Samráð fyrirhugað 05.07.2018—07.08.2018
Til umsagnar 05.07.2018—07.08.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 07.08.2018
Niðurstöður birtar 20.12.2018

Skýrsla starfshóps um gildisdagsetningar í virðisaukaskatti

Mál nr. 94/2018 Birt: 05.07.2018 Síðast uppfært: 20.12.2018
  • Fjármála- og efnahagsráðuneytið
  • Annað
  • Málefnasvið:
  • Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla

Niðurstöður birtar

Nánar um niðurstöður

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 05.07.2018–07.08.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 20.12.2018.

Málsefni

Starfshópur sem skipaður var til að fara yfir gildisdagsetningar í virðisaukaskatti hefur lokið störfum og skilað skýrslu til ráðherra.

Starfshópur sem skipaður var til að fara yfir gildisdagsetningar í virðisaukaskatti hefur lokið störfum og skilað skýrslu til ráðherra.

Starfshópurinn var skipaður í janúar 2017 af þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra. Gildisdagsetningar í virðiskaukaskatti eru lagðar til grundvallar við vaxtaútreikning inneignar eða skuldar VSK.

Í erindisbréfi starfshópsins kom fram að þegar gjaldandi virðisaukaskatts gerir breytingar á út- og innskatti eftir frumálagningu gæti fjárhæð dráttarvaxta sem lagðir væru á hækkun álagningar frá gjalddaga viðkomandi uppgjörstímabils orðið mun hærri en fjárhæð inneignarvaxta vegna annarra uppgjörstímabila. Í kjölfar leiðréttingar gæti gjaldandi því verið í skuld við ríkissjóð þó nettóniðurstaða breytinganna væri 0, þ.e. innskattur væri jafnhár útskatti. Í erindisbréfinu var m.a. bent á að þessi staða gæti skapað hættu á því að gjaldendur féllu frá því að leiðrétta skattskil samkvæmt frumálagningu og var starfshópnum falið að skoða málið í heild.

Meginniðurstaða starfshópsins er sú að ekki sé tímabært að gera róttækar breytingar á ákvörðun gildisdagsetninga í virðisaukaskatti eða lagaákvæðum um vexti á skattskuld eða -inneign. Þó er þörf á að kveða skýrar á um einstaka þætti þeirra en nú er gert. Þrátt fyrir að gjaldendur hafi í einhverjum tilvikum talið sig verða fyrir óréttlæti af hálfu ríkisvaldsins, sem innheimtir dráttarvexti af skuld en greiðir inneignarvexti af ofgreiðslu, kalla almennar jafnræðisreglur gagnvart öllum gjaldskyldum aðilum og tímanleg skattskil gagnvart ríkissjóði á að gildandi fyrirkomulagi verði viðhaldið, a.m.k. svo lengi sem tíðni leiðréttinga er svo há sem raun ber vitni. Virðisaukaskattur er meginskattstofn íslenska ríkisins. Ef ríkissjóður verður af virðisaukaskattstekjum hefur það fjármagnskostnað í för með sér. Þá hefur hið opinbera verulega hagsmuni af því að lausungar gæti ekki þegar að skattskilum kemur, hvort sem litið er til hagræðis skattframkvæmdar eða heildarniðurstöðu skattskila.

Megintillögur starfshópsins eru eftirfarandi:

• Nýju ákvæði verði bætt við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt þar sem kveðið verði með skýrum hætti á um leiðréttingu á frumálagningu virðisaukaskatts. Í ákvæðinu verði m.a. kveðið á um leiðréttingarbeiðnir, meðferð þeirra, tímamörk og vexti.

• Í nýju ákvæði um leiðréttingu á frumálagningu virðisaukaskatts verði ráðherra gert skylt að kveða nánar á um leiðréttinguna með birtum stjórnvaldsfyrirmælum.

• Við gerð stjórnvaldsfyrirmæla um leiðréttingar frá frumálagningu virðisaukaskatts verði í meginatriðum stuðst við fyrirliggjandi verklagsreglur frá árinu 2009 sem unnar voru af embætti ríkisskattstjóra í samráði við Fjársýslu ríkisins.

• Nýju ákvæði verði bætt við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt þar sem innheimtumanni verði veitt heimild til að fella niður dráttarvexti að uppfylltum ströngum hlutlægum skilyrðum.

• Álagningarkerfi ríkisskattstjóra og tekjubókhaldskerfi ríkisins verði uppfærð þannig að allar þær stofnanir sem koma að meðferð gildisdagsetninga í virðisaukaskatti fái sömu upplýsingar í kerfunum eftir að uppgjör á virðisaukaskatti hefur farið fram.

Aðrar tillögur:

• Að starfshópur sem vinnur að undirbúningi nýrrar löggjafar um opinbera innheimtu hafi skýrslu þessa til hliðsjónar í vinnu sinni.

• Litið verði til þessarar skýrslu ef ráðist verður í breytingar á fjölda innheimtugjalddaga.

Í starfshópnum áttu sæti Hlynur Ingason frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, formaður, Benedikt S. Benediktsson og Guðrún Inga Torfadóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Guðjón Á. Ríkharðsson frá Fjársýslu ríkisins, Jóhanna Lára Guðbrandsdóttir og Una Dagbjört Kristjánsdóttir frá tollstjóra og Óskar H. Albertsson frá ríkisskattstjóra. Með hópnum starfaði einnig Jóhanna Norðdahl frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Þeir sem óska eftir því að koma á framfæri umsögn um skýrsluna geta gert það með því að senda umsögn inn á Samráðsgátt stjórnvalda.

Síðasti dagur til að skila inn umsögn er þriðjudagurinn 7. ágúst 2018.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 KPMG ehf. - 03.08.2018

Í viðhengi er umsögn KPMG um skýrslu "Gildisdagsetningar í virðisaukaskatti".

Viðhengi