Ráðherra mælti fyrir frumvarpinu á vorþingi 152. löggjafarþings og varð það að lögum nr. 56/2022.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 17.01.2022–31.01.2022.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 15.07.2022.
Í frumvarpi þessu sem er samið í heilbrigðisráðuneytinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Með breytingunum eru nikótínvörur felldar undir gildissvið laganna, þar á meðal nikótínpúðar.
Frumvarp þetta var unnið í heilbrigðisráðuneytinu og er ætlunin með því að setja skýrar reglur um heimildir til sölu, markaðssetningar og notkunar á nikótínvörum, þar á meðal nikótínpúðum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, á þann veg að nikótínvörum er bætt inn í lögin á viðeigandi staði sem hefur það í för með sér að þær muni að mestu leyti lúta sömu reglum og gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir þær. Með því eru settar heildstæðar reglur um heimildir til innflutnings, sölu og markaðssetningar á nikótínvörum, auk reglna um eftirlit með slíkum vörum til að viðhlítandi öryggi verði tryggt.
Með frumvarpinu er lagt til að sömu reglur gildi um aldurstakmark fyrir kaupum og sölu á nikótínvörum og þegar gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir þær, þannig að einungis einstaklingum eldri en 18 ára verði heimilt að kaupa nikótínvörur og sama gildi um þá sem selja nikótínvörur. Lagt er til óheimilt verði að hafa á umbúðum nikótínvara texta eða myndmál sem geti höfðað sérstaklega til barna og ungmenna, m.a. með myndskreytingum eða slagorðum, og þannig hvatt til neyslu nikótínvara, en hið sama gildir í dag um rafrettur og áfyllingar fyrir þær. Lagt er til að kveðið verði á um að tryggt sé að nikótínvörur séu ekki staðsettar þar sem börn nái til. Þá er lagt til að óheimilt sé að flytja inn, framleiða og selja nikótínvörur og rafrettur sem innihalda bragðefni sem kunna að höfða til barna. Ráðherra skal setja reglugerð um nánari útfærslu þessa ákvæðis, svo sem um frekari takmarkanir á nikótínvörum og rafrettum sem innihalda bragðefni.
Með frumvarpinu er lagt til að sömu reglur gildi varðandi markaðseftirlit og tilkynningar fyrir markaðssetningu nikótínvara og þegar gilda um rafrettur og áfyllingar fyrir þær skv. IV. kafla laga nr. 87/2018. Í því felst m.a. að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fer með markaðseftirlit með nikótínvörum í samræmi við ákvæði laganna og reglna settra samkvæmt þeim. Það þýðir einnig að framleiðendum og innflytjendum nikótínvara, sem þeir hyggjast setja á markað, verður gert að tilkynna um slíkt til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sex mánuðum áður en markaðssetning er fyrirhuguð og er ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð um nánari útfærslu á tilkynningum til stofnunarinnar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er einnig veitt heimild til að taka gjald fyrir móttöku tilkynninga og er henni gert að birta á vef sínum upplýsingar um þá aðila sem uppfyllt hafa skilyrði tilkynningarinnar. Þá er stofnuninni heimilað að krefjast þess að framleiðendur eða innflytjendur nikótínvara veiti upplýsingar um tiltekna hluta vörunnar og innihald hennar, auk þess að leggja fram sýnishorn af vöru í því magni sem nauðsynlegt er til að meta eiginleika hennar og áhrif. Einnig er sú skylda lögð á herðar framleiðendum, innflytjendum og dreifingaraðilum að grípa tafarlaust til ráðstafana ef ástæða er til að ætla að nikótínvörur sem eru í vörslu þeirra séu ekki öruggar eða að öðru leyti ekki í samræmi við lög. Einnig er framleiðendum og innflytjendum nikótínvara gert að upplýsa embætti landlæknis og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun árlega um sölu og neysluvenjur á nikótínvörum í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur.
Frestur til að skila inn umsögnum er til og með 31. janúar 2022.
Vinsamlegast látið þessar vörur í friði. Nikótínpúðar með bragðefni er það eina sem hjálpaði mér og öðrum að hætta íslensku neftóbaki! 18 ára aldurstakmark er eitt en ef það á að takmarka skammt við sama magni og fæst í nikótíntyggjói þá mun það ekki vera niktótínfýklum eins og mér til framdráttar. Ég margprófaði tyggjó, töflur, plástra og nikótín púða frá zonic en ekkert virkaði vel eins og þær tegundir sem eru framleiddar í svíþjóð eða hérlendis.
Hættið þessu ofríki og látið þennan varning í friði
Meðfylgjandi er umsögn velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna breytinga á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.
ViðhengiFrumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur)
Mál nr. 12/2022
Heilbrigðisráðuneytið – Lýðheila og stjórnsýsla velferðarmála
Umsögn Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins
Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins fagnar framkomnu frumvarpi sem setur nauðsynlegar og mjög tímabærar lagareglur um nikótínpúða. Félagið fagnar líka þeim breytingum sem gerðar hafa verið á frumvarpinu.
Eina athugasemdin sem félagið gerir enn og aftur er að hefðum viljað sjá að lög um rafsígarettur og nikótínvörur (þær vörur sem falla ekki undir lyfjalög) hefðu verið færð undir tóbaksvarnarlög; Allar nikótínvörur sem ekki eru skilgreindar sem lyf ættu að falla undir tóbaksvarnarlög.
Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins gerir ekki frekari athugasemdir en áður hafa komið fram og treystir á að það verði samþykkt sem allra fyrst.
Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins hefur alla tíð barist fyrir takmörkunum á tóbaksneyslu til að koma í veg fyrir margvíslegt heilsutjón af völdum hennar. Tóbaksvarningur (reyktóbak, reyklaust tóbak, rafrettur og aðrar nikótínvörur) er mjög ávanabindandi og rannsóknir benda til þess að fikt með slíkar vörur þróist oft út í daglega notkun, ekki síst meðal unga fólksins.
Virðingarfyllst,
Árni Einarsson Guðlaug B. Guðjónsdóttir
formaður framkvæmdastjóri
Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins
ViðhengiSú athugasemd er gerð við framkomin drög að þau geyma óskýrt framsal á valdi til stjórnvalds. Í drögum segir að bannað skuli að flytja inn, framleiða og selja vörur sem innihalda bragðefni sem kunna að höfða til barna. Ráðherra er falið að setja reglugerð um nánari útfærslu á þessu atriði. Hætt er við að heimildin feli ráðherra vald að takmarka atvinnustarfsemi þeirra sem hafa með innflutning, framleiðslu og/eða sölu eftir geðþótta hverju sinni. Það yrði þá með þeim einum rökum að tiltekið bragðefni höfði til barna. Undirritaður ætlar fyrirséð að þessum rökum megi beita um öll bragðefni í nikótínvörum.
Umsögn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um drög að frumvarpi til laga um nikótínvörur er í meðfylgjandi skjali.
ViðhengiGóðan daginn,
meðfylgjandi er umsögn Neytendstofu um drög að frumvarpinu.
ViðhengiUmsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur) Þingmál nr. 12/2022.
Krabbameinsfélagið fagnar frumvarpi til breytinga á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.
Félagið telur hins vegar að enn betur fari á því að fella vörurnar, bæði rafsígarettur, áfyllingar og aðrar nikótínvörur undir tóbaksvarnarlög.
Markaðssetning á nikótínvörum er gjarnan á þá lund að þær séu hættulausar. Það er ekki rétt. Nikótín er unnið úr tóbaki. Nikótín er skaðlegt og heilsufarsleg áhrif þess eru að hluta til þekkt, einkum varðandi hjarta- og æðasjúkdóma. Vísbendingar eru um krabbameinsvaldandi áhrif nikótíns.
Umræddar vörur eru einnig oft markaðssettar þannig að þær annars vegar höfði til unglinga eða ungs fólks og hins vegar þannig að þær geti hjálpað fólki til að hætta að reykja. Rannsóknir hér á landi sýna að á þeim tíma sem umræddar vörur hafa verið á markaði hefur neysla þeirra aukist mjög mikið, allt niður í grunnskólaaldur. Mikilvægt er að vinna gegn því.
Nikótín er mjög ávanabindandi efni og rannsóknir sýna að fólk sem notar rafsígarettur er líklegra til að byrja að reykja en þeir sem ekki nota slíkar vörur. Rannsóknir sýna einnig að notkun rafsígaretta hindrar fólk ekki í að nota aðrar og skaðlegri vörur. Líklegt verður að teljast að sama gildi um aðrar nikótínvörur, vegna ávanabindandi áhrifa. Unglingar og ungt fólk notar vörurnar sjaldnast til að hætta að reykja.
Krabbameinsfélagið óttast að nýjar nikótínvörur geti dregið úr þeim mikla árangri sem áratugalangt tóbaksvarnarstarf hefur haft á lýðheilsu hér á landi.
Að mati félagsins er augljóst að varðandi nikótínvörur skuli láta lýðheilsusjónarmið ganga fyrir og að þau njóti vafans í öllum tilfellum.
Krabbameinsfélagið undirstrikar ánægju með fyrirhugaða lagasetningu um nikótínvörur, sem æskilegt er að taki gildi sem fyrst. Félagið hvetur hins vegar jafnframt til þess að stigið verði enn fastar til jarðar og vörurnar felldar undir tóbaksvarnarlög.
Meðfylgjandi er umsögn Umhverfisstofnunar.
ViðhengiUmsögn Barnaheilla - Save the Children á Íslandi um drög að frumvarpi til breytinga á lögum nr. 87/2018 um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur).
Barnaheill – Save the Children á Íslandi þakka fyrir boð um að senda inn athugasemdir við ofangreint mál að nýju.
Barnaheill minna á fyrri tillögu um að fjalla þarf um áhrif fyrirhugaðra lagabreytinga á börn í greinargerð með frumvarpinu, en skv. 3. gr. Barnasáttmálans skal taka allar ákvarðanir sem hafa áhrif á börn með það sem þeim er fyrir bestu að leiðarljósi.
Samtökin fagna því að loks sé komið fram lagafrumvarp, sem setur takmarkanir á sölu á nikótínvörum á borð við þær sem nú þegar eru í gildi um rafrettur, svo sem 18 ára aldurstakmark bæði fyrir kaupendur og seljendur, að viðvaranir skuli hafðar á umbúðum varanna, að varan skuli ekki vera sýnileg í verslunum auk annarra tillagna sem í frumvarpsdrögunum fram koma.
Barnaheill hafa haft áhyggjur af því takmarkalausa aðgengi sem börn og unglingar hafa haft að nikótínvörum í almennum verslunum og vitað er að notkun nikótínpúða er afar algeng á meðal ungmenna og barna allt niður í grunnskóla.
Barnaheill kalla áfram eftir því að í greinargerð með frumvarpinu verði sérstaklega fjallað um verslun á neti og hvaða reglur skuli gilda um hvernig einstaklingar skuli sýna fram á að þeir hafi náð 18 ára aldri hyggist þeir kaupa nikótínvörur í gegnum vefverslanir. Að mati Barnaheilla er ekki nóg að leggja þá ábyrgð í hendur söluaðila eins og nú er gert ráð fyrir heldur þyrfti að kveða sérstaklega um það í lögunum.
Um vefverslanir sem selja nikótínvörur þarf að kveða skýrt á um hvernig þær megi kynna vörur á netinu því vefverslanir geta jú verið aðgengilegar börnum. Við skoðun á vefverslunum sem selja rafrettur og nikótínvörur má sjá að engar takmarkanir eru á aðgengi inn á síður þeirra, engar tilkynningar um að aðeins þeir sem séu 18 ára eða eldri megi stunda þar viðskipti.
Mikilvægt er að halda vörð um þann góða árangur sem náðist hér á landi þegar dró verulega úr reykingum og tóbaks-/nikótínneyslu barna og ungmenna frá 10. áratugnum og fram eftir nýrri öld. Því miður hafa kannanir gefið til kynna, eins og áður var nefnt, að töluverður fjöldi barna, ánetjast nú nikótínvörum þar sem ekki hefur verið brugðist nægilega fljótt við að setja reglur um sölu slíkra vara. Þess vegna er þeim mun mikilvægara að efla forvarnir til að vara við fíkni-hættu af nikótínvörum og slæmum heilsufarsafleiðingum af neyslu þeirra.
Mikilvægt er að þessu frumvarpi verði fylgt eftir og það lagt fyrir Alþingi og þaðan afgreitt sem lög sem allra fyrst, að teknu tilliti til athugasemda.
Barnaheill leggja mikla áherslu á forvarnir í víðum skilningi og hafa Barnasáttmálann að leiðarljósi í öllu sínu starfi.
ViðhengiMeðfylgjandi umsögn er fh. Sven ehf. um breytingar á lögum nr. 87/2018, mál nr. 12/2022.
ViðhengiUmsögn um Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur (nikótínvörur) Mál nr. 12/2022
Reykjavík 31. Janúar 2022
Í samráðsgátt stjórnvalda er til kynningar frumvarp til breytinga á lögum um rafrettur og varða þær fyrirhugaða leyfisveitingu til sölu á nikótínpúðum sem eru ætlaðir til að setja í munn og spýta svo að lokinni notkun. Nokkur fjöldi tegunda af slíkum púðum er þegar í sölu hér á landi en óljóst er hvaða leyfi eru að baki þeim innflutningi eða hver hafi haft eftirlit með sölu þeirra.
Neytendur taka líklega sem sjálfsögðum hlut að vörur í verslunum séu öruggar til neyslu eða notkunar á þann hátt sem þær eru seldar. Vörur sem þurfi sérstaka aðgæslu við séu seldar með viðeigandi takmörkunum. Vörur sem geti verið hættulegar heilsu fólks hafi almennt viðvaranir um notkun, barnalæsingar á umbúðum osfrv. Í tilviki eiturefna þurfi m.a.s. leyfi til að kaupa þær og nota.
Nikótín innihald er ástæða þess að púðarnir seljast enda er það þekktast sem drifkraftur reykinga og tóbaksneyslu hjá þeim sem eru með nikótínfíkn. Í starfi mínu sem heimilislæknir hef ég rekist á skjólstæðinga sem eru að kynna sér þessa vöru, hafa áhuga á að prófa hana til meðferðar við fráhvörfum frá tóbaki eða til að minnka reykingar. Styrkur nikótíns er ekki alltaf gefið upp með beinum hætti og þau lýsa ferli við að prófa sig áfram, vanlíðan með ofskömmtun, svefnerfiðleikum og nætursvita sem lagast svo þegar notkun er hætt. Þegar talað er um að hver púði geti innihaldið etv 16 mg af nikótíni þá er það hár stakur skammtur. Til samanburðar innihalda forðaplástrar með nikótíni sem seldir eru til að slá á fráhvarfseinkenni frá 7 til 21 mg og eru ætlaðir til notkunar í 16 klst. Þetta er ekki bara eins og að kaupa sterkt jalapeno, nikótín í ofskammti getur haft alvarlegar afleiðingar.
Neytendur sem nota nikótínuppbótarmeðferð eiga rétt á öruggum vörum í sölu eins og aðrir og slíkar vörur eru þegar á markaði sem skrásett og prófuð lyf.
Eitrunarmiðstöð Landspítalans hefur fengið mörg símtöl vegna nikótínpúða eða rafrettuvökva en hvoru tveggja eru þetta vörur sem eru í sölu og inniheldur nikótín. Í viðtali við Ragnar Bjarnason yfirlækni bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins í nóvember 2020 kom fram að börnin séu að herma eftir hegðun fullorðna fólksins að stinga púðum upp í sig. Þegar barn er útsett skiptir sköpum hversu mikið af nikótíni er innbyrt og þarf ekki mikið magn til að valda skaða. Því er þeim mun meiri hætta sem stakar einingar innihalda meira nikótín. Auk þess þarf að huga að heildarmagninu í pakkningunni út frá sömu sjónarmiðum. Í notuðum púðum getur einnig verið töluvert nikótín, ef börn ná í þá.
Ef leyfa á hér á markaði nýja vöru með nikótíni þá eiga þeir einstaklingar sem eru háðir því rétt á að vara sem seld er sé merkt með nikótíninnihaldi og að gætt sé að því að öryggi þeirra sem neytenda varðandi annað innihald púðanna. Nikótín vekur hins vegar fljótt fíkn hjá þeim sem nota það og viðvaranir þar um eru einnig sjálfsagðar. Markaðssetning þessarar vöru sem þegar hefur orðið, án þess að skýrt sé hver eigi að hafa með henni eftirlit, vekur hins vegar spurningar um hvort allar vörur með nikótíninnihaldi (sem ekki eru lyf) ættu betur heima undir tóbaksvarnarlögum.
Með von um að þetta geti verið gagnlegt innlegg í umræður um þessi frumvarpsdrög.
Bestu kveðjur,
Lilja Sigrún Jónsdóttir, heimilislæknir og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins.
Í viðhengi er að finna umsögn frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga
Kær kveðja
Edda Dröfn Daníelsdóttir
Sviðsstjóri fagsviðs Fíh
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn lausasöluhóps SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu um drög að frumvarpi um breytingu á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, nr. 87/2018, (nikótínvörur).
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Dufland ehf. vegna breytinga á lögum nr. 87/2018, um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur.
ViðhengiHjálagt er umsögn við mál nr. 12/2022.
Viðhengi