Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 21.6.–19.7.2018

2

Í vinnslu

  • 20.7.–2.12.2018

3

Samráði lokið

  • 3.12.2018

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-75/2018

Birt: 19.6.2018

Fjöldi umsagna: 1

Drög að frumvarpi til laga

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna brottfalls laga um kjararáð, nr. 130/2016, með síðari breytingum.

Niðurstöður

Ein umsögn barst á samráðstímanum, frá Hagstofu Íslands. Í umsögn Hagstofunnar er bent á að enginn lagalegur grundvöllur sé fyrir útreikningum á árlegum meðaltölum reglulegra launa ríkisstarfsmanna heldur séu þeir í samræmi við þær aðferðir sem Hagstofan ákvarðar hverju sinni. Breytingar geti orðið vegna umbóta á aðferðum eða gögnum. Jafnframt bendir Hagstofan á í umsögn sinni að til verði hringrás þar sem hærra meðaltal reglulegra launa leiðir til hækkunar á reglulegum launum og að ef horft er til síðustu fimm ára hafi tölurnar einungis tvisvar verið birtar fyrir 1. maí. Í frumvarpinu er nú lagt til að breytingarnar taki gildi 1. júlí ár hvert í samræmi við tölur sem birtar verði fyrir 1. júní. Frumvarpið var sent til eftirtalinna aðila til ábendinga eða athugasemda: Skrifstofu Alþingis vegna breytinga á lögum um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, Dómarafélags Íslands og dómstólasýslunnar vegna dómara, ríkissaksóknara og héraðssaksóknara vegna saksóknara, Seðlabanka Íslands vegna seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra, utanríkisráðuneytisins vegna sendiherra, skrifstofu forseta Íslands vegna forseta Íslands og forsetaritara, Biskupsstofu og Prestafélags Íslands vegna biskups, vígslubiskupa, prófasta og presta, ríkissáttasemjara og yfirskattanefndar, úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kærunefndar útlendingamála og úrskurðarnefndar velferðarmála vegna nefndarmanna sem eru í fullu starfi. Ábendingar og athugasemdir bárust frá Dómarafélagi Íslands, dómstólasýslunni, Prestafélagi Íslands, Seðlabanka Íslands og vararíkissaksóknara. Í umsögn Dómarafélags Íslands er m.a. vikið að tómlæti kjararáðs gagnvart erindum dómara. Ráðið hafi ekki sinnt ítrekuðum beiðnum dómara um endurskoðun kjara og hafi starfskjör dómara engum breytingum tekið frá því um mitt ár 2016. Jafnframt kemur fram í umsögn félagsins að laun dómara snúist um annað og meira en það hvaða starfskjör verði talin sanngjörn og eðlileg í samanburði við aðra embættismenn í þjónustu ríkisins. Ákvörðun um launakjör dómara væri öðrum þræði ákvörðun um stöðu dómara innan stjórnkerfisins og hvort sjálfstæði þeirra sé tryggt almennt og gagnvart öðrum þáttum ríkisvaldsins. Störf dómara séu í eðli sínu þannig að þau gera kröfu um að dómstólar séu sjálfstæðir í störfum sínum og þar með óháðir öðrum handhöfum ríkisvaldsins. Dómarar þurfa oft og tíðum að taka afstöðu til álitamála á borð við það hvort athafnir ráðherra samrýmist lögum eða hvort lög sem Alþingi setur standist stjórnarskrá. Almenningur verður að geta treyst því að dómarar sjái sér engan hag í því að þurfa að þóknast valdhöfum í dómsstörfum sínum. Um þessa stöðu dómara og dómsvaldsins er fjallað í stjórnarskrá og í lögum nr. 50/2016, um dómstóla. Auk þess er víða í alþjóðlegum og í því efni m.a. sett fram viðmið um laun þeirra og fyrirkomulag launaákvarðana. Er í alþjóðlegum reglum í fyrsta lagi lögð áhersla á að kjör dómara endurspegli þá ábyrgð, skyldur og virðingu sem starfinu fylgja. Í því efni er einnig vísað til þess að þokkaleg launakjör dómara stuðli að sjálfstæði þeirra og vernd stéttarinnar fyrir utanaðkomandi þrýstingi á ákvarðanir dómara og hegðun. Þá er í öðru lagi lögð áhersla á að laun og kjör dómara skuli tryggð með lögum og skuli sæta reglulegri endurskoðun og að laun dómara verði ekki lækkuð á skipunartíma þeirra. Loks er í þessum alþjóðlegu reglum fjallað um eftirlaun dómara. Í umsögninni leggur félagið áherslu á að tillögur um framtíðarskipan launaákvarðana dómara taki mið af sjálfstæði dómsvaldsins samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár, laga og alþjóðlegra samþykkta, og þá túlkun stjórnarskrár sem lögð var til grundvallar í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-1939/2006. Hvað varðar launaákvarðanir samkvæmt frumvarpsdrögum er tekið fram í umsögn félagsins að verði frumvarpið samþykkt óbreytt feli það í sér að laun dómara verði við gildistöku þau sömu og kjararáð ákvað í árslok 2015 að viðbættri almennri hækkun samkvæmt úrskurði ráðsins í júní 2016. Slík lagasetning myndi í reynd leiða til skerðingar á starfskjörum dómara miðað við breytingar sem voru gerðar á starfsumhverfi dómara með lögum nr. 50/2016 og þróun vísitölu. Telur félagið viðbúið að á það muni reyna hvort slík lagasetning samrýmist þeim sjónarmiðum sem leidd verða af grunnreglu 2. og 70. gr. stjórnarskrárinnar samkvæmt fyrrnefndum dómi og eftir atvikum alþjóðlegum eftirlitsaðilum. Félagið gerir nokkrar athugasemdir við þá tilhögun að laun skuli taka breytingum 1. maí ár hvert til samræmis við breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna eins og þær birtast í tölum Hagstofunnar. Athugasemdir félagsins eru eftirfarandi: 1. Verði ákvæðið óbreytt að lögum þýði það að laun dómara verði fryst í tæplega þrjú ár og hækkunin sem þá er gert ráð fyrir að verði ákveðin taki mið af launabreytingum miðað við tiltekna launaþróun á árinu 2018. Að mati félagsins er nauðsynlegt að taka tillit til þessa, annaðhvort með því að ákveða grunnlaunasetningu í lögunum miðað við breytingar á launavísitölu frá miðju ári 2016 til gildistöku laganna, eða með bráðabirgðaákvæði í lögunum, þar sem kveðið verði á um að við ákvörðun um breytingar á launum 1. maí 2019 verði miðað við breytingar sem orðið hafa á launum frá 1. júní 2016. 2. Hvorki í lagatextanum sjálfum né í athugasemdum í greinargerð sé að finna skýringar á því hvernig ákvæðið um breytingar á launum skuli útfært, svo sem hverjum sé falið að reikna út launabreytingarnar, hver beri ábyrgð á því að koma þeim til framkvæmda eða hvort gert sé ráð fyrir að það verði gert með breytingum á lögunum sjálfum. 3. Félagið telur mikilvægt að í lagaákvæðinu sjálfu og í skýringum í greinargerð verði vísað til þeirra skyldna sem leiðir af ákvæðum stjórnarskrár og alþjóðlegra skuldbindinga að því er launaákvarðanir dómara varðar. 4. Ekki sé vikið að því í lögskýringargögnum hvað nánar felst í útreikningi viðmiðs sem taki mið af því sem kallað er meðaltal reglulegra launa ríkisstarfsmanna eins og þær birtast í tölum Hagstofunnar og því nauðsynlegt að skýra nánar þetta viðmið og jafnframt vísa til þess hvort forsendur útreiknings geti tekið breytingum og hvaða áhrif það hafi á launaákvarðanir þeirra hópa sem eru tengdir við þessa vísitölu. 5. Félagið gerir verulegar athugasemdir við það fyrirkomulag að gert sé ráð fyrir því að fella niður með öllu samtal á milli þess eða þeirra sem taki ákvörðun um launabreytingar og þeirra sem launabreytingin varðar. 6. Loks telur félagið mikilvægt að skýrt sé að lögin leiði ekki til þess að lífeyriskjör dómara verði skert og nauðsynlegt að það komi afdráttarlaust fram í frumvarpinu. Í umsögn dómstólasýslunnar er vakin athygli á samþykkt kjararáðs á erindi dómstólasýslunnar um heimild hennar til að mæla fyrir um hámark á ferða- og dvalarkostnað í reglum um námsleyfi dómara. Í umsögn Prestafélags Íslands árréttar félagið þá einstöku stöðu prestastéttarinnar að hún býr við lögvarinn rétt skv. 60. gr. laga nr. 78/1997, um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, til þess að óvilhallur aðili ákvarði launakjör hennar. Niðurlagning kjararáðs feli því í sér að nauðsynlegt sé að annað komi í staðinn. Eins og með aðra samninga er það jafnframt réttur og ábyrgð allra sem að þeim koma að hafa áhrif á endurskoðun þeirra og er félagið fúst til slíks samtals. Samkvæmt umsögn Seðlabanka Íslands telur bankinn heppilegast að ákvörðunarvald um laun seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra verði fært aftur til þess horfs sem gilti frá 1961–2009, þ.e. til bankaráðs. Það væri auk þess í samræmi við tillögur starfshópsins um málefni kjararáðs. Verði hins vegar sú leið valin að festa krónutölufjárhæð launa seðlabankastjóra í lög leggur bankinn áherslu á að sú fjárhæð verði í samhengi við laun og launaþróun á undanförnum árum. Minnir bankinn á að meðal mála sem ólokið var þegar kjararáð var lagt niður voru laun seðlabankastjóra og að þau hafi ekki breyst síðan 2016. Einnig kemur fram í umsögn bankans að ekki sé vikið að biðlaunarétti seðlabankastjóra í frumvarpsdrögunum og verði ekki annað séð en að um seðlabankastjóra eigi að gilda ákvæði 35. gr. laga nr. 70/1996. Fram í kemur umsögninni að réttur núverandi seðlabankastjóra sé tólf mánuðir en væri þrír mánuðir skv. 35. gr. laga nr. 70/1996. Öðrum starfsmönnum bankans sem njóta kjarasamnings Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja verði hins vegar ekki sagt upp störfum með skemmri fyrirvara en sex mánaða uppsagnarfresti hafi þeir starfað a.m.k. tíu ár í fjármálafyrirtæki eða náð 45 ára aldri. Telur bankinn að eðlilegt sé að taka tillit til þess að seðlabankastjóri getur lengst setið í tíu ár. Jafnframt leggst bankinn eindregið gegn aðskilnaði ákvörðunarvalds um laun seðlabankastjóra annars vegar og aðstoðarseðlabankastjóra hins vegar þar sem þessi embætti séu svo náskyld í eðli sínu að afar óheppilegt sé að viðhafa ólíkar aðferðir við ákvörðun launa þeirra auk þess sem það er á skjön við þá stefnu sem virðist mörkuð í frumvarpsdrögunum um ýmsar aðrar tengdar stöður. Í umsögn vararíkissaksóknara er vakin athygli á þeirri þörf að kveða á um önnur starfskjör þeirra sem undir lögin heyra með sama hætti og gert var um þá sem heyrðu undir kjararáð. Einnig er vakin athygli á þeim erindum sem voru til meðferðar hjá kjararáði þegar það var lagt niður og þörf á að tekin verði afstaða til þess hver og hvernig eigi að vinna úr þessum erindum. Jafnframt er vakin athygli á því að almenn ákvörðun um hækkun launataxta embættismanna er frá 1. júní 2016 og því eðlilegt að horfa til þess til hækkunar launa þeirra sem frumvarpið tekur til. Frumvarpinu hefur að nokkru leyti verið breytt í ljósi umsagna sem bárust.

Málsefni

Með frumvarpinu er stefnt að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðanna þeirra er heyrðu undir ákvörðunarvald kjararáðs samkvæmt lögum nr. 130/2016.

Nánari upplýsingar

Ríkisstjórnin ákvað í janúar sl., að höfðu samráði við heildarsamtök á vinnumarkaði, að skipa starfshóp um kjararáð. Forsætisráðherra skipaði starfshópinn 23. janúar sl. og átti hann að bera saman fyrirkomulag um ákvörðun launa hjá kjörnum fulltrúum, dómurum og embættismönnum í nágrannalöndum og leggja fram tillögur að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðana kjararáðs, sé annað fyrirkomulag talið líklegra til betri sáttar í þjóðfélaginu til framtíðar um ákvörðun launa þeirra sem stöðu sinnar vegna njóta ekki samningsréttar. Þá átti starfshópurinn að taka til skoðunar úrskurði kjararáðs, meta með hliðsjón af launasetningu og launabreytingum þeirra stétta sem samningsfrelsis njóta og þeirri launastefnu sem samið var um við meginþorra launafólks og eftir atvikum leggja fram tillögur um úrbætur. Starfshópurinn skilaði skýrslu til forsætisráðherra þann 15. febrúar sl. Var skýrslan birt á vef Stjórnarráðsins sama dag.

Með frumvarpinu er stefnt að breyttu fyrirkomulagi launaákvarðanna þeirra er heyrðu undir ákvörðunarvald kjararáðs sem felst í því að ákvörðun launa þeirra sem féllu undir úrskurðarvald kjararáðs er skipað með hliðsjón af þeim tillögum sem starfshópur um kjararáð lagði til í skýrslu sinni.

Í frumvarpinu er lagt til:

-að laun þjóðkjörinna manna verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð og þau síðan endurákvörðuð hinn 1. maí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna.

-að laun dómara, saksóknara, ráðherra, ríkissáttasemjara og seðlabankastjóra verði ákvörðuð í lögum með fastri krónutölufjárhæð fyrir dagvinnu og álagi fyrir yfirvinnu miðað við tiltekið tímamark og þau síðan endurákvörðuð hinn 1. maí ár hvert miðað við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna.

-að laun og starfskjör ráðuneytisstjóra, forsetaritara, nefndamanna í fullu starfi hjá nokkrum úrskurðarnefndum verði ákvörðuð með hliðsjón af því fyrirkomulagi sem ákveðið er í 39. gr. a laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

-að laun og starfskjör skrifstofustjóra sem heyra undir ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga verði ákvörðuð af ráðherra með hliðsjón af kjarasamningi þeim sem aðrir skrifstofustjórar falla undir.

-að laun og starfskjör aðstoðarseðlabankastjóra og sendiherra falli undir kjarasamninga og að viðkomandi stéttarfélag semji fyrir þeirra hönd.

-að ákvörðun um laun og starfskjör Biskups Íslands og starfsmanna þjóðkirkjunnar, sbr. 60. gr. laga um stöðu stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr. 78/1997, verði fastsett miðað við krónutölufjárhæðir í ákvörðun kjararáðs þann 17. desember 2017 og taki síðan breytingum 1. maí ár hvert í samræmi við hlutfallslega breytingu á meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna eins og þær birtast í tölum Hagstofu Íslands fyrir næstliðið almanaksár þar til nýtt samkomulag hefur náðst við þjóðkirkjuna um launafyrirkomulag.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa stjórnunar og umbóta

postur@fjr.is