Samráð fyrirhugað 13.07.2018—10.08.2018
Til umsagnar 13.07.2018—10.08.2018
Niðurstöður í vinnslu frá 10.08.2018
Niðurstöður birtar 23.11.2020

Frumvarp til nýrra umferðarlaga

Mál nr. 97/2018 Birt: 13.07.2018 Síðast uppfært: 23.11.2020
  • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
  • Drög að frumvarpi til laga
  • Málefnasvið:
  • Samgöngu- og fjarskiptamál

Niðurstöður birtar

Ráðuneytinu bárust alls 22 umsagnir við frumvarpsdrögin frá hagsmunaaðilum, stjórnvöldum og einstaklingum. Unnið var úr athugasemdum og tók frumvarpið töluverðum breytingum eftir samráðið. Sjá greinargerð um samráð í 9. kafla greinargerðar með frumvarpi til umferðarlaga. Hlekk er að finna hér að neðan.

Skjal að loknu samráði

Ferill máls

Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 13.07.2018–10.08.2018. Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir. Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 23.11.2020.

Málsefni

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til umsagnar drög að nýjum umferðarlögum.

Markmið með heildarendurskoðun umferðarlaga er að stuðla enn frekar að umferðaröryggi með því að bregðast við þeirri þróun sem orðið hefur á samgöngum og samfélaginu í heild á undanförum árum. Umtalsverður árangur hefur náðst í baráttunni gegn umferðarslysum hér á landi en betur má ef duga skal. Mjög brýnt var orðið að endurskoða umferðarlög nr. 50/1987, með síðari breytingum. Töluvert af ábendingum og athugasemdum hafa borist ráðuneytinu vegna umferðarlaga og nauðsynlegum breytingum á þeim. Snúa athugasemdirnar m.a. að hjólreiðum og breyttum samgönguháttum, aukinni sjálfvirkni bíla, ákall um skýrari ákvæði um ljósaskyldu ökutækja í ljósi tækniþróunar, stöðubrotum og sektarheimildum lögreglu og stöðubrotsgjaldaheimildum stöðuvarða, vegaeftirliti, notkun farsíma- og snjalltækja við akstur og skort á hlutlægri refsiábyrgð eigenda og umráðamanna bifreiða á hraðasektum og sektum vegna aksturs gegn rauðu ljósi, þ.e. brot sem nást á löggæslumyndavél.

Unnið hefur verið að endurskoðun á umferðarlögum undanfarinn áratug. Frumvarp til umferðarlaga hefur fjórum sinnum verið lagt fram á Alþingi, síðast á 141. löggjafarþingi (2012-2013). Upphaflegt frumvarp var unnið af átta manna nefnd sem falið var að taka gildandi umferðarlög til heildarendurskoðunar og semja frumvarp til nýrra laga umferðarlaga á grundvelli tillagna nefndarinnar. Á milli löggjafarþinga tók frumvarpið nokkuð miklum breytingum í samræmi við fram komnar athugasemdir umsagnaraðila, umræðna á Alþingi og í umhverfis- og samgöngunefnd.

Í maí 2017 var ákveðið að hefja að nýju heildarendurskoðun á gildandi umferðarlögum. Fyrsta skrefið var að senda eldra frumvarp, sem lagt var fram á 141. löggjafarþingi (2012-2013), til umsagnar aðila sem sitja í fagráði um umferðarmál. Var óskað eftir sjónarmiðum þeirra og athugasemdum við frumvarpið í ljósi fyrirhugaðrar heildarendurskoðunar. Athugasemdir sem bárust hafa nýst við gerð nýs frumvarps sem byggist á grunni eldri vinnu.

Í janúar sl. birti ráðuneytið á vef stjórnarráðsins áform um þessa lagasetningu og frummat á áhrifum hennar í samræmi við nýtt verklag við gerð lagafrumvarpa. Var kallað eftir sjónarmiðum stofnana, hagsmunaaðila og einstaklinga á þeim áformum og áhrifamati. Margar ábendingar og athugasemdir bárust ráðuneytinu í kjölfarið. Í kjölfar þess samráðs birti ráðuneytið í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi sett upp í töflu, þ.e. einstök ákvæði og athugasemd í greinargerð voru sett upp samhliða í skjalinu. Gafst almenningi og hagsmunaaðilum tækifæri til að gera athugasemdir og breytingar með breytingarham en sérstakur dálkur var hugaður fyrir almennar athugasemdir. Alls bárust ráðuneytinu 52 umsagnir.

Samgönguráðuneytið birtir nú til umsagnar endurbætt drög sem taka mið af þeim sjónarmiðum sem komu fram í umsögnum hagsmunaaðila í fyrra samráði. Innihalda frumvarpsdrögin kafla í almennri greinargerð þar sem tíundaðar eru þær breytingar sem orðið hafa frá því að síðasta samráði lauk.

Frestur til að skila inn umsögnum er til 10. ágúst n.k. en umsagnir verða birtar jafn óðum í samráðsgáttinni.

Innsendar umsagnir

Afrita slóð á umsögn

#1 Þorsteinn V Sigurðsson - 16.07.2018

Dapurlegt hvað endalaust er hægt að ráðast á bíleigendur með ofursköttum. Legg til þessu verði sleppt. Og hækkanir í hundruðum prósenta .Nær væri að kíkja á álverin og fl ef aura vantar í ríkiskassan.

Afrita slóð á umsögn

#2 Hlíðar Kjartansson - 16.07.2018

Vill endilega að það verði takið á stebnuljósa bílstjóra og hafa háa sekt ef menn gefa ekki stebnuljós

Afrita slóð á umsögn

#3 Sigríður Erla Sigurðardóttir - 16.07.2018

Í 75. grein er talað um öryggisbúnað barna í bíl.

Þar mætti kveða mun fastar að orði.

Það sem vitað er nú um öryggi barna í bílum er að barn undir 3ja ára eða 15 kg ætti ávallt að sitja í bakvísandi bílstól með 5 punkta belti.

Barn undir 145 cm eða 36 kg ætti að sitja á sessu með baki eða bílstól þar sem notast er við belti bílsins til að festa barnið.

Afrita slóð á umsögn

#4 Kristinn Alex Sigurðsson - 17.07.2018

83. Grein þessara laga er algjörlega glórulaus. Þegar vitað er að þvottur/skolun gatna er aðal atriðið í að halda götum hreinum, er hér skuldinni skellt á skattgreiðendur.

Það væri nær að segja að þegar mengun er yfir ákveðnum stuðli beri sveitarfélagi að sjá til þess að götur séu skolaðar

Afrita slóð á umsögn

#5 Magnús Axel Hansen - 17.07.2018

Ég vil gera athugasemd við 18. grein þar sem fjallað er um akstur í hringtorgum.

Þar ber fyrst að nefna að það að innri akrein eigi forgang gagnvart þeirri ytri stríðir gegn þeirri meginreglu í hægri umferð sem gjarnan er nefnd „varúð til hægri“. Þetta yrði þá eina tilvikið þar sem vinstri akrein á forgang á þá hægri.

Í öðru lagi er þetta andstætt þeim reglum sem eru í nágrannalöndum okkar. Mér hafði verið talin trú um það í ökunámi fyrir rúmlega fjörtíu árum að innri akreinin ætti alltaf réttinn (þrátt fyrir að það kæmi hvergi fram í gildandi umferðarlögum) og olli það mér strax vandræðum þegar ég fór að aka í t.d. Danmörku og Svíþjóð. Nú þegar erlendum ferðamönnum hefur fjölgað gríðarlega hér á landi veldur þetta þeim sömu vandræðum (í hina áttina) þegar þeir fara að aka á okkar vegum.

Í þriðja lagi vil ég nefna rökin fyrir þessum breytingum:

• Þar er vísað til hefðar, að þetta hafi verið kennt í mörg ár en það gengur ekki upp. Fyrir rúmum áratug fór ég t.d. í ökuskóla því ég var að sækja mér réttindi til að aka þungu bifhjóli – þar var áréttað að það stæði ekkert í umferðarlögum um vinstri forgang í hringtorgum.

• Einnig er talað um að umferðarmannvirki séu hönnuð með þennan forgang í huga – það er ekki rétt nema að hluta. Á einstöku stað er það fyrirkomulag, sé ekið út af tveggja akreina hringtorgi inn á einnar akreinar veg, að þá séu tvær akreinar fyrst sem sameinast síðan á þann hátt að sú hægri renni inn í þá vinstri og vinstri hafi þá forgang. Algengara er þó að sú vinstri sameinist þeirri hægri með hægri forgangi (og fellur þar með niður vinstri forgangurinn).

• Götumerkingar í hringtorgum eru misvísandi. Þar er brotin lína milli akreina sem þá leyfir að skipt sé um akrein, bæði inni í hringtorginu sjálfu og eins þegar ekið er út úr því (þannig leyfilegt að aka úr innri hring þvert yfir á hægri akrein á leið út úr hringtorginu). Brotna miðlínan eltir akreinarnar út úr hringtorginu, það er það eina sem styður vinstri forganginn í dag. Hvað ef hún er orðin ósýnileg vegna slits?

Í núgildandi umferðarlögum sem og drögunum að þeim nýju er lögð áhersla á að ekið sé sem lengst til hægri á fjölakreina vegum eftir því sem kostur er (sbr. 17. gr.) og er það vel. Því skýtur skökku við að auka forgang vinstri akreinar í hringtorgum. Hvað gerum við t.d. þegar við verðum komin með þriggja akreina hringtorg? Einnig er varhugavert að setja sér-íslensk umferðarlög sem eru gjörólík þeim sem eru í gildi í nágrannalöndunum.

Afrita slóð á umsögn

#6 Eggert Sk. Jóhannesson - 17.07.2018

Hækka þarf hraðatakmarkanir t.d. á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, Þar sem að eru þrefaldar og fjórfaldar akreinar og hámarkshraði er 60 en flautað er á þá sem eru á 90 á vinstri akrein. Þessar brautir bjóða ekki upp á 60 km. hraða enda ekki "innanbæjarakstur" sem að á sér stað þarna. 60 km. hraði býður upp á stór hættu vegna framúraksturs. Ég er að keyra þessa braut 2-3 á dag s.l. áratugi og veit hvað ég er að tala um og með 35 ára tjónlausan ökuferil að baki.

Sama á við um stofnbrautir út úr bænum í gegnum Ártúnsbrekku, hraðatakmarkanir upp á 60 þar eru úreltar s.l. 40 ár þegar að malarvegir voru í Reykjavík.

Hægri beyja á ljósum, er eitthvað sem hefði átt að byrja að leyfa líka fyrir 40 árum á Íslandi, enda er það normið erlendis og engin slysahætta nánast en greiðir vel úr umferð. Auk þess sem að það þarf að laga aðreinar mjög víða þar sem að bílar ætla að beygja til hægri en komast ekkert vegna þess að allir eru stopp á rauðu ljósi á undan og vegakerfið í ólagi því að það vantar akrein / aðrein að biðskyldumerki.

Afrita slóð á umsögn

#7 Hákon Róbert Jónsson - 24.07.2018

Ég myndi gjarnan vilja sá þarna inni viðbót við 18. greinina sem hljómar svona,

„Ökumanni sem hyggst beygja til hægri við gatnamót á umferðarljósum er heimilt að beygja á móti rauðu ljósi nema sérstaklega sé tekið fram að það sé óheimilt. Hann skal þó ætíð stöðva eins og við stöðvunarskyldu og veita umferð sem kemur úr öðrum áttum forgang."

Þessi tillaga kom fram á 127. löggjafarþing 2001–2002. og er í Þskj. 140 — 140. mál. Hana má finna hér ásamt greinargerð. https://www.althingi.is/altext/127/s/0140.html

Það væri mikil bót í því ef þessu væri komið við og myndi spara mikinn tíma á rauðu ljósi og draga úr mengun samhliða því. Greinagerðin sem þarna er í þingskjalinu á jafnt við í dag og árin 2001-2002.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#8 Pétur Þorsteinsson - 25.07.2018

Sæl.

Vil gera athugasemdir við nýju umferðarfrumvarpslögin.

Skylda verði að allir hjóli með hjálma, ekki bara börn upp að 15 ára aldri. Öryggi fyrir skaða er óumdeilanlegt, ef viðkomandi lendir í slysi.

Að sveitarfélögum verði heimil gjaldtaka af notkun nagladekkja, þar sem þau slíta langmest slitlagi gatna.

kv. Pétur Þorsteinsson

Afrita slóð á umsögn

#9 Pétur Þorsteinsson - 25.07.2018

Varðandi 8. greinina.

Vantar sennilega kommu yfir "ætið" nema að það sé búið að keyra yfir rolluna og hún sé ætið, sem eigi að éta, sbr. annars staðar í samráðsgáttinni varðandi frumvarpið um "Saman gegn sóun"??

kv. Pétur

Afrita slóð á umsögn

#10 Kjartan Halldórsson - 26.07.2018

Í skilgreiningum er gangbraut skilgreind á eftirfarandi hátt:

"14. Gangbraut: Sérstaklega merktur hluti vegar með umferðarljósum, eða umferðarmerki og yfirborðsmerkingum, sem er ætlaður gangandi til að komast yfir akbraut."

Þarna er gefið í skyn að gangbraut þurfi að vera með umferðarmerki OG yfirborðsmerkingum. Hingað til hef ég staðið í þeirri meiningu að umferðarmerkin ein og sér ættu að duga og yfirborðsmerkingar séu til staðar til að gera merkin sýnilegri. Einnig er spurning hvort yfirborðsmerking ein og sér ætti að duga til að gera hluta vegar sérstaklega ætlaðan gangandi vegfarendum að gangbraut. Eins finnst mér að umferðarljós eigi ekki að falla undir skilgreiningu fyrir gangbraut heldur fá sérstaka skilgreiningu sem gangbrautarljós.

Ekki er til staðar skilgreining á framúrakstri. Sums staðar er talað um að aka fram úr, annars staðar að aka fram hjá. Þetta er að mínu mati tvennt ólíkt. Akstur fram hjá öðru ökutæki er t.d. þegar ekið er á vegi með tveimur eða fleiri akreinum í sömu akstursstefnu fram hjá öðru ökutæki á annarri akrein.

Framúrakstur ætti að vera skilgreindur sem akstur ökutækis fram úr öðru ökutæki á sömu akrein í þeim tilgangi að komast fram fyrir ökutækið og aftur inn á sömu akrein.

Með því að aðgreina þetta verður auðveldara að meta hvort um framúrakstur við gatnamót eða gangbraut sé að ræða.

22.gr. "Sá sem ekið hefur vinstra megin fram úr skal aka til hægri á ný svo fljótt sem unnt er án hættu eða óþæginda."

"Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 17. gr. má í þéttri umferð ökutækja á tveimur eða fleiri akreinum í sömu akstursstefnu, þar sem hraðinn ræðst af þeim sem á undan fara, aka hægra megin fram hjá ökutæki á annarri akrein."

Afrita slóð á umsögn

#11 Arnór Bragi Elvarsson - 02.08.2018

Til þess er málið varðar,

Undirritaður skilar hér með inn umsögn um frumvarp til umferðarlaga 2018. Umsögnin ræðir þann hluta frumvarpsins er varðar takmarkanaheimild ráðherra skv. 83. grein.

Í fyrstu grein umferðarlaga kemur fram að „Markmið laganna er að … tillit [sé] tekið til umhverfissjónarmiða við skipulagningu umferðar.“ Þá er sérstaklega farið út í nánari útfærslur á slíkum takmörkunum í 83. grein, 3. mgr: „Takmörkun á umferð vegna mengunar frá ökutækjum geta t.d. falist í … takmörkun almennrar umferðar með því að heimila tilteknum bifreiðum akstur á ákveðnum svæðum eftir oddatölu/jafnri endatölu eða sambærilegum endabókstaf skráningarmerkja.“

Undirritaður fagnar því að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða við skipulagningu umferðar. Sót- og svifryksmengun hefur verið mikið til umræðu undanfarið, þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu (Bergljót Hjartardóttir, 2018). Hins vegar er það fyrirkomulag að heimila einungis takmörkuðum fjölda bíla inn á afmarkað svæði á ákveðnum tíma samkvæmt ofangreindum formerkjum, ekki til þess fallið að draga úr mengun.

Til skemmri tíma, kann það að vera að eknum kílómetrum fækki. Hins vegar munu ferðalangar aðlaga sig að nýjum reglum og ákveða að ferðast fleiri ferðir þá daga sem þeim er heimilt að aka bifreið sína. Þetta gæti leitt af sér álíka mikla umferð og áður var, og þannig haft lítil sem engin áhrif á mengunargildi. Zhang et al. benti á að engin marktækni fannst í gögnum um það að takmörkun sem þessi hefði minnkandi áhrif á mengun (2013). Frekar leiddi takmörkunin til aukningar á umferð vegna fleirri ekinna ferða utan ferðatímans. Þetta litla dæmi sýnir hvernig óhnyttin inngrip hins opinbera gætu haft lítil sem engin áhrif.

Annar veikleiki þessarar takmörkunar er að þó hún útiloki notkun bifreiðar innan ákveðins tímaramma, hefur takmörkunin engin áhrif á notkun bifreiðarinnar utan þess tímaramma. Vel gæti verið að í stað þess að ferðast 5 kílómetra báða daga, muni ferðalangur nú ákveða að ferðast 15 kílómetra annan hvern dag. Hér hefur undirritaður gefið sér forsendur, en varla telst það ná markmiði laganna að bjóða upp á slíkt stjórnleysi.

Frekari aukaverkur slíkra takmarkana til lengri tíma litið gæti verið sá að bílaeign aukist. Þá munu þær fjölskyldur sem eru betur fjárhagslega stæðar eiga efni á því að fjárfesta í öðrum bíl. Séð verður til þess að annar bíllinn beri oddatölu sem endabókstaf og hinn slétta tölu. Einnig sýndi reynsla í Mexíkóborg af þessu kerfi að hægt væri að búa til svartan markað fyrir bílnúmeraplötur (Gallego et al., 2013).

Undirritaður telur að markmiði laganna væri frekar náð með rafrænni gjaldtöku fyrir ekna kílómetra. Þar sem gjaldtakan væri rafræn væri einnig hægt að hækka gjald á háannatímum til að dreifa betur úr umferðarþunga. Reynsla af gjaldtöku með rafrænum tollhliðum (e. cordon road pricing) sýnir að hægt er að minnka mengun þar sem fólk myndi spara sér ferðir, stytta þær, eða fara þær með öðrum ferðamáta (Gibson og Carnovale, 2015). Slíkt væri einnig sanngjörn gjaldtaka fyrir notkun dýrra innviða, hafa jöfn áhrif á alla samfélagshópa óháð efnahag (Meyer de Freitas et al., 2017) og myndi forðast óhnyttin inngrip yfirvalda. Slíkt fyrirkomulag hefur farnast vel á norðurlöndunum, t.a.m. í Svíþjóð (Eliasson, 2014) og stefnt er að því að taka það upp í Danmörku einnig, að minnsta kosti að hluta til í bili (Regeringen, 2018).

Virðingarfyllst,

Arnór Bragi Elvarsson

Heimildir:

Bergljót Hjartardóttir (2018) Sót í Reykjavík, Meistararitgerð við Háskóla Íslands.

Eliasson, J. (2014) The Stockholm Congestion Charges: An Overview. CTS Working Paper 2014:7. KTH Stokkhólmi, Svíþjóð.

Gallego, F., J-P. Montero og C. Salas (2013) The effect of transport policies on car use: Evidence from Latin-American cities, Journal of Public Economics 107, 47-62.

Meyer de Freitas, L. O. Schuemperlin, M. Balac og F. Ciari (2017) Equity effects of congestion charges: An exploratory analysis with MatSim, Transportation Research Record 2670, 75-82.

Regeringen (2018) Vejafgifter, Yfirlýsing, sótt 22.6.2018 af https://www.regeringen.dk/nyheder/aftale-om-ny-registreringsafgift/vejafgift/

Zhang, W., C-Y. C. Lin Lawell og V. I. Umanskaya (2017) The effects of license plate-based driving restrictions on air quality: Theory and empirical evidence, Journal of Environmental Economics and Management 82, 181-220

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#12 Björn Ævarr Steinarsson - 07.08.2018

Umsögn um frumvarp til umferðarlaga 2018.

Eftir því sem ég kemst næst hefur 42. Gr, 1. mgr. verið breytt þannig frá fyrstu drögum að síðasta setning málgreinarinnar hefur verið feld brott. Þar stóð: “Ef hjólastígur er samhliða göngustíg er þó einungis heimilt að hjóla á hjólastígnum”. Legg til að þessi setning verði sett aftur inn í frumvarpið. Legg jafnframt til að gögngustígar sem liggja samhliða hjólreiðastígum verði skilmerkilega merktir þannig að ljóst sé að þar séu hjóreiðar bannaðar.

Fyrir okkur sem nota göngustíga til heilsubótagöngu eru þeir göngustígar sem liggja samhliða hjólastígum í raun einu göngustígarnir sem við getum notað. Vaxandi umferð hjóla á göngustígum á undanförnum árum, ekki síst kappreiðahjóla, hefur orðið þess valdandi að þeir sem ganga sér til heilsubótar hafa þurft að velja þá stíga innan höfiðborgarsvæðisins þar þar sem hjólastígar eru samhliða göngustíg til að vera ekki í stórhættu vegna hjólreiðaumferðar.

Hjólreiðamenn virðast ekki átta sig á því að ekki er alltaf hægt að reikna með að gangandi vegfrandi haldi beinni stefnu og handahreyfingar geta náð vel út fyrir göngustefnu. Í vaxandi mæli nota hjólreiðamenn ekki bjöllu til að vara gangandi vegfarendur við aðkomu þeirra, heldur þeysast fram úr rétt við göngumanninn. Í raun er ekki síður ástæða til að hjólreiðamenn haldi ákveðinni fjarlægð frá göngumanni við “framúrakstur” en þegar bifreið fer framhjá hjólreiðamanni. Nýjasta hættan eru það sem ég kalla kappreiðahjólamenn. Er á svokölluðum “racerum” sem eru hjól sem eru sér hönnuð að ná sem mestum hraða. Sumir virðast vera að stunda æfingar fyrir hjólreiðakeppnir. Virðist sem svo, og kannski eðlilegt, að þessir kappar vilja ekki missa niður hraða, tekur orku og tíma að að ná fyrri hraða. Þessi hjól eiga ekki heima á göngustígum fremur en formúlu kappakstursbílar á venjulegum akvegum.

Hugsanleg lausn væri að leyfilegur hámarkshraði hjóla á göngustígum verði 25 km/klst en kappreiðahjólamönnum verði þó leyfilegt að ferðast hraðar á göngustígum á ákveðnum tíma dags t.d. frá 07:00-09:00 að morgni og 16:00-19:00 að kvöldi. Gangandi vegfarendur geta þá notað stígana utan þess tíma.

Ljóst er þó að gangslaust er að setja slíkar reglur nema ströng viðurlög verði við brot á þeim og eftirlit með að reglunum verði framfylgt. Löngu tímabært að gafa hjólreiðalögreglu á höfuðborgarsvæðinu eins og tíðkast víða erlendis.

Afrita slóð á umsögn

#13 Þorsteinn Kristinsson - 08.08.2018

Í 83. grein er fjallað um takmörkun eða bann umferðar um stundarsakir og tengist það umræðu um svifryk. Sú umræða hefur verið hávær og ekki að ástæðulausu. Það vekur þó athygli að ekki virðist vera neitt gert til að takast á við að minnka lang skaðlegasti hluti þess, sót. Stærstur hluti þess á uppruna sinn frá stórum díselknúnum farartækum, þ.e. vörubifreiðum, sendibifreiðum, þungavinnuvélum, strætisvögnum og stærri fólksbifreiðum/jeppum. Því er mikilvægt að í grein 83. sé tiltekið að hægt sé að banna umferð bifreiða sem eru knúnir af tilteknu eldsneyti (t.d. dísel). Það er alveg ljóst að af ökutæki sem eru knúin af metan og rafmagni mynda ekki sót. Það verður því að hafa þennan möguleika í lögunum því þó ráðherra geti sett reglugerð um útfærslu þá verður slíkt alltaf að hafa skýra lagastoð.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að sót hefur verið upp undir 2/3 af svifryki* í tilteknum sýnum og alvarleiki þess hvað varðar áhrif á heilsufar virðist því miður vera að stóru leiti vanmetinn í umræðu ráðamanna undanfarin ár.

*Heimild: http://www.vegagerdin.is/vefur2.nsf/Files/uppruni_svifryks_i_reykjavik/$file/Uppruni%20svifryks%20%C3%AD%20Reykjav%C3%ADk.pdf

Afrita slóð á umsögn

#14 Þórarinn Hjörtur Ævarsson - 09.08.2018

Ég geri athugasemd við 48 grein, en þar kveður á um að það eigi að lækka viðmið vínandamagns í blóði úr 0,5% niður í 0,2%. Það viðmið sem verið hefur í gildi um árabil hefur gagnast vel og óþarfi að þrengja frekar að. Öll þau lönd sem við berum okkur helst saman við að Svíþjóð og Noregi undanskildum eru með 0,5% sem viðmið. Þar má nefna Danmörk, Finnland, Þýskaland, Belgíu, Holland, Írland, Skotland, Lúxemborg, Portúgal, Spán og Ítalíu. Það hníga engin rök að því að áfengi hafi önnur áhrif á aksturshæfi hér á Íslandi en á ökumenn staðsetta í þessum stóra hóp upplýstra vestrænna lýðræðisríkja. Þessi þrenging á viðmiðum lyktar af rétttrúnað og refsigleði og mun að mínu mati helst bitna á aðilum sem mögulega hafa drukkið áfengi að kvöldi og eru enn með minniháttar vínanda í blóði morguninn eftir. Alls ekki svo mikinn vínanda að nokkurskonar ölvunaráastands gæti, eða að ófærni til aksturs sé til staðar, en þó það mikinn að viðkomandi telst brotlegur við lög. Í þessu felst að mínu mati verulegt óréttlæti og ég hef sem áhugamaður um skynsemi ekki rekist á neina tölfræði sem sýnir að slysatíðni í þeim löndum sem eru með 0,5% viðmiðið sé hærri en í þeim löndum sem eru með lægra viðmið. Þarna er verið að bregast við vandamáli sem er ekki til staðar, en ökumenn sem eru með 0,5% vínanda í blóði, eða þar undir eru ekki tíðir tjónavaldar. Nær væri að taka fastar á þeirri miklu slysahættu sem er því samfara að nota snjallsíma án handfrjáls búnaðar við akstur. Rannsóknir sýna það að, það fylgir því meiri hætta að senda SMS undir stýri en að aka talsvert ölvaður. Ef mönnum er alvara að draga úr slysum, þá ættu menn að einblína frekar á þennan þátt.

Afrita slóð á umsögn

#15 Samband íslenskra sveitarfélaga - 10.08.2018

Meðfylgjandi er umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um frumvarp til nýrra umferðarlaga.

f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga,

Vigdís Häsler

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#16 Samtök sunnlenskra sveitarfél - 10.08.2018

SASS hefur hagsmuni af framkomnum frumvarpsdrögum þar sem landshlutasamtökin tóku við rekstri almenningssamgangna á Suðurlandi 1. janúar 2012 og halda þeim úti í samvinnu við Strætó bs. á grundvelli einkaleyfis, sbr. 7. gr. laga nr. 73/2001 um fólksflutninga og farmflutninga á landi, sbr. 3. mgr. 35. gr. laga nr. 28/2017 um farþegaflutninga og farmflutninga. SASS vill sem handhafi framangreinds einkaleyfis koma á framfæri eftirfarandi ábendingum vegna framkominna frumvarpsdraga:

Heimild til að veita undanþágur frá kröfum um öryggis- og verndarbúnað.

Í 71. gr. laga nr. 50/1987 er mælt fyrir um notkun öryggis- og verndarbúnað fyrir ökumenn og farþega ökutækja. Í 2. málsl. 7. mgr. 71. gr. laganna er ráðherra heimilað að setja frekari reglur um undanþágu frá skyldu til að nota öryggis- og verndarbúnað m.a. við sérstakan akstur. Í frumvarpsdrögunum er að finna sambærilega heimild til handa ráðherra til að setja reglur um undanþágur frá skyldu til að nota öryggis- og verndarbúnað. Þó kemur fram að ekki sé heimilt að veita undanþágur frá notkun öryggis- og verndarbúnaðar í hópbifreiðum í almenningsakstri í dreifbýli á vegum þar sem heimil sé að aka hraðar en á 80 km/klst. Í athugasemdum við frumvarpsdrögin kemur fram að þessi takmörkun sé sett á heimild til að veita undanþágur vegna þeirrar sérstöku hættu sem standandi farþegum og öðrum farþegum sem eru festir með öryggisbeltum sé búin af hröðum akstri utan þéttbýlis.

SASS gerir athugasemd við þessari takmörkun og bendir á að ráðherra hafi þegar nýtt sér framangreinda heimild á grundvelli gildandi laga. Í reglugerð nr. 358/2007 um notkun öryggis- og verndarbúnaðar með síðari breytingum er gerð undanþága frá kröfum um búnað fyrir börn í hópbifreiðum, sbr. 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.

Lagt er til að almenningssamgöngur verði skilgreindar sérstaklega.

Í frumvarpsdrögunum er að finna nýmæli í 24. tl. 3. gr. en í töluliðnum er hópbifreið í almenningsakstri skilgreind. Notast er við sömu skilgreiningu á reglubundnum farþegaflutningum og í 13. tl. 3. gr. laga nr. 28/2017 um farþegaflutninga og farmflutninga á landi. SASS leggur til í því skyni að taka af tvímæli hvað felst í almenningssamgöngum að þær verði skilgreindar sérstaklega líkt og gert er í framangreindum lögum nr. 28/2017.

Varúðarskylda og forgangur.

Í 20. gr. frumvarpsins er fjallað um varúðarskyldu vegna hópbifreiða í almenningsakstri sem er að finna í 18. gr. gildandi laga. Í ákvæðinu er mælt fyrir um tiltekinn forgang hópbifreiða í almenningsakstri þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. eða lægri. SASS bendir á að það kunni í þessu samhengi að vera réttara að mæla fyrir um forgang hópbifreiða í almenningsakstri við framangreindar aðstæður í stað varúðarskyldu eða jafnvel bæði.

Afrita slóð á umsögn

#17 Bergný Jóna Sævarsdóttir - 10.08.2018

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Sölvhólsgötu 7

101 Reykjavík

Reykjavík 9. ágúst2018

Efni: Umsögn um frumvarp til nýrra umferðalaga

Strætó fagnar því að unnið sé að bættum umferðarlögum og hvetur til áframhaldandi fagmennsku við gerð frumvarpsins þannig að ákvæði, hugtök og útskýringar séu með sem skýrustum hætti.

Almenningssamgöngum er sífellt gert hærra undir höfði í samfélaginu og því mikilvægt að til sé nákvæm og skýr skilgreining á hugtökum þeim tengdum en þannig má auka líkur á bættu umferðaöryggi allra.

Í 3. gr. frumvarpsins, 24. tl. er ekki ljóst við hvað er átt þegar talað er um hópbifreiðar í almenningssamgöngum en grundvallarmunur er t.d. á almenningssamgöngum og akstri hópbifreiða í afþreyingarskyni. Með auknum forgangi almenningssamgangna er stuðlað að því að fleiri velji sér umhverfisvænni ferðamáta til að ferðast með til og frá vinnu, skóla eða til að sinna öðrum erindum. Því fleiri sem velja að ferðast með almenningssamgöngum og á annan vistvænan máta má leiða líkum að því að lífsgæði fólks verði betri og mengun minnki. Í þessu samhengi er mikilvægt að veita almenningssamgöngum eins mikinn forgang og MÖGULEGT er í umferðinni og gera þeim hærra undir höfði.

Þá er mikilvægt að aðgreina almenningssamgöngur frá öðrum almennum akstri hópbifreiða og þar telst skilgreiningin á Hópbifreið í almenningsakstri vera alltof óskýr. Í lögum þarf að greina á milli almenningssamganga sem reknar eru með almenningshagsmuni að sjónarmiði og aksturs hópbifreiða í afþreyingarskyni.

Í 20. gr. er lagt til að hámarkshraði í undanþágu frá 1. málsl. 1. mgr. sé hækkaður í a.m.k 60 km/klst. en ekki 50 km/klst. eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Núverandi aðstæður í akstri hópbifreiða í almenningsakstri eru oft á tíðum þannig að ökumenn þeirra eiga í vanda þegar kemur að því að koma sér aftur út á akbraut þar sem hraðinn er meiri. Mun þetta t.d. eiga við götur eins og Miklubraut, Suðurlandsbraut og Hringbraut í Reykjavík ef af breytingu verður. Mikilvægt er að umferð almenningssamgagna sé tryggð í umferðinni og dregið úr hættu þeim tengdum. Reglur þurfa því að vera með sem skýrustum hætti þannig að auknar líkur eru á því að almenningur taki tillit og greiði fyrir umferð þeirra.

Í grein 75 er talað um að ekki megi aka almenningsvögnum á vegi þar sem heimilt er að aka hraðar en 80. Strætó vill vekja athygli á því að með breytingunni verður ekki hægt að tengja Kjalarnes við almenningsamgöngukerfið á þann hátt að hægt verði að nota svokallaðan gulan vagn.

Strætó leggur að heimilt verði að setja setja reiðhjólafestingar framan á strætisvagna og auka þar með möguleika almennings á að tengja saman vistvæna ferðamáta, hjól og almenningssamgöngur.Í dag er takmarkað pláss í vögnum til að flytja reiðhjól á höfuðborgarsvæðinu og þarf oft að vísa hjólreiðafólki frá því að koma í vagninn. Þekkist þetta fyrirkomulag í nokkrum löndum.

Strætó fagnar því að vægi hópbifreiða í almenningsakstri sé gert hærra undir höfði í lögunum en eins og áður hefur verið nefnt má ganga skrefinu lengra og skýra hugtakið enn betur þannig að ekki fari á milli mála við hvað er átt. Þannig er þörf á að bæta t.d. við skilgreiningu í 3. gr. laganna þar sem almenningssamgöngur væru útskýrðar með skýrum hætti.

Tryggja þarf að merkingar á sérreinum séu með sem skýrustum hætti og takmarkað sé eins og hægt er að blanda saman farartækjum sem ekki eiga samleið.

Það er von forsvarsmanna Strætó að tekið sé tillit til ofangreindra atriða.

Virðingarfyllst,

Jóhannes Rúnarsson

Framkvæmdastjóri Strætó.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#18 Samgöngufélagið - 10.08.2018

Meðfylgjandi er umsögn Samgöngufélagsins, dags. 10. ágúst 2018, um drög að frumvarpi til nýrra umferðarlaga,

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#19 Samtök atvinnulífsins - 10.08.2018

Umsögn Samtaka atvinnulífsins um drög að nýjum umferðarlögum.

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#20 Árni Davíðsson - 10.08.2018

Meðfylgjandi er umsögn Landssamtaka hjólreiðamanna um frumvarp til nýrra umferðarlaga, Mál nr. S-97/2018, eins og það er kynnt á samráðsgátt stjórnvalda: https://samradsgatt.island.is/oll-mal/$Cases/Details/?id=97 .

Til að spara tíma og fyrirhöfn er umsögnin sett fram með sama hætti og fyrri umsögn samtakanna við frumvarpið á samráðsgáttinni, Mál nr. S-21/2018. Ennfremur er „Ákvæði“ og „Greinargerð“ óbreytt frá því frumvarpi.

f.h. stjórnar LHM

Árni Davíðsson

formaður stjórnar

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#21 Gunnar Valur Sveinsson - 10.08.2018

Sendi hér umsögn fyrir hönd SA, SAF, SI og SVÞ

Viðhengi
Afrita slóð á umsögn

#22 Viðskiptaráð Íslands - 10.08.2018

Umsögn Viðskiptaráðs Íslands um frumvarp til nýrra umferðarlega er í viðhengi.

Viðhengi