Samráð fyrirhugað
Samráð stendur yfir 04.07.2018 - 30.08.2018
Niðurstöður í vinnslu
Niðurstöður birtar

Grænbók sem liður í stefnumótun á málefnasviði hagskýrslugerðar, grunnskráa og upplýsingamála.

Mál nr. S-88/2018 Stofnað: 03.07.2018 Síðast uppfært: 16.08.2018
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að stefnu
  • Málefnasvið:
  • Hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál

Niðurstöður í vinnslu

Umsagnarfrestur er liðinn (04.07.2018-30.08.2018). Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Málsefni

Í grænbókinni eru upplýsingar um viðfangsefni hagskýrslugerðar, grunnskráa og upplýsingamála, stöðu, tölfræði og umfjöllun um ólíkar leiðir eða áherslur til að mæta þeim áskorunum sem við blasa.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið, óska eftir umsögnum um drög að grænbók er varðar hagskýrslugerð, grunnskrár og upplýsingamál. Undir málefnasviðin falla verkefni þriggja stofnanna, Hagstofu Íslands, Landmælingar Íslands og Þjóðskrár Íslands. Starfsemi málefnasviðsins er því á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og forsætisráðherra.

Í júnímánuði 2017 hófst stefnumótunarvinna á vegum ráðuneytanna með þátttöku Sambands íslenskra sveitarfélaga og var ráðgjafafyrirtækið Capacent fengið til aðstoðar. Samhliða var unnið að samræmdu stefnumótunarferli og mótun skapalóna/forma fyrir þau skjöl sem verða til í opinberri stefnumótun almennt og eiga að nýtast öllum ráðuneytum.

Umsögnum skal skilað eigi síðar en 30. ágúst 2018 í samráðsgátt http://samradsgatt.island.is eða á netfangið srn@srn.is

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Magnús Guðmundsson - 07.08.2018

Þann 3. júlí 2018 voru birt drög að stefnu Grænbókar sem liður í stefnumótun á málefnasviði hagskýrslugerðar, grunnskráa og upplýsingamál á samráðsgátt Stjórnarráð Íslands. Landmælingar Íslands vilja koma nokkrum ábendingum og athugasemdum á framfæri við drögin. Athugasemdirnar eru í meðfylgjandi word skjali.

Akranesi 7. ágúst 2018

Virðingarfylls

Magnús Guðmundsson

forstjóri Landmælinga Íslands

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#2 Hugrún Ösp Reynisdóttir - 14.08.2018

Umsögn Reykjavíkurborgar vegna „Grænbókar á málefnasviði 6: Hagskýslugerð, grunnskrár og upplýsingamál.‟

Reykjavíkurborg telur grænbókina leggja góðan grunn að stefnu í málaflokknum og fagnar allri viðleitni um aukna samvinnu ríkis og sveitarfélaga sem ávörpuð er í drögunum.

Framtíðarsýn og meginmarkmiðin grænbókarinnar eru skýr og áherslunar gefa góða hugmynd um hvert stefna skal. Reykjavíkurborg tekur undir mikilvægi þess að brýnt sé að tryggja að notendur beri ekki kostnað af notkun rafrænna skilríkja og styður aukna notkun á stafrænu pósthólfi á island.is og frekari þróun á island.is

Í drögunum er lögð sérstök áhersla á „að netöryggiskennsla eigi sér stað frá grunnskóla og upp á háskólastig“ (Á27). Borgin telur þetta orðalag vera of þröngt, þ.e. „netöryggiskennsla“, betra sé að tala um „stafræna borgaravitund (e. digital citizenship)“ og efla hana á öllum skólastigum sem og samfélaginu í heild sinni. Leggja mætti aukna áherslu á að draga fram fjölbreyttari möguleika í opinuberum innkaupum við kaup á vöru og þjónustu á sviði upplýsingatækni og einnig mætti gera umhverfismálum hærra undir höfði í stefnunni.

Að lokum lýsir Reykjavíkurborg sig reiðubúna til að leggja sitt af mörkunum við frekari stefnumótun á sviðinu og er tilbúin til að þátt í auknu samstarfi í málaflokknum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#3 Viðskiptaráð Íslands - 15.08.2018

Í meðfylgjandi viðhengi er umsögn Viðskiptaráðs Íslands.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#4 Þroskahjálp,landssamtök - 20.08.2018

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um grænbók sem lið í stefnumótun á málefnasviði hagskýrslugerðar, grunnskráa og upplýsingamála.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum og eru félagar í þeim u.þ.b. sex þúsund.

Samtökin vilja á þessu stigi sérstaklega koma eftirfarandi á framfæri.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum samningsins. Þessi mikilvægi mannréttindasamningur tekur til allra sviða samfélagsins og hefur það að markmiði að tryggja tækifæri fatlaðs fólks til virkrar þátttöku á öllum sviðum, án mismununar og aðgreiningar.

Í samningnum eru nokkur ákvæði sem stjórnvöld verða sérstaklega að líta til við þá vinnu sem um er fjallað í grænbókinni.

Aðgengi að upplýsingum, upplýsingatækni o.þ.h.

9. gr. samningsins hefur yfirskriftina Aðgengi. Þar segir:

1. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, einnig að upplýsinga- og samskiptatækni og kerfum þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem almenningi stendur opin eða er veitt, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Fyrrnefndar ráðstafanir, sem skulu felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til:

a) bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, einnig til skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisþjónustu og vinnustaða,

b) upplýsinga- og samskiptaþjónustu og annarrar þjónustu, einnig til rafrænnar þjónustu og neyðarþjónustu.

2. Aðildarríki skulu og gera viðeigandi ráðstafanir til þess að:

a) þróa, útbreiða og fylgjast með því að lágmarkskröfum og leiðbeiningum sé fullnægt viðvíkjandi aðgengi að aðstöðu og þjónustu sem almenningi stendur opin eða er veitt,

b) tryggja að einkaaðilar, sem bjóða fram aðstöðu og þjónustu sem almenningi stendur opin eða er veitt, taki mið af hvers kyns aðgengi fatlaðs fólks,

c) hagsmunaaðilum sé veitt fræðsla um aðgengismál sem varða fatlað fólk,

d) hafa leiðbeiningar með punktaletri og auðlesnar og auðskiljanlegar merkingar í bygg¬ingum og annarri aðstöðu, sem almenningi stendur opin,

e) láta í té ýmiss konar aðstoð á staðnum og þjónustu milliliða, þar á meðal fylgdar-manna, lesara og faglærðra táknmálstúlka, með það að markmiði að auðvelda aðgengi að byggingum og annarri aðstöðu sem almenningi stendur opin,

f) stuðla að því að fatlað fólk fái notið annars konar viðeigandi aðstoðar og þjónustu sem tryggir því aðgang að upplýsingum,

g) stuðla að aðgangi fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og kerfum þar að lútandi, einnig að Netinu,

h) við hönnun, þróun, framleiðslu og dreifingu aðgengilegrar upplýsinga- og samskipta-tækni og kerfa þar að lútandi sé frá upphafi unnið að því að slík tækni og kerfi verði aðgengileg með sem minnstum tilkostnaði.

Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun.

1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og fram¬fylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar. Aðferðir við að safna og viðhalda þessum upplýsingum skulu:

a) vera í samræmi við lögmætar verndarráðstafanir, einnig löggjöf um persónuvernd, til þess að tryggt sé að trúnaðarskylda sé virt og einkalíf fatlaðs fólks,

b) vera í samræmi við alþjóðlega viðurkenndar viðmiðunarreglur um vernd mannréttinda og mannfrelsis og siðareglur sem gilda um söfnun og notkun tölfræðilegra upplýsinga.

2. Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.

3. Aðildarríkin skulu ábyrgjast miðlun fyrrnefndra tölfræðilegra upplýsinga og tryggja fötluðu fólki og öðrum aðgengi að þeim.

Virkt samráð við fatlað fólk og félög sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum þess.

5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Í 3. mgr. greinarinnar segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Landssamtökin Þroskahjálp telja mjög mikilvægt að stjórnvöld hafi framangreindar skyldur varðandi aðgengi, tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun og til virks samráðsvið fatlað fólk og samtök sem vinna að réttinda og hagsmunamálum þess mjög í huga við þau verkefni sem um er fjallað í grænbókinni. Samtökin lýsa jafnframt yfir miklum vilja til að taka þátt í samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld til að stuðla að því að réttindi fatlaðs fólks verði tryggð eins vel og nokkur kostur er.

Afrita slóð á umsögn

#5 Guðbjörg Sigurðardóttir - 21.08.2018

Umsögn frá velferðarráðuneyti

Eftirfarandi umsögn velferðarráðuneytis barst samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu í tölvupósti frá Vilborgu Hauksdóttur, skrifstofustjóra:

Velferðarráðuneytið telur að í framtíðarsýn Grænbókarinnar að því er varðar upplýsingamál mætti vísa til þingsályktunar um lyfjastefnu til ársins 2022 frá 31. maí 2017.  Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

1. Aukið aðgengi að nauðsynlegum lyfjum:

….

m. Stefnt verði að því að fylgiseðlar með lyfjum verði rafrænir.

2. Öryggi, gæði og virkni lyfja og lyfjaþjónustu:

b. Embætti landlæknis, Lyfjastofnun og Sjúkratryggingar Íslands vinni saman að bættri rafrænni umsýslu lyfja, m.a. með samvinnu um nýjan klínískan lyfjaþekkingargrunn og miðlægt lyfjakort í þeim tilgangi að tryggja rétta lyfjaskömmtun og draga úr líkum á óviðeigandi lyfjameðferð. Einnig verði kannaðar hagkvæmustu og öruggustu leiðir varðandi hýsingu gagnagrunna og annarra þátta í rafrænni umsýslu lyfjamála.

f. Stefnt verði að því að öll notkun dýralyfja verði skráð í rafrænan gagnagrunn auk þess sem stefnt verði að því að bregðast við auknu lyfjaónæmi.

3. Skynsamleg og hagkvæm notkun lyfja:

a. Tölfræði lyfjamála verði samræmd þannig að embætti landlæknis, Lyfjastofnun og Sjúkratryggingar Íslands nýti gagnagrunna sína til að veita almenningi og fagfólki hlutlausar, faglegar upplýsingar. Þessar stofnanir myndi með sér skilvirkt samstarf um upplýsingamál þannig að upplýsingar megi finna á einum stað.

Annað sem gæti komið til greina að nefna í kaflanum um stöðumat í Grænbókinni er heilbrigðisgáttin www.heilsuvera.is sem er vefur fyrir almenning um heilsu og áhrifaþætti hennar. Þar er hægt að eiga í samskiptum við starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar og nálgast gögn úr eigin sjúkraskrá. Heilsuvera er samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Embættis landlæknis. Einnig að nefna réttindagáttina hjá Sjúkratryggingum Íslands www.sjukra.is þar sem er að finna upplýsingar um réttindastöðu í sjúkratryggingum, greiðsluþátttöku o.s.frv. Þessir vefir eru mjög mikilvægir fyrir notendur heilbrigðiskerfisins og að stefna að aukinni notkun þeirra fellur vel að framtíðarsýn Grænbókarinnar um rafræna þjónustu.

Afrita slóð á umsögn

#6 Ólafur Hjálmarsson - 28.08.2018

Hagstofa Íslands

28. ágúst 2018

Möguleikar á umbótum í hagskýrslugerð og bættu aðgengi að upplýsingum.

Hagskýrslugerð á Íslandi er samtvinnuð hagskýrslugerð á alþjóðavettvangi og sífellt eru gerðar meiri kröfur um gæði og sambærileika hagtalna. Með EES - samningum varð hagskýrslugerð hér á landi hluti af hagskýrslugerð í Evrópu og um hana gilda reglugerðir og lög ESB sem hafa verið innleidd í íslenskan rétt. Í grunnreglugerð um Evrópska hagskýrslugerð, eru gerðar ríkar kröfur til hagstofa ESB og EFTA ríkjanna um að samræma og samhæfa hagskýrslugerð innan hvers ríkis með það að markmiði að gæði og sambærileiki sé í samræmi við alþjóðlegar kröfur. Hagskýrslugerð á Íslandi er fremur miðlæg og tiltölulega fáir aðilar sem vinna hagskýrslur sem standast kröfur Evrópska hagskýrslusamstarfsins. Undanfarið hefur þó borið á að stjórnvöld hafa falið fleiri stofnunum hagskýrslugerð án þess að gætt sé að samræmingu eða mótun stefnu í málaflokknum.

Mikilvægt er að opinber hagskýrslugerð sé óháð og hlutlæg og að aðilar sem koma að hagskýrslugerð séu sjálfstæðir og sinni ekki stjórnsýsluhlutverki eða stefnumörkun. Notendur eiga að geta treyst því að fagleg vinnubrögð og hlutlægt mat liggi að baki hagskýrslugerðar og að allir hafi jafnan og sama aðgang að niðurstöðum. Einnig að við ákvarðanir um nýjar hagskýrslur og forgangsröðun verkefna sé leitað til notenda og þarfir þeirra metnar t.d. með könnunum og notendafundum. Með framangreint í huga er álitamál hvort málefnasvið hagskýrslugerðar eigi heima með grunnskrám og upplýsingatæknimálum stjórnsýslunnar við stefnumótun í opinberum fjármálum.

Ekki hefur verið gerð heildstæð úttekt á umfangi opinberrar hagskýrslugerðar á Íslandi. Hagstofa Íslands er samkvæmt lögum miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar í landinu og hefur forystu um tilhögun, samræmingu og framkvæmd hennar og um samskipti við alþjóðastofnanir um hagskýrslu- og tölfræðimál.

Í 6. gr. laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, nr. 163/2007, segir meðal annars:

„Ríkisstofnanir og sveitarfélög sem afla eða hyggjast afla gagna til meiri háttar tölfræðilegrar úrvinnslu skulu upplýsa Hagstofuna um störf sín og áform á þessum vettvangi til að tryggja samræmi í verkefnum, aðferðum og vinnubrögðum og að gögnin nýtist sem best til hagskýrslugerðar. Hagstofan getur í slíkum verkum lagt fyrir hlutaðeigandi aðila að afla viðbótarupplýsinga til hagskýrslugerðar, enda sé tekið tillit til eðlilegra sjónarmiða um kostnað.

Ríkisstofnanir og sveitarfélög sem halda skrár vegna starfsemi sinnar eða hyggjast halda slíkar skrár skulu hafa samráð við Hagstofuna um gerð nýrra skráa og endurnýjun eða breytingar eldri skráa til að þær nýtist sem best til hagskýrslugerðar. Hagstofunni er heimilt að óska eftir breytingum á skrám í þessu skyni og skal orðið við þeim óskum eftir því sem við verður komið og að teknu tilliti til eðlilegra sjónarmiða um kostnað.“

Ekki hefur verið farið kerfisbundið yfir opinberar skrár í því skyni að kanna högun þeirra og möguleika til hagskýrslugerðar. Þá er verulegur misbrestur á að að opinberir aðilar upplýsi Hagstofuna að fyrra bragði um breytingar á skrám eða áform um að stofna nýjar. Reyndin hefur verið að Hagstofan hefur leitað til skrárhaldara í þeim tilfellum að upplýst hefur verið um breytingar á skrám og hafa viðbrögð oftast verið jákvæð og samstarf við þá gengið vel. Erfiðlega hefur gengið að fá skrám breytt vegna hagskýrslugerðar, því það felur oft í sér kostnað og fyrirhöfn fyrir skráarhaldara.

Fjöldi opinberra stofnana safnar upplýsingum og birtir þær oft á mismunandi formi. Hagræði getur falist í að hafa hagskýrslugerð ekki mjög dreifða og hagræði fæst með því að endurnýta og samnýta gögn í meira mæli en nú er. Það minnkar áreiti á einstaklinga og fyrirtæki vegna gagnasöfnunar og kemur í veg fyrir margskráningu sömu gagna.

Helsta leiðin til að minnka áreiti á einstaklinga og fyrirtæki er að nýta stjórnvaldsskrár eins og kostur er til hagskýrslugerðar og samnýta og endurnýta þau gögn sem til eru. Einnig að straumlínulaga hagskýrslugerð og skrá gögn eingöngu einu sinni.

Notendur hagskýrslna hafa ítrekað látið í ljós þá skoðun sína að það væri skilvirkara ef þeir gætu nálgast opinberar hagtölur á einum stað á stöðluðu formi. Hagtölum er nær eingöngu miðlað rafrænt, en notkun samfélagsmiðla er jafnframt hagkvæm og skilvirk leið til að nálgast notendur.

Þrátt fyrir hlutverk Hagstofunnar sem samræmingaraðila hefur stofnunin ekki tæki til að fylgja eftir slíkri samhæfingu eða skipulagi hagskýrslugerðar í öðrum stofnunum. Samhæfing á sér því fyrst og fremst stað með samstarfi við þá aðila sem hafa með höndum verkefni á sviði hagskýrslugerðar. Er þá fyrst og fremst um að ræða verkefni Hagstofunnar sem eru lögbundin vegna innlendra eða alþjóðlegra skuldbindinga.

Hagskýrslugerð er sérhæfð og felst stærðarhagkvæmni í söfnun og samnýtingu gagna, hreinsun þeirra, úrvinnslu og fjárfestingu í tæknilegum innviðum, einkum með samrekstri í upplýsingatækni, viðhaldi gagnagrunna og sérhæfðri þekkingu. Það á þó ekki alltaf við, því í sumum tilfellum er dýrt að koma upp sérfræðiþekkingu á sviðum sem sérhæfðari stofnanir ráða þegar yfir. Í öðrum tilfellum getur aftur á móti verið kostnaðarsamt að dreifa kröftunum um of.

Sárlega vantar að gerð verði úttekt á heildarumfangi hagskýrslugerðar á Íslandi, hve margir vinna við hagskýrslur og gefa út upplýsingar og hvað það kostar. Hagstofa Íslands er stærsti framleiðandi hagtalna á landinu og kemur Seðlabanki Íslands þar á eftir, en aðrir stórir framleiðendur eru Landlæknisembættið og Þjóðskrá Íslands. Fjölmargir aðrir aðilar gefa út hagtölur, oft til að vekja athygli á starfsemi sinni, sem mælikvarða á afköst eða vegna þess að talin er þörf fyrir viðkomandi upplýsingar. Mismunandi er hvort þar er um tölfræði að ræða, sem hefur verið samræmd og gögn hreinsuð, eða einfaldar talningar úr skrám. Fyrir kemur að upplýsingar frá opinberum aðilum stangast á og eru ekki sambærilegar, eða eru á mismunandi formi. Þá hefur færst í vöxt undanfarið að stofnunum sé falið með lögum að safna og miðla upplýsingum án þess að gætt sé að heildarstefnu eða að könnun á þörfum notenda liggi að baki.

Auka má framleiðni í hagtölugerð með því að fylgja eftir alþjóðlegu líkani í framleiðslu hagtalna og sérhæfa hvert stig framleiðslukeðjunnar. Einnig með því að opinberir aðilar skiptist á gögnum, samnýti þau og vinni saman að hagskýrslugerð með aukinni sérhæfingu. Ljóst er að sjálfvirknivæðing, eða vélvæðing, hluta hagskýrslugerðar getur sparað vinnu, einkum þar sem um endurtekin verkefni er að ræða. Vinna við sjálfvirknivæðingu er rétt að hefjast innan Hagstofunnar og er að störfum vinnuhópur sem er ætlað að kanna sjálfvirknivæðingu, einkum með gagnanámi (e. data mining) og vélrænu námi (e. machine learning). Það verkefni tengist einnig notkun stórra gagnasafna (e. big data), en þar er nær eingöngu hægt að koma við vélrænum lausnum við úrvinnslu.

Við hagskýrslugerð safnast talsvert af örgögnum sem má nota við rannsóknir í háskóla- og vísindastofnunum. Vegna persónuverndarsjónarmiða getur verið tímafrekt og dýrt að búa svo um gögnin að þau verði ekki rekjanleg til einstaklinga. Mikil verðmæti felast í örgöngunum fyrir vísindasamfélagið og er falin í því talsverður fórnarkostnaður ef þau eru ekki nýtt. Hagstofan vinnur með öðrum hagstofum Norðurlanda að því að koma upp rannsóknarumhverfi til að veita viðurkenndum rannsakendum aðgang að örgögnum með öruggum hætti. Er verkefnið styrkt af Norrænu ráðherranefndinni.

Tillögur:

Stjórnvöld kortleggi hagskýrslugerð í landinu með það að markmiði að auka skilvirkni og koma í veg fyrir tvíverknað. Kannaður verið fjöldi starfsmanna sem vinna við hagskýrslugerð og kostnaður við hana.

Á grunni yfirlits um umfang opinberrar hagskýrslugerðar verði snertifletir skoðaðir með hliðsjón af hagræði sem felist í auknu samstarfi, samhæfingu eða meiri sérhæfingu, breyttu skipulagi og einföldun hagskýrslugerðar.

Sett verði tímasett markmið um að alþjóðlegar skuldbindingar í hagskýrslugerð verði uppfylltar og að þeir sem stunda opinbera hagskýrslugerð uppfylli þær gæðakröfur sem gerðar eru.

Farið verði yfir helstu stjórnsýsluskrár í landinu og skoðað hvort megi nýta þær betur til hagskýrslugerðar, m.a. með því að gera breytingar á högun þeirra, samnýta gögn, eða ská nýjar upplýsingar til að minnka áreiti og koma í veg fyrir tvískráningar. Markmiðið verði að draga úr áreiti á atvinnulíf og einstaklinga.

Gert verði sérstakt átak í að nýta vélrænar lausnir við hagskýrslugerð og við notkun stórra gagnasafna. Markmiðið verði að lækka kostnað og bæta gæði. Samstarf stofnana og háskóla um vélrænar lausnir verið aukið.

Kannaðir verði kostir þess að almenningur, fjölmiðlar, fyrirtæki, rannsóknar- og menntastofnanir geti nálgast hagskýrslur (tölfræði) á einum stað á samræmdu formi.

Unnið verði áfram að því að auðvelda vísindasamfélaginu aðgang að örgögnum í öruggu umhverfi sem tryggi persónuvernd.

Unnið verði að því að opna gagnasöfn sem eru með órekjanlegum gögnum, þar sem bæði hefur verið hugað að óbeinum og beinum rekjanleika.

Leitað verði leiða til að einstaklingar og fyrirtæki geti leyst mál sín gagnvart stjórnsýslunni, þar með talið hagskýrslugerðar, á einum stað.

Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#7 Helga Sigrún Harðardóttir - 29.08.2018

Umsögn Staðlaráðs Íslands

Sjá viðhengi.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Samtök atvinnulífsins - 30.08.2018

Meðfylgjandi er sameiginleg umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins um grænbók sem liður í stefnumótun á málefnasviði hagskýrslugerðar, grunnskráa og upplýsingamála.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#9 Samtök atvinnulífsins - 30.08.2018

Meðfylgjandi er sameiginleg umsögn Samtaka atvinnulífsins og Samtaka iðnaðarins um grænbók sem liður í stefnumótun á málefnasviði hagskýrslugerðar, grunnskráa og upplýsingamála.

Viðhengi