Í kjölfar samráðs voru drög að frumvarpi skrifuð í heilbrigðisráðuneytinu og voru þau birt í Samráðsgátt 27. janúar 2023, sjá slóð.
Málið var opið til umsagnar í gáttinni á tímabilinu 21.12.2022–10.01.2023.
Umsagnir voru birtar jafnóðum og þær bárust. Skoða umsagnir.
Unnið var úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust og niðurstöður samráðsins birtar 03.05.2023.
Áform heilbrigðisráðherra um að móta skýrari lagaheimild fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldi og um sérstaklega hættulega einstaklinga.
Fyrirhugað er að semja lagafrumvarp í heilbrigðisráðuneytinu og lögfesta skýra heimild fyrir heilbrigðisstarfsmenn til þess að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldismál sem rata inn á borð heilbrigðisstarfsmanna og til að miðla nauðsynlegum upplýsingum til lögreglu í málum vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga.
Ef um ítrekaðar komur vegna heimilisofbeldis á heilbrigðisstofnun er að ræða, ef ófrísk kona kemur á heilbrigðisstofnun í kjölfar heimilisofbeldis og/eða ef þolandi greinir frá því að hafa verið tekinn kyrkingartaki í tengslum við heimilisofbeldi myndi samræmt verklag heilbrigðisstofnana vegna móttöku þolenda heimilisofbeldis virkjast og lögregla upplýst um málið.
Þá yrði með fyrirhuguðu lagafrumvarpi sett skýr lagaheimild fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að taka við og til að miðla upplýsingum til lögreglu í málum vegna sérstaklega hættulegra einstaklinga. Slíkt kæmi einungis til greina þegar rökstutt mat lögreglu lægi fyrir um að viðkomandi einstaklingur væri sérstaklega hættulegur. Miðlun upplýsinga færi þá fram á lokuðum fundum í formi þverfaglegs samráðs og að frumkvæði lögreglu.
Ýmis atriði hafa komið upp við vinnslu áformanna, fyrir utan lög og reglur um persónuvernd, miðlun viðkvæmra persónuupplýsinga og siðareglur heilbrigðisstarfsfólks. Til dæmis mögulegur fælingarmáttur þolenda að leita sér heilbrigðisþjónustu, ábyrgð heilbrigðisstarfsmanna að hafa samband við lögreglu, mikilvægi þess að virða sjálfsákvörðunarrétt þolanda, hver yrði forvarnarþáttur og skilaboð til samfélagsins með breytingu á lögum og hvernig styrkir það stöðu þolenda og aðstandanda þeirra (oft börn) ef ekkert er að gert. Þessi atriði og fleiri þarf að ræða ítarlega með haghöfum við gerð frumvarps.
Hvað varðar heimilisofbeldi þá skulu heilbrigðisstarfsmenn, skv. gildandi lögum, gæta fyllstu þagmælsku um allt það sem þeir komast að í starfi sínu, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 34/2012, um heilbrigðisstarfsmenn. Aðeins má víkja frá þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar, á grundvelli samþykkis sjúklings eða samkvæmt ákvæðum annarra laga. Skilyrðið um brýna nauðsyn getur talist uppfyllt í heimilisofbeldismálum en það hefur reynst vera heldur matskennt og þolendum þar með ekki endilega til hagsbóta.
Vegna alvarleika heimilisofbeldismála, stöðu þolenda og óljósra heimilda til að tilkynna til lögreglu þykir vera ríkt tilefni til að endurskoða lögin og veita heilbrigðisstarfsfólki sérstaka heimild til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi. Lagabreyting myndi stuðla að því að lögreglu yrði í auknum mæli gert kleift að veita aðstoð sína, þar sem ætla má að þolendur slíks ofbeldis veigri sér við að leita réttar síns og þekki réttindi sín oft ekki nægilega vel. Án lagabreytingar geta lög og reglur, sérstaklega um þagnarskyldu, hamlað framgangi mála hjá lögreglu og í einhverjum tilfellum komið í veg fyrir að þolandi fái viðeigandi aðstoð. Þannig getur lagumhverfið viðhaldið ofbeldisaðstæðum þolanda í stað þess að stíga inn í aðstæður og veita alla tiltæka aðstoð sem þolandi á rétt á.
Markmið með breytingunni er að auka þjónustu við þolendur heimilisofbeldis og að auka vernd þolenda ofbeldis. Aðferðin við að ná því markmiði er að brúa bilið sem vantar í löggjöfina þannig að ákvæði um þagnaskyldu og annað hindri ekki framvindu mála í þeim tilvikum sem hér er lýst.
Áform heilbrigðisráðherra um að móta skýrari lagaheimild fyrir heilibrigðisstarfsfólk til að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldi og um sérstaklega hættulega einstaklinga.
Umsögn Samtaka um Kvennaathvarf
Samtök um Kvennaathvarf (SUK) styður allar þær breytingar sem eru til hagsbóta fyrir þolendur heimilisofbeldis. Við teljum það gott framfaraskref að sníða vinnslu mála betur að þörfum þolenda og að unnið sé almennt að betra flæði í upplýsingagjöf frá heilbrigiðsstarfsmönnum til lögreglu.
Að þessu sögðu þá telja SUK engu að síður mikilvægt að hugað sé að vissum atriðum áður en að mótuð er slík lagaheimild og er það okkar mat að huga þurfi að frekari breytingum innan kerfisins áður en kynnt lagaheimild kemur til framkvæmda.
Mikilvægt er að breytingarnar leiði ekki af sér að þolendur heimilisofbeldis upplifi að öryggi þeirra og trausti sé ógnað sökum aðgerða heilbrigðisstarfsmanna. SUK hefur orðið þess áskynja að þolendur sem til okkar leita forðast að leita til heilbrigðisstarfsmanna sökum ótta við að mál verði tilkynnt. Þetta gefur til kynna að stíga þurfi einkar varlega til jarðar. Eftirfarandi atriði teljum við mikilvægt að höfð séu í huga.
• Mikilvægt er að verklag heilbrigðisstarfsmanna sé þróað með það fyrir augum að búið sé að fastmóta hvernig unnið er með þolendum áður en kemur að því að veita upplýsingar áfram, t.d. hvernig þeim er kynnt þeirri samvinnu verður háttað og hvað hún felur í sér.
• Reynsla okkar er sú að lögregla og barnavernd eiga oft erfitt með að fylgja málum eftir af festu, einfaldlega vegna manneklu og fjárskorts. Því þarf að tryggja nægar fjárheimildir inní málaflokkinn þannig að hægt sé að vinna málin hratt og örugglega eftir að þau hafa verið tilkynnt. Í núverandi kerfi þurfa þolendur oft að bíða lengi eftir úrvinnslu mála í kerfinu. Það má ekki gerast að úrvinnsla þessara mála dragist eftir að brotamanni er ljóst að búið er að afhjúpa ofbeldið sem hann stundar gegn þolandanum. Þess vegna er mjög mikilvægt að ekki sé farið af stað með þetta verklag án þess að tryggt sé að hægt sé að halda viðeigandi málshraða á þeim málum sem fara þessa nýju leið í kerfinu.
• Lagalegt umhverfi þarf að vinna í þágu þeirra sem verða fyrir ofbeldinu. Mikilvægt er að þolendur hafi trú á kerfinu og að lög og reglugerðir stangist ekki á. Sem dæmi um lög sem þarf að endurskoða til þess að slík lagabreyting gangi upp eru lög nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Skoða þarf sérstaklega þær kröfur sem lagðar eru til grundvallar nálgunarbanns og hvernig slíku banni er framfylgt. Einnig þarf að skoða Barnalög nr. 75/2003. Þar þarf t.d. að skoða þann möguleika að þolanda sé veitt bráðabirgðaforsjá yfir börnum á meðan á vinnslu máls stendur yfir. Að lokum teljum við að endurskoða þurfi Hjúskaparlög nr. 31/1993, þá sérstaklega með tilliti til þess þolandi hafi kost á að fá skilnað afgreiddan hraðar en gert er í dag og að hægt sé að krefjast opinberra skipta án þess að þolandi ofbeldis þurfi að leggja fram háar tryggingar fyrir dómi til að fá samþykkta kröfu um opinber skipti. Hluti af ofbeldi geranda felur iðulega í sér takmarkaðan aðgang að sameiginlegum fjármunum og því ætti sú krafa ekki að vera sett á þolanda að hann þurfi að leggja fram háar fjárhæðir til að opinber skipti fáist samþykkt.
Þolendur heimilisofbeldis eru margir hverjir í hættu öllum stundum og er algengt að sú ógn sem stafar af geranda aukist er mál eru tilkynnt eða ef þolandi yfir höfuð segir frá ofbeldinu. Því er mikilvægt að slíkar lagabreytingar auki ekki á þá hættu eða feli í sér fælingarmátt fyrir þolendur. Tryggja þarf að farið sé fram með slíkar breytingar með sérstakri festu og fjármagni, um leið og tryggt er að þær stofnanir sem að sjá um framkvæmd séu í stakk búnar fyrir slíka aðgerð. Það er okkar mat að þessi málaflokkur sé flókinn og einstaklega viðkvæmur og því brýnt að endurskoða hann heildstætt. Við mælum því með að slíkar breytingar séu ekki gerðar einangrað heldur séu þær hluti af nauðsynlegum og breytingum og umbótum á tengdum lögum, reglum og verklagi opinberra aðila.
ViðhengiUmsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar er í viðhengi.
ViðhengiMeðfylgjandi er umsögn Læknafélags Íslands (LÍ).
Bestu kveðjur,
Steinunn Þórðardóttir
Formaður LÍ
Viðhengimeðfylgjandi er umsögn Félagsráðgjafafélags Íslands
ViðhengiVarðandi áform heilbrigðisráðherra um að mota skýrari lagaheimild fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að upplýsa lögreglu um heimilisofbeldi og um sérstaklega hættulega einstaklinga.
Ég fagna öllum breytingum sem miða að því að bæta stöðu og úrræði þolenda heimilisofbeldis. Ég tel einnig að mikilægt sé að sníða lagabálka betur að þörfum þolenda og að gæta þess að unnið sé að betri upplýsingagjöf frá heilbrigðisstarfsmönnum til lögreglu. Eflaust má einnig skerpa á tilkynningaskyldu heilbrigðisstarfsmanna að því er varðar börn skv. 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Í þessum áformum heilbrigðisráðherra erum við þó ekki að ræða um börn nema þá óbeint. Andlag fyrirhugaðrar lagasetningar er fullorðinn einstakllingur með sjálfsákvörðunarrétt sem nýtur mannréttinda og þar á meðal friðhelgis einkalífs. Vissulega eru þolendur ofbeldis í viðkvæmri stöðu og þurfa stuðning og vernd.
Ég leyfi mér þó að efast um að það að taka af einstaklingi völdin með þessum hætti sem fyrirhugaður er sé í raun réttlætanlegur með þá hagsmuni í huga sem vernda skal. Ég óttast það að fyrirhuguð lagasetning verði til þess að þolendur veigri sér við að leita sér læknishjálpar ef að sú læknishjálp verði til þess að völdin verði tekin af þeim með þessum hætti. Hætt er við að þolendur upplifi þessar aðgerðir, sem eru hugsaðar sem stuðningur til handa þolendum, sem enn frekara ofbeldi og valdbeitingu.
Mögulega væri vænlegra til árangurs að horfa til skaðaminnkandi nálgunar. Dæmi ums slíka nálgun væri að stofna þverfaglegt teymi og að skylt væri að kalla til ráðgjafa á vakt ef grunur er um heimilisofbeldi. Sá rágjafi myndi þá, koma og kynna úrræði fyrir viðkomandi. Innan þeirra úrræða væri kynnt hvert hægt sé að leita, mögulegt væri að kynna leiðir til að kæra, ef þolandi óskar þess og að aðgengi væri að slíkri þjónustu án þess að bíða þurfi í marga mánuði. Þetta þarf að vera virkt úrræði sem hægt er að grípa til samstundis.
Þá tel ég einnig að erfitt sé að setja slíkt huglægt mat í hendur heilbrigðisstarfsmanns sem þarf að meta það hvort að aðstæður séu með þeim hætti að rökstudd ástæða sé til þess að rjúfa þagnarskyldu. En hugsanlega væri þverfaglega samráði í fyrirhugaðri 19. gr. a eitthvað sem hægt væri að horfa til ef aðstæður væru þannig. En það er þá alltaf úrræði sem tekur tíma og þá er aftur spurningin hvort að það úrræði sé í raun virkt úrræði.
Ef að markmið fyrirhugaðrar lagasetningar er að bæta stuðning við þolendur heimilisofbeldis og að auka vernd þeirra tel ég að sá stuðningur megi ekki hafa það í för með sér að einstaklingar í þeirri stöðu veigri sér við að leita sér læknishjálpar en ég fagna því að verið sé að vinna áfram með hagsmuni þolenda í huga.