Samráð fyrirhugað 20.06.2018—20.08.2018
Til umsagnar 20.06.2018—20.08.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 20.08.2018
Niðurstöður birtar 20.12.2018

Drög að reglugerð um starfsleyfi til félagasamtaka, sjálfseignarstofnana og annarra einkaaðila sem veita félagsþjónustu

Mál nr. 78/2018 Birt: 20.06.2018 Síðast uppfært: 20.12.2018
  • Velferðarráðuneytið
  • Drög að reglugerð
  • Málefnasvið:
  • Fjölskyldumál

Niðurstöður birtar

Alls bárust þrjár umsagnir, tvær í samráðsgátt og ein í tölvupósti til ráðuneytis. Tekið var tillit til athugasemda eftir atvikum. Reglugerðin hefur verið birt á vef Stjórnartíðinda undir númerinu 1034/2018 https://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/velferdarraduneyti/nr/21285

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 20.06.2018–20.08.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 20.12.2018.

Málsefni

Velferðarráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að reglugerð um starfsleyfi til félagasamtaka, sjálfseignarstofnana og annarra einkaaðila sem veita félagsþjónustu skv. lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Samhliða gildistöku laga nr. 37/2018, um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga er stefnt að birtingu reglugerðar, um starfsleyfi til félagasamtaka, sjálfseignarstofnana og annarra einkaaðila sem veita félagsþjónustu, með stoð í lögunum.

Tengd mál

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Kristín Ösp Jónsdóttir - 15.08.2018

Meðfylgjandi eru athugasemdir velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna reglugerðar um starfsleyfi til félagasamtaka, sjálfseignarstofnana og annarra einkaaðila sem veita félagsþjónustu.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Þroskahjálp,landssamtök - 20.08.2018

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um starfsleyfi til félagasamtaka, sjálfseignarstofnana og annarra einkaaðila sem veita félagsþjónustu.

Landssamtökin þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi reglugerðardrögin.

2. gr. Markmið.

Samtökin telja rétt að í greininni verði tekið fram að markmiðið sé einnig að tryggja betur en nú er að unnt sé að veita fötluðu fólki betri vernd gegn líkamlegu eða andlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi meðferð eða óásættanlegri framkomu sem og vernd gegn fjárhagslegri misnotkun.

6. gr. Skilyrði starfsleyfis.

6. gr. reglugerðardraganna hljóðar svo:

Til þess að rekstaraðili fái útgefið starfsleyfi samkvæmt reglugerð þessari skal hann uppfylla eftirfarandi skilyrði:

1. Þjónustu- og rekstraraðili og starfsmenn hans hafi ekki hlotið dóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla, 211. gr. eða 218. gr. almennra hegningarlaga. Hafi viðkomandi verið dæmdur til refsingar fyrir brot á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga skal meta áhrif þess á hæfi viðkomandi til að gegna því starfi sem um ræðir, m.a. að teknu tilliti til eðlis starfseminnar og alvarleika brotsins.

2. Húsnæði fullnægi kröfum laga og reglugerða um aðgengi og á sviði hollustuhátta og bygginga- og brunamála.

3. Lögð sé fram rekstraráætlun sem tilgreini leiðir til öflunar rekstrarfjár og fyrirhugaða nýtingu þess.

4. Þjónustu- og rekstraraðili uppfylli að öðru leyti kröfur laga og reglugerða eftir því sem við á um reksturinn og þjónustuna.

5. Ekki liggi fyrir önnur málefnaleg sjónarmið sem mæla gegn veitingu starfsleyfis m.t.t. þess rekstrar sem um ræðir og starfsleyfið nær til.

Með vísan til 26. gr. laga nr. 38/2018 er lagt til að við 1. tl. verði bætt eftirfarandi málslið:

Sama gildir um verktaka og undirverktaka sem ráðnir eru til að sinna verkefnum í þjónustu við fatlað fólk á vegum þjónustu- og rekstraraðila.

Þá er lagt til að bætt verði inn í greinina eftirfarandi tveimur töluliðum sem verði 3. og 4. tl. og breytist númer annarra töluliða samkvæmt því:

3. Lögð sé fram áætlun um starfmannhald, þ.m.t. upplýsingar um menntun starfsmanna.

4. Yfirlýsing rekstraraðila um að hann skuldbindi sig til að hann og annað starfsfólk undirgangist ákvæði um skyldur starfsmanna, þagnarskyldu og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 27. – 29. gr. laga nr. 38/2018.

Samtökin telja rétt að kveðið verði á um það í reglugerðinni að aðili sem sækir um starfsleyfi þurfi að leggja fram með umsókn til velferðarráðuneytis sakavottorð þjónustu- og rekstraraðila og starfsmanna hans. Þá telja samtökin það sama eiga við ef nýir starfsmenn koma til starfa eða ef ábyrgðar- og / eða rekstraraðili hefur ástæðu til að ætla að rekstraraðili eða starfsmaður hafi fengið dóm sem kunni að falla undir 1. tl. greinarinnar. Ef ekki er gerð krafa um framangreint verður ekki séð að unnt sé að halda uppi nauðsynlegu og fullnægjandi eftirliti með ákvæðum 1. tl. greinarinnar.

1. mgr. 7. gr. Útgáfa starfsleyfis.

Málsgreinin hljóðar svo:

Ráðuneytið skal afla umsagnar notendaráðs fatlaðs fólks í því sveitarfélagi sem starfsemin er, áður en umsókn um starfsleyfi er tekin til afgreiðslu.

Þarf ekki að kveða á um hvernig með skuli farið ef ekki er notendaráð í viðkomandi sveitarfélagi?

10. gr. Breytingar á leyfisskyldri starfsemi.

Greinin hljóðar svo:

Þjónustu- og rekstraraðila ber að veita velferðarráðuneytinu og ábyrgðaraðila sé honum til að dreifa upplýsingarum breytingar sem kunna að verða á rekstri starfseminnar eða skipulagningu og veitingu þjónustunnar, án ástæðulauss dráttar.

Ráðuneytið metur upplýsingar skv. 1. mgr., innan fjögurra vikna frá móttöku þeirra og tilkynnir þjónustu- og rekstraraðila skriflega hvort nauðsynlegt sé að gefa út nýtt starfsleyfi. Ber þá umsækjanda að leggja fram umsókn þess efnis í samræmi við ákvæði 7. gr. reglugerðar þessarar.

Starfsleyfishafa er óheimilt að semja við þriðja aðila um að annast einhverja þá þætti sem liggja til grundvallar veitingu starfsleyfis nema viðsemjandi hafi gilt starfsleyfi til þess þáttar sem um ræðir. Starfsleyfishafa er þó heimilt að semja við þriðja aðila um að annast afmarkaða rekstrar- eða þjónustuþætti sem ekki liggja til grundvallar veitingu starfsleyfis.

Taki nýr þjónustu- og rekstraraðili við starfsemi sem hefur gilt starfsleyfi er ráðuneytinu heimilt, að fenginni umsókn þar um, að færa starfsleyfið á nýjan þjónustu- og rekstraraðila án þess að gefið verði út nýtt starfsleyfi enda verði engin önnur breyting á starfseminni. Með þessu færast öll skilyrði, réttindi og skyldur sem felast í starfsleyfinu yfir á hinn nýja starfsleyfishafa.

Samtökin leggja til í 1. mgr. verði kveðið með skýrari hætti á um skyldu til að tilkynna um breytingar þannig að í stað „án ástæðulauss dráttar“ komi „svo skjótt sem verða má og aldrei síðar en 7 dögum eftir að honum mátti vera ljóst að um tilkynningarskyldar breytingar var að ræða“.

Samtökin telja mjög æskilegt m.t.t. markmiða reglugerðarinnar og nauðsynlegs eftirlits að þegar nýr þjónustu- og rekstraraðili tekur við leyfisskyldri starfsemi þurfi að sækja um starfsleyfi fyrir hann og að metið verði hvort hann uppfyllir ekki öll skilyrði til að fá slíkt leyfi. Lagt er til að 4. mgr. greinarinnar verði breytt til samræmis við það.