Tímalína máls

1

Til umsagnar

  • 25.7.–14.8.2018

2

Í vinnslu

  • 15.8.2018–8.4.2019

3

Samráði lokið

  • 9.4.2019

Skjöl til samráðs

Mál nr. S-98/2018

Birt: 25.7.2018

Fjöldi umsagna: 3

Drög að frumvarpi til laga

Dómsmálaráðuneytið

Almanna- og réttaröryggi

Frumvarp til nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka

Niðurstöður

Frumvarpið var sett á vef Stjórnarráðsins og birt í Samráðsgáttinni til kynningar fyrir almenningi. Þrjár umsagnir bárust í gegnum gáttina, frá Neytendastofu, Samtökum iðnaðarins og Félagi íslenskra gullsmiða og Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF). Í umsögn Neytendastofu komu m.a. fram tillögur um breytingar á orðalagi á viðskiptum með reiðufé sem teknar voru til greina auk þess sem lagt var til að fjölga skráningarskyldum aðilum. Ekki þótti tilefni til að ganga lengra varðandi kröfu um skráningu en frumvarpið kveður á um að sinni. Í umsögn Samtaka iðnaðarins og Félags íslenskra gullsmiða voru gerðar athugasemdir við skráningarskyldu gullsmiða. Var það mat umsagnaraðila að kröfurnar væru of íþyngjandi og gætu takmarkað atvinnufrelsi gullsmiða. Komið var til móts við umsögnina með því að draga úr skilyrðum skráningar og samræma þær að mestu leyti við kröfur laga um einkahlutafélög. SFF taldi í umsögn sinni að með heimildum eftirlitsaðila til að leggja á stjórnvaldssektir væri gengið mun lengra en gerð er krafa um samkvæmt tilskipuninni. Ákvæði tilskipunarinnar hvað varðar viðurlög kveður á um þann lágmarksramma sem þarf að taka upp í landslög og aðildarríkjum falið að sjá um nánari útfærslu í takt við lagahefðir í hverju ríki fyrir sig. Við athugun á útfærslu viðurlagaákvæði í nokkrum aðildarríkjum kom í ljós að viðurlagakafli frumvarpsins hefur ekki verið innleiddur með samræmdum hætti. Stjórnvaldssektaákvæði frumvarpsins er í samræmi við sambærileg viðurlagaákvæði á fjármálamarkaði og ekki talið tilefni til að víkja frá því fyrirkomulagi í þessu frumvarpi. Mælt var fyrir frumvarpinu á Alþingi 7. nóvember 2018 sjá hér á vef Alþingis https://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=149&mnr=314

Málsefni

Um er að ræða drög að frumvarpi til nýrra heildarlaga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Frumvarpið er innleiðing á fjórðu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins 2015/849/EB.

Nánari upplýsingar

Frumvarpið er samið af starfshópi sem dómsmálaráðherra skipaði til innleiðingar á fjórðu peningaþvættistilskipun Evrópusambandsins (2015/849/EB) og valin ákvæði úr fimmtu peninga-þvættis¬tilskipun Evrópusambandsins (2018/843/EB). Fjórða peningaþvættistilskipunin tók gildi í Evrópusambandinu 27. júlí 2017 og verður tekin upp í EES-samninginn í október 2018. Tilskipunin er heildarendurskoðun á tilskipun 2005/60/EB með síðari breytingum um sama efni. Fimmta peningaþvættistilskipunin, sem var birt í stjórnartíðindum Evrópusambandsins þann 19. júní 2018, breytir nokkrum ákvæðum fjórðu tilskipunarinnar. Þótti tilefni til að taka einstök ákvæði hennar upp við þessa heildarendurskoðun á gildandi lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka nr. 64/2006.

Þrátt fyrir að um heildarskoðun laganna sé að ræða byggja þau á grunni eldri laga. Meginefni laganna snýr að skyldu tilkynningarskyldra aðila til að framkvæma áreiðanleikakönnun, haga innra skipulagi með þeim hætti að þeim sé kleift að greina grunsamlegar færslur og tilkynna til skrifstofu fjármálagreiningu lögreglu allar grunsamlegar færslur eða viðskipti.

Til að tryggja að einstök ákvæði frumvarpsins séu ekki of íþyngjandi fyrir litla tilkynningarskylda aðila sem stunda einsleita starfsemi er gert ráð fyrir því að tekið sé tillit til til stærðar, eðlis og umfangs tilkynningarskyldra aðila og margbreytileika starfseminnar.

Samráði lokið

Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.

Umsjónaraðili

Skrifstofa almanna- og réttaröryggis

postur@dmr.is