Samráð fyrirhugað 01.07.2018—24.08.2018
Til umsagnar 01.07.2018—24.08.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 24.08.2018
Niðurstöður birtar 14.09.2021

Umhverfismat samgönguáætlunar 2019-2033 til kynningar

Mál nr. 84/2018 Birt: 29.06.2018 Síðast uppfært: 14.09.2021
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Umhverfisskýrsla samgönguáætlunar var lögð fram til kynningar, umsagna og athugasemda þann 29. júní 2018 og var frestur til að skila athugasemda og umsagna var til 24. ágúst . Alls bárust umsagnir og athugasemdir frá 17 aðilum. Athugasemdirnar sneru flestar að losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, leiðum til að draga úr þeim m.a. með orkuskiptum, vatnsvernd og stað- og svæðisbundinni mengun.
Meðfylgjandi er yfirlit yfir þær breytingar sem gerðar voru í kjölfar umsagnartíma.

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 01.07.2018–24.08.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 14.09.2021.

Málsefni

Samgönguráð auglýsir umhverfismat tillögu að samgönguáætlun 2019-2033 til kynningar skv. lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Mörkuð er stefna fyrir allar greinar samgangna næstu fimmtán ár. Með umhverfismatinu hafa verið skilgreind helstu áhrif og aðgerðir til að dregið verði úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

Samgönguráð auglýsir nú umhverfismat tillögu að samgönguáætlun 2019-2033 til kynningar, í samræmi við lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Frestur til að gera athugasemdir við umhverfismatið er til og með 13. ágúst 2018.

Tillaga samgönguráðs að samgönguáætlun er unnin í samræmi við lög nr. 33/2008 um samgönguáætlun. Þar er mörkuð stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna næstu fimmtán árin. Með umhverfismatinu hafa verið skilgreind helstu áhrif sem kunna að verða vegna samgönguáætlunar og aðgerðir sem ráðast þarf í til að tryggja að dregið verði úr líklegum neikvæðum umhverfisáhrifum áætlunarinnar.

Í drögum að tillögu að samgönguáætlun 2019-2033, sem voru til grundvallar umhverfismatinu, koma fram markmið og áherslur áætlunarinnar auk stærri framkvæmda sem eru í undirbúningi og skoðun. Gerður er fyrirvari um að það ráðist af fjármagni og framvindu undirbúnings í hvaða framkvæmdir verður hægt að ráðast á tímabilinu.

Umhverfismat samgönguáætlunar er kynnt bæði hér á samráðsgáttinni og vef Stjórnarráðsins, stjornarradid.is. Þá liggur það frammi til kynningar ásamt drögum að samgönguáætlun hjá eftirtöldum samgöngustofnunum

• Samgöngustofu, Ármúla 2, 108 Reykjavík

• Vegagerðinni, Borgartúni 5-7, 105 Reykjavík

Athugasemdir skal senda gegnum samráðsgáttina. Einnig er unnt að senda athugasemdir bréfleiðis, merktar umhverfismat, á samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Sölvhólsgötu 7, 101 Reykjavík eða með tölvupósti á netfangið samgongurad@srn.is. Frestur til að gera athugasemdir við umhverfismat samgönguáætlunar er, sem fyrr segir,til og með 13. ágúst 2018.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Viðar Freyr Guðmundsson - 03.07.2018

Víða um heim tekur allt að tvöfalt lengri tíma að ferðast með almenningssamgöngum (USA og Kanada) heldur en með einkabíl. Það vantar alveg í þessar áætlanir, eins og fyrri áætlanir og greiningar á umferð að taka þetta inn í reikninginn.

1. Hversu mikið lengri tíma tekur að ferðast (dyr að dyrum) með almenningssamgöngum versus akandi

2. Hversu mikill má vænta að munurinn verði með fyrirhuguðum aðgerðum í almenningssamgöngum (borgarlína sem dæmi)

3. Hversu mikið meiri tíma til viðbótar má ætla að fari til spillis ef áætlanir um breyttar ferðavenjur ná fram að ganga

4. Hversu mikið er framleiðslutap þjóðarbúsins miðað við þann tíma sem fer til spillis við að stór auka ferðatíma

Í þessu samhengi mætti benda á að rannsóknir á ferðatíma fólks sýna að það hefur fjölbreytt áhrif á líf fólks og aukin áhersla á almenningssamgöngur á kostnað einkabíla gæti leitt til lengri ferðatíma fyrir ákveðin ferðamyndunarsvæði.:

1. Rannsóknir sýna að lengri ferðatími hefur áhrif á fasteignaverð og þannig gæti hallað á þá sem búa á ódýrari svæðum

2. Rannsóknir sýna neikvæð áhrif á velgengni í skóla með lengri ferðatíma

3. Rannsóknir sýna að lengri ferðatími eykur stress hjá fólki og líkur á árekstri milli vinnu og fjölskyldulífs. Þessi áhrif eru meiri fyrir konur.

4. Rannsókn í Bretlandi sýndi að 20 mínútna aukning í ferðatíma væri á við 19% launalækkun með því að minnka bæði ánægju af starfi og frítíma. Þetta á sérstaklega við ferðir með strætó eða lest.

5. Fjöldi rannsókna sýna að lengri ferðatími eykur líkur á ýmsums líkamlegum kvillum: bakverkir, stress, þreyta, svefnleysi, pirringur og meiri líkur á bræðisköstum. Ásamt því að minnka líkur á að fólk stundi heilsusamlega hreyfingu.

Það hlýtur að þurfa að skoða alla þessa hluti sem hindranir við að breyta ferðamátavali fólks. Enda sýnir ferðavenjukönnun Gallup líka að stærsta ástæðan fyrir að fólk notar ekki strætó í meira mæli er að það sé of tímafrekt. Þannig að það er stór galli í öllum áætlunum sem miða að því að ferðavenjur breytist að skoða ekki þennan þátt málsins.

Heimildir:

https://www150.statcan.gc.ca/…/daily-q…/171129/t002c-eng.htm

https://www.inc.com/…/study-reveals-commute-time-impacts-jo…

http://arno.uvt.nl/show.cgi?fid=134792

https://www.duo.uio.no/…/h…/10852/53917/Jensen-10-11-16.pdf…

https://www.telegraph.co.uk/…/20-minute-increase-commute-t…/

https://edition.cnn.com/…/longer-commutes-health…/index.html

Afrita slóð á umsögn

#2 Þuríður Helga Benediktsdóttir - 23.08.2018

Innsent: VERKEFNASTJÓRI BB – SKAFTÁRHREPPUR TIL FRAMTÍÐAR 23.ágúst 2018

Umsögn varðandi tvö atriði i

Niðurstöðu umhverfismats SGÁ 2019-2033 – og áherslur ráðherra í tengslum við SGÁ 2019-2033

• Aukin umferð vegna ferðaþjónustu skapa áskoranir vegna mengunar- og öryggismála.

ÖRYGGISMÁL

Öruggt grunnkerfi: Í ljósi mikillar fjölgunar ferðamanna á vegum landsins – akandi um í bílaleigubílum og/eða eigin innfluttum bílum og til þess að stuðla að öryggi umferðar ALLRA (bæði erlenda ferðamannsins og okkar íslendinganna) er eftirfarandi umsögn lögð fram;

Hluti af því að stuðla að öflugu grunnneti samgangna og öryggi allra er að tryggja UMFERÐARHEGÐAN og ÖKUHÆFNI þeirra ökumanna sem keyra hér um vegina.

Erlendir ökumenn séu krafðir um framvísan ALÞJÓÐLEGS ÖKURSKÍRTEINIS, bæði þegar sinna viðskiptum sínum við BÍLALEIGUR landsins og til FRAMVÍSUNAR gagnvart yfirvöldum. Erlendur ökumaður hefur þá þurft að sækja um slíkt skírteini í gegnum sitt yfirvald og þannig sannanlega tryggt gilt ökuskírteini í notkun á vegakerfi Íslands. Auk þess sem það að krefjast ALÞJÓÐLEGS ÖKUSKÍRTEININS til að mega keyra á íslenskum vegum tel ég einmitt setja meiri „lúxus-stimpil“ á ferðaþjónustu á Íslandi – meiri virðing gagnvart samgöngukerfinu og náttúrinni hjá ERLENDA ferðamanninum sem tekur sér ferð á hendur á Íslandi.

Tafla 4.3……………..síða 24

Eftirlit og úttektir

Tryggðar verði réttar skráningar farartækja og að skírteini stjórnenda

séu í samræmi við gildandi reglur og alþjóðlegar skuldbindingar

..ofangreind umsögn, fellur algerlega hér undir – EN…………..???

MENGUNARMÁL

Síða 16:

Bílaleigur standa að baki ríflega fjórðungi vaxtar í heildarfjölda bíla á götunum frá 2011.

Hver er hlutur umhverfisvænna bifreiða bílaleiga, ef horft er á losun GróðurHúsaLofttegunda ? Hluti af vegferðinni í átt að „grænni framtíð“ ER ÞAÐ EKKI M.A. að setja einhverjar skyldur á bílaleigur að einhver ákveðinn /AÐ LOKUM ALLUR) hluti flota þeirra sé umhverfisvæn bifreiðategund !! - …bæði jákvæð ímyndaráhrif á ÍSLAND og jákvæð áhrif á GHL-mælikvarða Íslands

• Við forgangsröðun í vegamálum verði sérstaklega litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða.

o Að breyting vegarkaflans á þjóðvegi 1 (1a3,a4) frá Hörgsá og austur fyrir Foss sé ekki á framkvæmda áætlun, styður ekki ofangreint markmið um öryggi, feraþjónustu og „sérstöðu“ svæðis, þar sem þetta er mjög fjölfarið svæði , sjálfsprottnir áfangastaðir , og þétt upp við íbúabyggð og vettvang starfseni bóndans.

o Vegur 208 Skaftártunguvegur: Hringvegur–Búlandsvegur, sem talinn hefur verið upp til stofnvega Vegagerðarinnar (skv. skilgr. Vegaerðar) er enn ekki í tilhlýðilegu ástandi með t.d. bundnu slitlagi , miðað við forgangsröðun vegna ferðaþjónustu inngangur að Fjallabaksvegum

o Vegur 204 – Meðallandshringur, áætlaðar framkvæmdir á honum uppfylla engan veginn þessi markmið um forgangsröðun vegna ferðaþjónustu og ólíkrar stöðu svæða, auk öryggissjónarmiða - nærtæk og raunveruleg tilvik síðasta árið hafa sýnt nauðsyn þessa vegar sem hjáleið fyrir þjóðveg 1 í gegnum Eldhraunið.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Samtök atvinnulífsins - 24.08.2018

Meðfylgjandi er sameiginleg umsögn SA, SI, SVÞ og SAF um umhverfismat samgönguáætlunar 2019-2033

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Baldur Dýrfjörð - 24.08.2018

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

bt. Ásta Þorleifsdóttir

Hjálögð er umsögn Samorku um drög að umhverfismati samgönguáætlunar 2019-2033

Í umsögn sinni leggur Samorka áherslu á mikilvægi þess að fjallað sé sérstaklega um vatnsvernd og aðgengi almennings að hreinu og heilnæmu neysluvatni. Greina þarf áhætturnar og fara í viðeigandi aðgerðir þar sem vegir liggja nærri eða um vatnsverndarsvæði. Þá fagnar Samorka því að fjallað er ítarlega um orkuskipti í samgöngum, en bendir á að fjalla mætti frekar um innviða uppbyggingu hleðslustöðva fyrir rafbíla og afgreiðslustöðva fyrir metan og vetni.

Með kveðju,

f.h. Samorku

Baldur Dýrfjörð

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#5 Heiða Aðalsteinsdóttir - 24.08.2018

Umsögn Orkuveitu Reykjavíkur, Orku náttúrunnar og Veitna um umhverfismat Samgönguáætlunar 2019-2033

Samgönguráð auglýsti umhverfismat tillögu að samgönguáætlun 2019-2033 til kynningar skv. lögum nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Umhverfismatið var auglýst á samráðsgátt, með fresti til athugasemda til 24.08.2018.

Í viðhengi eru athugasemdir Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaganna Veitna og Orku náttúrunnar við tillöguna. Þar sem eftirleiðis er vísað til OR er því verið að vísa til fyrirtækjanna þriggja í heild og afstöðu þeirra. Umsögninni er skipt niður í almenna umsögn um áherslur umhverfismats í heild sinni annars vegar og athugasemdir við valda kafla í umhverfisskýrslu hins vegar.

Viðhengi