fyrir umrætt orðalag 17. gr. Samtökin benda í þessu sambandi á að í almennri reglugerðarheimild í 40. gr. laganna segir að ráðherra setji reglugerðir um nánari framkvæmd laganna, „þar á meðal“ um atriði sem tilgreind eru í liðum 1 – 7. I ljósi þess orðalags geta þau atriði sem þar eru tilgreind ekki talist vera tæmandi talning á heimildum ráðherra til reglugerðarsetningar.

Í 9. gr. reglugerðardraganna hefur orðunum „alla jafna“ verið skotið inn en þau voru ekki drögunum sem starfshópurinn skilaði af sér. Greinin hljóðar svo:

Skammtímadvöl skal alla jafna vera notendum að kostnaðarlausu, heimilt er þó að innheimta fæðisgjald, skv. gjaldskrá sveitarfélags, af dvalargestum sem eru 18 ára og eldri. Þá skulu dvalargestir einnig greiða lágmarksgjald á sólarhring sem ætlað er að standa undir kostnaði þeirra vegna ferða og frístunda sem skipulögð er af skammtímadvalarstað.

Dvalargestir skulu ekki bera kostnað vegna starfsmanna sem fellur til vegna þátttöku þeirra frístundastarfi utan skammtímadvalar.(Undirstr. Þroskahj.).

Samtökin telja þessa breytingu ástæðulausa og til þess fallna að skapa óvissu sem er sérstaklega íþyngjandi fyrir þá sem efnalitlir eru. Þá getur ákvæðið leitt til mismununar hvað varðar kostnaðarþátttöku notenda. Samtökin leggja því til að frá þessari breytingu verði horfið. Ef það verður ekki gert er að mati samtakanna nauðsynlegt m.t.t. jafnræðis og samræmis að skýra betur undir hvaða kringumstæðum megi krefja notendur um kostnað, hvaða kostnaðarþættir það eru og hversu mikill sá kostnaður má vera.

Þá hafa ákvæði varðandi andmælarétt, kæruheimild og þagnarkyldu verið felld úr reglugerðardrögunum en þau voru í 14. – 16. gr. þeirra draga sem starfshópurinn skilaði af sér og hljóðuðu svo:

14. gr.

Andmælaréttur.

Við málsmeðferð ber annars vegar að gefa forsjáraðila barnsins kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hins vegar barninu í samræmi við aldur þess og þroska.

15. gr.

Kæruheimild.

Heimilt er að kæra stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndar velferðarmála.

16. gr.

Þagnarskylda.

Starfsfólk á skammtímadvalarstöðum skal gæta þagnarskyldu um þau atvik og upplýsingar sem því verða kunn í starfinu og leynt eiga að fara vegna persónulegra hagsmuna barnsins og fjölskyldu þess sem og almannahagsmuna. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

Samtökin benda á þessi ákvæði eru mikilsverð til að tryggja réttaröryggi þeirra sem í hlut eiga en verða að líta svo á að ráðuneytið hafi með fullnægjandi hætti gengið úr skugga um að þessi mikilsverðu réttindi væru nægilega vel varin annars staðar í regluverkinu til að fella mætti þau út úr reglugerðardrögunum.

Athygli er vakin á að í fyrirliggjandi reglugerðardrögum hefur númerum greina ekki verið breytt í ljósi þess að 11., 14., 15. og 16. gr. verið felldar út úr drögunum.

Afrita slóð á umsögn

#3 Jón Hrói Finnsson - 14.08.2018

Meðfylgjandi er umsögn Akureyrarbæjar um drög að reglugerð um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum.

Viðhengi