Samráð fyrirhugað 05.02.2018—28.02.2018
Til umsagnar 05.02.2018—28.02.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 28.02.2018
Niðurstöður birtar 05.04.2019

Heildarendurskoðun jafnréttislaga

Mál nr. 8/2018 Birt: 05.02.2018 Síðast uppfært: 09.04.2019
  • Velferðarráðuneytið
  • Áform um lagasetningu
  • Málefnasvið:
  • Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála

Niðurstöður birtar

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, skipaði í febrúar 2018 starfshóp sérfræðinga til að hefja undirbúning að heildarendurskoðun laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Starfshópnum er ætlað vinna úttekt á þróun, framkvæmd og eftirfylgni íslenskrar jafnréttislöggjafar og stjórnsýslu jafnréttismála. Kanna skal hvort stjórnsýsla jafnréttismála og markmið núgildandi laga séu í samræmi við alþjóðlega þróun og breytingar í íslensku samfélagi. Starfshópnum er gert að skila minnisblaði um niðurstöður sínar til ráðherra jafnréttismála og skýrslu til þverpólitískrar nefndar um endurskoðun jafnréttislaga og framtíðarskipan stjórnsýslu jafnréttismála. Ákveðið var að hefja samráðsferlið með því að óska eftir umsögnum um gildandi löggjöf sem og tillögum að breytingum í opnu umsagnarferli. Alls bárust sjö umsagnir um lögin. Fjölmiðlanefnd fjallaði í innsendri umsögn um tengingu jafnréttislaga við lög um fjölmiðla og ákvæði um hatursorðræðu í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 og taldi að rétt væri að taka til skoðunar hvort bæta eigi hugtakinu kyn eða kynferði við upptalningu 233. gr. a almennra hegningarlaga. Telur nefndin að ákvæði jafnréttislaga eigi sér samsvörun í 233. gr. a í almennum hegningarlögum og 27. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla. Ingólfur V. Gíslason, dósent í félagsfræði hvatti í innsendri umsögn til endurskoðunar á lögbundnu hlutverki Jafnréttisráðs. Samtök kvenna af erlendum uppruna hvetja til þess í sinni umsögn að fulltrúi innflytjenda verði skipaður í Jafnréttisráð. Kvenréttindafélag Íslands telur í sinni umsögn að starfshópurinn þurfi að fjalla sérstaklega um hlutverk Jafnréttisráðs og stöðu þess innan stjórnsýslunnar en meta þurfi hvort að hægt sé með skilvirkari hætt að tryggja aðkomu kvennahreyfingarinnar og samtaka aðila vinnumarkaðarins og stefnumótun stjórnvalda. Þá telur félagið einnig að skerpa þurfi gildissvið laganna í 1. kafla þeirra og að mikilvægt sé að kveða á um forgangsrétt jafnréttislaga, þ.e.a.s. að þau gildi um öll svið stjórnsýslunnar og ríkisvalds og að þau gangi framar öðrum lögum. Kvenréttindafélagið sendi auk þess inn athugasemdir við nokkrar greinar jafnréttislaga og verður sérstaklega fjallað um þær í vinnu starfshópsins. Samband íslenskra sveitarfélaga sendi ítarlega umsögn þar sem m.a. er fjallað um útvíkkun á eftirlitshlutverki Jafnréttisstofu og hlutverki kærunefndar jafnréttismála og hvatti til þess að skoðað verði sérstaklega hvort lögin veiti þeim sem sækja mál fyrir nefndinni næga réttarvernd. Samtökin 78 benda í sinni umsögn á nauðsyn þess að útvíkka jafnréttishugtakið í íslenskri löggjöf þannig að það nái m.a. til allra kynja og að nauðsynlegt sé að málefni hinsegin fólks verði málaflokkur hjá stofnun í stjórnkerfinu. Landssamtökin Þroskahjálp leggja í innsendri umsögn sérstaka áherslu á að við endurskoðun á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla verði sérstaklega litið til veikrar stöðu fatlaðra kvenna og stúlkna sem séu berskjaldaðar fyrir margþættri mismunun á flestum sviðum samfélagsins. Farið verður yfir allar umsagnir í áframhaldandi vinnu við stefnumótun jafnréttismála og tekið verður tillit til athugasemda eftir því sem tilefni verður til. Málaflokkurinn heyrir nú undir forsætisráðuneytið.

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 05.02.2018–28.02.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 05.04.2019.

Málsefni

Velferðarráðuneytið óskar eftir umsögnum og tillögum að breytingum á gildandi löggjöf vegna heildarendurskoðunar laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.

Skipaður hefur verið starfshópur sem samanstendur af fulltrúum frá velferðarráðuneytinu, dómsmálaráðuneytinu og Jafnréttisstofu til að hefja undirbúning að heildarendurskoðun laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnframt kemur starfshópurinn til með að funda með öðrum sérfræðingum eftir þörfum, þar með talið frá aðilum á vinnumarkaði, frjálsum félagasamtökum o.fl.

Félags- og jafnréttismálaráðherra kemur auk þess til með að skipa þverpólitíska nefnd sem mun hafa það hlutverk að skila til ráðherra drögum að lagafrumvarpi sem ætlað er að stuðla frekar að jafnrétti kynjanna með aukinni skilvirkni og eflingu úrræða auk tillögu að framtíðarskipan stjórnsýslu jafnréttismála.

Starfshópurinn hefur ákveðið að undirbúa störf sín með því að óska eftir umsögnum við gildandi löggjöf og tillögum að breytingum með umfjöllun um mikilvægi þeirra. Allir sem láta sig málið varða eru hvattir til að senda inn ábendingar og athugasemdir.