Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 30.7.–20.8.2018

2

Í vinnslu

  • 21.8.2018–14.1.2019

3

Samráði lokið

  • 15.1.2019

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-91/2018

Birt: 4.7.2018

Fjöldi umsagna: 2

Áform um lagasetningu

Forsætisráðuneytið

Fjölskyldumál

Áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um umboðsmann barna

Niðurstöður

Tvær umsagnir bárust um áformin, frá Landssamtökunum Þroskahjálp og Barnaheillum. Sömu aðilar sendu inn umsagnir við drög að frumvarpi sem unnið var í kjölfarið, sjá umfjöllun um mál nr. 123/2018 í Samráðsgátt. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi og er orðið að lögum nr. 148/2018, sjá nánar á vef Alþingis: https://www.althingi.is/altext/149/s/0734.html

Málsefni

Áformað er að gera breytingar á lögum um umboðsmann barna til þess að tryggja að embættið geti sinnt betur því hlutverki sínu að bæta hag barna og standa vörð um hagsmuni þeirra, þarfir og réttindi.

Nánari upplýsingar

Lög um umboðsmann barna eru frá árinu 1994 og hafa tekið litlum breytingum frá gildistöku. Með lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins ‒ Barnasáttmálans ‒ hafa íslensk stjórnvöld undirgengist þær skuldbindingar að framfylgja ákvæðum sáttmálans í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum og framkvæmd á öllum þeim sviðum sem hann nær til. Þar hefur embætti umboðsmanns barna mikilvægu hlutverki að gegna og er brýnt að kveðið sé nánar á um það hlutverk í lögum um starf umboðsmanns barna og embætti hans.

Í sáttmála ríkisstjórnarflokkanna um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis kemur fram sú sýn að gott samfélag sé barnvænt samfélag. Framfylgja þurfi ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, m.a. um aukin áhrif barna í samfélaginu. Einnig þurfi að tryggja jöfn tækifæri barna í frístunda- og menningarstarfi.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er á málefnasviði 29 ‒ Fjölskyldumál ‒ sett fram það meginmarkmið að á Íslandi verði börnum og fjölskyldum þeirra búið gott líf, þar sem allir búi við jöfn tækifæri og öryggi sem leiði til bættra lífsgæða óháð uppruna, þjóðerni, kyni, kynhneigð, trú, fötlun eða stjórnmálaskoðunum. Þjónusta við börn og fjölskyldur þeirra verði efld, samþætt og samfelld, með samstarfi þvert á málaflokka, stofnanir og stjórnsýslu með samhæfingu, yfirsýn og heildarstefnu að leiðarljósi.

Á málefnasviðinu er sett fram sú framtíðarsýn að stuðlað verði að þátttöku allra í samfélaginu í starfi eða annarri virkni óháð uppruna. Ísland verði land sem fagnar fjölbreytileika og nýti sér þau tækifæri sem fjölmenningarsamfélagið hefur upp á að bjóða. Gott samfélag er barnvænt samfélag. Í samskiptum ríkis, sveitarfélaga og annarra verði stuðlað að jöfnum tækifærum barna í frístunda- og menningarstarfi og ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna framfylgt, m.a. um aukin áhrif barna í samfélaginu.

Í 4. kafla málefnasviðs 29 segir jafnframt: Staða barna í íslensku samfélagi verði styrkt. Nauðsynlegt er að tryggja samræmda og markvissa stefnu í málefnum barna á öllum stigum stjórnsýslunnar eins og ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna gera ráð fyrir. Til grundvallar þurfa að liggja vandaðar greiningar og rannsóknir sem stuðla að upplýstri umræðu og faglegum ákvörðunum. Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að gott samfélag sé barnvænt samfélag og að framfylgja þurfi ákvæðum barnasáttmálans, m.a. um aukin áhrif barna í samfélaginu. Lögfesting barnasáttmálans gerir jafnframt kröfu um að ákvæði hans verði innleidd með skipulegum hætti í lagaumhverfi og framkvæmd og að leitað sé eftir og hlustað á sjónarmið barna í öllum málum er varða þau. Þar sem Ísland er aðildarríki Sameinuðu þjóðanna ber stjórnvöldum jafnframt að líta til áherslna heimsmarkmiðanna um að tryggja öllum sjálfsögð mannréttindi. Hlutverk umboðsmanns barna er að vinna að því að fullt tillit sé tekið til réttinda, þarfa og hagsmuna barna á öllum sviðum samfélagsins. Skal umboðsmaður setja fram ábendingar og tillögur um úrbætur sem snerta hag barna.

Markmiðið sem stefnt er að með fyrirhuguðu frumvarpi er að embætti umboðsmanns barna sé öflugur og virkur málsvari barna í íslensku samfélagi og stuðli að því að stefna stjórnvalda um barnvænt samfélag nái fram að ganga.

Helstu breytingar sem fyrirhugaðar eru er að sett verði nýtt ákvæði í lög um umboðsmann barna þar sem umboðsmanni barna verður falið að afla og miðla gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna hverju sinni, í samvinnu við ýmsa aðila. Eiga þau gögn að liggja til grundvallar samræmdri og markvissri stefnu í málefnum barna á öllum stigum stjórnsýslunnar eins og ákvæði Barnasáttmálans gera ráð fyrir.

Þá gerir Barnasáttmálinn einnig kröfu um þátttöku barna í ákvarðanatöku um öll mál sem þau varðar og ber að taka réttmætt tillit til skoðana þeirra. Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er kveðið á um að halda skuli jafnréttisþing með tilteknum hætti sem nánar er lýst í lögunum. Til að uppfylla skilyrði Barnasáttmálans um þátttöku barna í ákvarðanatöku og stefnumótun er lagt til að sett verði ákvæði í lög um umboðsmann barna um að halda skuli reglulega Barnaþing þar sem farið verði yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins og að niðurstöður þingsins verði kynntar hlutaðeigandi ráðherrum

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Tenging við önnur mál (1)

Umsjónaraðili

Skrifstofa löggjafarmála

una.bjork.omarsdottir@for.is